Tekjuhærri landsmenn eru marktækt ánægðari með ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar en þeir sem hafa lægri tekjur. Þeir eru líka mun líklegri til að vera ánægðir með innihald stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Réttara væri reyndar að segja að færri í þeim hópi sem hafa umtalsvert hærri tekjur en meðaltekjur eru óánægðir með ríkisstjórnina og stjórnarsáttmálann en í þeim hópum sem hafa miðlungs- eða lægri tekjur, í ljósi þess að ánægja með hvort tveggja mælist mjög takmörkuð. Almennt er þjóðin óánægð með stjórnarsamstarfið og sáttmálann sem það hvílir á.
Þetta má lesa út úr nýjasta þjóðarpúlsi Gallup.
Ríkir ánægðari en hinir
Í könnun Gallup kemur fram að í þeim hópum Íslendinga sem voru með undir 550 þúsund krónur í mánaðarlaun mældist ánægja með ríkisstjórnina á bilinu 13-21 prósent. Minnst mældist ánægjan í tekjuhópnum sem hafði 400-549 þúsund krónur á mánuði, en einungis 13 prósent aðspurðra í honum var ánægður með ríkisstjórnina.
Marktækt meiri ánægja er á meðal tekjuhærri hópa samfélagsins með ríkisstjórnina. Á meðal þeirra tekjuhópa sem eru með yfir 800 þúsund krónur í mánaðarlaun mælist ánægjan á bilinu 25-34 prósent. Mest er ánægjan hjá efsta tekjuhópnum, þ.e. þeim sem hafa yfir 1.250 þúsund krónur í mánaðarlaun. Innan þess hóps eru 34 prósent aðspurðra ánægðir með ríkisstjórnina. Samanlagt mælist ánægja með ríkisstjórnina einungis um 25 prósent þannig að marktækt meiri ánægja er með hana hjá tekjuhæstu hópunum en öllum hinum.
Tekjuhærri hópar samfélagsins eru líka mun ánægðari með stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar en þeir sem eru tekjulægri. Hjá þeim landsmönnum sem tilheyra tekjuhópum með laun upp að 550 þúsund krónum mældist ánægjan með stjórnarsáttmálann einungis á bilinu 12-16 prósent. Minnst var ánægjan hjá þeim sem eru með 400 til 549 þúsund krónur á mánuði, eða 12 prósent.
Hjá tekjuhópum með yfir 800 þúsund krónur á mánuði var ánægja með stjórnarsáttmálann á bilinu 27-32 prósent, og mest hjá þeim sem voru með yfir 1.250 þúsund krónur á mánuði.
Sex prósent kjósenda Bjartar framtíðar ánægðir með sáttmálann
Í könnun Gallup kemur líka fram að karlar eru mun ánægðari með ríkisstjórnina en konur. Alls sögðust 30 prósent karla vera ánægðir með hana en 19 prósent kvenna. Áður hefur verið greint frá því að einungis 14 prósent þeirra sem kusu Bjartra framtíð, sem situr í ríkisstjórninni, eru ánægðir með störf hennar. Til viðbótar eru einungis sex prósent kjósenda Bjartrar framtíðar ánægðir með stjórnarsáttmála flokkanna þriggja.
Til samanburðar eru 67 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks ánægðir með ríkisstjórnina og 39 prósent kjósenda Viðreisnar. Aðeins minni ánægja er meðal þeirra með stjórnarsáttmálann. 35 prósent kjósenda Viðreisnar eru sáttir með hann en 59 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks.
Menntun telur þegar kemur að þekkingu
Í Þjóðarpúlsinum var líka spurt hvort fólk teldi sig þekkja innihald stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í niðurstöðunum kom í ljós að um 31 prósent taldi sig þekkja innihaldið vel, 37 prósent hvorki vel né illa en um 32 prósent tali sig þekkja það illa.
Skýr munur var á því eftir menntun hvort fólk þekkti innihald stjórnarsáttmálans eða ekki. Þannig þekktu 39 prósent aðspurðra sem eru með háskólapróf innihald hans en einungis 22 prósent þeirra sem voru með grunnskólapróf sem æðstu menntun. Karlar (39 prósent) töldu sig þekkja hann mun betur en konur (26 prósent) og tekjuhæsti hópur landsmanna, sá sem hefur yfir 1.250 þúsund krónur í mánaðarlaun, taldi sig þekkja hann mun betur en aðrir (46 prósent).
Könnunin var netkönnun sem gerð var dagana 1. til 12. febrúar 2017. Heildarúrtaksstærð var 1.402 og þátttökuhlutfall var 59,5 prósent. Einstaklingar voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.