Hvað verður um póstinn?

Ársskýrsla Postnord er svört, skýrsla danska hlutans biksvört. Allt eigið fé danska hlutans er uppurið og tapið á síðasta ári nam einum og hálfum milljarði danskra króna (tæpum 24 milljörðum íslenskum). Danski peningakassinn er tómur.

Post_Danmark.jpg
Auglýsing

Í samfélagi nútímans er margt talið svo sjálfsagt að dagsdaglega leiða fæstir að því hugann að ekki sé allt sjálfgefið. Vatnið, kalt eða heitt eftir atvikum, bunar úr krananum, það er ylur á ofnunum, ljósin kvikna þegar ýtt er á slökkvarann og kaffivélin malar. Blaðið kemur inn um lúguna og það gerir pósturinn líka, oftar en ekki hinn svonefndi gluggapóstur (reikningar) sem vekur misjafnan fögnuð viðtakandans.

En ekki er allt sjálfgefið. Þetta sem hér hefur verið nefnt kostar peninga, jafnvel mikla peninga. Ef við borgum ekki rafmagnið og hitaveituna endar það með að ljósið kviknar ekki, kaffivélin murrar ekki og ofnarnir kólna. Þetta vita allir. En hvað gerist ef pósturinn kemur ekki? Þetta er spurning sem margir Danir spyrja sig þessa dagana og ekki að ástæðulausu. Og vita ekki svarið. Danska póstþjónustan er komin í þrot og enginn veit hvert framhaldið verður.

Aldagömul saga

Saga dönsku póstþjónustunnar hófst fyrir tæpum fjögur hundruð árum, á aðfangadag árið 1624 sendi sá mikli athafnakóngur Kristján IV út tilskipun um póstþjónustu. Kóngurinn skipaði jafnframt póstmeistara sem skyldi tvo tíma daglega vera til staðar í verslunar- og viðskiptahúsinu Børsen sem þá var nýbyggt á Hallarhólmanum. Starfsemi póstsins jókst svo jafnt og þétt, starfsfólki og pósthúsum fjölgaði hægt og rólega. Um aldamótin 1700 ákveðið var að rautt og gult, litir gömlu konungsfjölskyldunnar, Aldinborgaranna, skyldu vera einkennislitir póstsins. Allir Danir þekkja þessa liti og hinn sérstaki rauði litur er í Danmörku nefndur póstkassarauður.

Auglýsing

Frímerkin, götuheitin, járnbrautarlestirnar og bílarnir

Dönsk frímerki litu dagsins ljós árið 1851, að erlendri fyrirmynd. Haustið 1859 var ákveðið að öll hús í Kaupmannahöfn skyldu fá sérstakt húsnúmer. Þetta auðveldaði póstmönnum störfin, nú þurfti ekki lengur að skrifa „þriðja húsi frá horni“ eða „gula húsinu með gluggalausu útihurðinni“ til að auðkenna hvert póstsendingin ætti að fara. Götuheitin sjálf eru mun eldri.

Eftir að járnbrautarlestirnar komu til sögunnar í Danmörku um og eftir miðja 19. öldina urðu þær brátt mikilvægur hlekkur í póstdreifingarnetinu. Póstburðarmennirnir (starfið var karlastarf) á landsbyggðinni notuðust framan af við hesta en í Kaupmannahöfn báru póstmennirnir pokana sjálfir eða notuðu kerrur af ýmsu tagi.

Frímerki, póstnúmer og húsnúmer komu ekki til sögunnar fyrr en löngu eftir að póstþjónustan varð útbreidd.

Eftir aldamótin 1900 urðu breytingarnar meiri og örari. Bílar og reiðhjól urðu helstu hjálpar- og samgöngutæki póstmanna og segja má að þannig sé það enn í dag.

Pósturinn hefur frá upphafi gegnt mikilvægu hlutverki í dönsku samfélagi. Einkaréttinum á dreifingu bréfa og böggla, sem pósturinn hafði frá upphafi fylgdu líka skyldur og þannig er það enn. Allir landsmenn fengju póstinn heim til sín, eða í póstkassa við hliðið. Þessari þjónustu yrðu allir að geta treyst og kveðið var á um hve oft pósti skyldi dreift.

Póstnúmerin

1967 var framfaraár í póstþjónustunni. Það ár voru póstnúmerin innleidd. Hljómar kannski sem einfalt og sjálfsagt en skipti póstþjónustuna afar miklu máli. Póstnúmerin gerðu alla flokkunarvinnu miklu einfaldari en áður í landi þar sem margir staðir, í sitt hverjum landshluta bera sama nafnið. Þegar númerin voru komin til sögunnar lék enginn vafi á hvort móttakandi bréfs byggi í Svenstrup á Jótlandi eða Svenstrup á Sjálandi. Póstnúmerið sagði til um hvert bréfið skyldi fara.

Á árunum eftir 1970 og fram undir síðustu aldamót litu dagsins ljós fjölmargar tækniframfarir sem gerðu póstþjónustuna skilvirkari en áður. „Póstlagt í dag, í hendur viðtakanda á morgun“ varð vel þekkt slagorð sem sagði sitt um hve góð og hröð þjónustan var orðin.

Breytingar

Árið 1995 urðu umskipti. Einkaréttur póstsins á pakkasendingum var afnuminn og við það urðu miklar breytingar á starfsemi þessarar gamalgrónu stofnunar. Pósturinn var eigi að síður áfram í eigu ríkisins en stóð skyndilega frammi fyrir samkeppni, það var nýlunda.

Bréfin undirstaða rekstrarins

Á síðasta áratug liðinnar alda náðu bréfasendingar Dana hámarki. Árið 1999 sendu Danir samtals 1.500 milljónir bréfa. Síðan þá hefur margt breyst. Tölvurnar hafa að mestu leyti yfirtekið samskiptin, bréfasendingum hefur fækkað um 70 prósent, eru í dag um það bil 460 milljónir á ári. Ekki þarf að fara mörgum orðum um að þessi fækkun, réttara sagt hrun, hefur haft gríðarleg áhrif á rekstur póstsins.

Postnord

Þótt hrunið í póstþjónustunni hafi kannski gerst hraðar, og orðið meira en flesta óraði fyrir, er ekki hægt að segja að það hafi með öllu komið á óvart. Fljótlega upp úr aldamótum varð ljóst að hefðbundnar bréfasendingar heyrðu brátt, að talsverðu leyti, sögunni til. Þótt danski pósturinn, Post Danmark hafi um það leyti ráðist í umfangsmiklar breytingar, með hagræði að leiðarljósi, var hrunið í viðskiptunum (bréfapóstinum) meira en nokkurn grunaði. Þótt Danir væru fljótari en margar aðrar þjóðir að tileinka sér tölvutæknina í samskiptum og bréfasendingum voru tölvurnar alls staðar að taka yfir.

Árið 2009 gengu danska og sænska póstþjónustan í eina sæng, Postnord. Svíar eiga 60 prósent og Danir 40 prósent. Þetta var gert til að styrkja reksturinn í breyttum heimi póstsendinga. Margir Danir voru mjög andsnúnir þessari sameiningu, andstaðan var minni í Svíþjóð.

Postnord er sameiginlegt póstfyrirtæki Svía og Dana. Þar hefur hinum hefðbundnu rauðu og gulu litum verið skipt út fyrir ljósbláan.

Hærra verð en lakari þjónusta

Þrátt fyrir sameininguna við sænsku póstþjónustuna jukust erfiðleikar Postnord Danmark, danska hluta fyrirtækisins. Á allra síðustu árum hefur verið gripið til margháttaðra aðgerða til að rétta reksturinn af. Verð á bréfa- og pakkasendingum hefur hækkað mikið, póstdreifingu á laugardögum hefur verið hætt. Ekki er lengur hægt að tryggja að bréf berist til viðtakanda daginn eftir að það er póstlagt nema gegn margföldu gjaldi almenns bréfs. Hvað eftir annað hefur verið gripið til uppsagna; í mars næstkomandi missa rúmlega fimm hundruð vinnuna, og áframhaldandi uppsagnir blasa við. Starfsmenn Postnord Danmark eru nú um tíu þúsund, árið 2011 voru þeir fimmtán þúsund. Pósthúsum hefur verið lokað og póstafgreiðslur fluttar inn í verslanir í því skyni að draga úr kostnaði. Allt hefur komið fyrir ekki, tapreksturinn heldur áfram.

Allt eigið fé uppurið

Fyrir nokkrum dögum var birt ársuppgjör Postnord, bæði danska hlutans og þess sænska. Rekstur sænska hlutans gengur þokkalega og í ársskýrslunni kom fram að Svíar, sem eru um það bil helmingi fleiri en Danir, senda fimm bréf á móti hverju einu hjá Dönum. Þarna vegur þungt að Svíar geta valið hvort þeir fái opinberar sendingar í hefðbundnu bréfi eða með tölvupósti, í Danmörku fara allar slíkar sendingar um netið.

Ársskýrsla Postnord er svört, skýrsla danska hlutans biksvört. Allt eigið fé danska hlutans er uppurið og tapið á síðasta ári nam einum og hálfum milljarði danskra króna (tæpum 24 milljörðum íslenskum). Danski peningakassinn er tómur.

Svíar ósáttir við að bera danskt tap

Þótt rekstur Postnord skiptist í tvo hluta, danskan og sænskan, er þó eigi að síður um að ræða eitt fyrirtæki. Í Svíþjóð eru háværar raddir sem krefjast þess að reksturinn verði algjörlega aðskilinn, með því móti beri Svíar ekki ábyrgð á rekstrinum í Danmörku. Sænskir fjölmiðlar hafa meðal annars talað um það fyrirkomulag hjá Dönum að þar er þriðjungur starfsmanna póstsins embættismenn. Sem þýðir að sé starf viðkomandi lagt niður eru honum tryggð laun í þrjú ár. „Galið fyrirkomulag” sagði eitt sænsku blaðanna og margir tóku undir.

Hvað verður um danska póstinn?

Svarið við þessari spurningu veit enginn. Ljóst virðist að ekki verður lengra gengið í fækkun starfsmanna og stórhækkað verð á þjónustunni, einn ganginn enn, myndi mæta mikilli andstöðu. Svíar sem eiga meirihluta í Postnord virðast ekki spenntir fyrir að bera tapið á þjónustunni í Danmörku.

Yfirstjórn Postnord Danmark vinnur nú að tillögum og áætlunum sem væntanlega koma til kasta danska þingsins á næstu vikum og mánuðum. Danskir stjórnmálamenn hafa verið varkárir í orðum, þeir hafa lýst undrun sinni og áhyggjum yfir því hvernig komið er. Þeir segja allir sem einn að lausnin sé ekki augljós en hana verði að finna, málið þoli enga bið.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None