Karlo Jännäri, sérfræðingur sem var fengin til Íslands skömmu eftir bankahrunið til að greina framkvæmd og eftirlit með fjármálastarfsemi hérlendis, sagði það hafa verið mikinn galla að Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið (FME) hefðu ekki heyrt undir sama ráðuneyti. Í skýrslu sem kann skilaði kom fram að sameina ætti þær stofnanir hið fyrsta, í það minnsta færa þær undir sama ráðuneyti.
Á árinu 2009 var stofnað sérstakt efnahags- og viðskiptaráðuneyti og yfirstjórn bæði Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits færð undir það ráðuneyti. Síðar voru báðar stofnanirnar færðar undir fjármála- og efnahagsráðuneytið og því hefur ráðgjöf Jännäri verið fylgt að mestu undanfarin ár. Þ.e. að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið hafa heyrt undir sama ráðuneyti. Á þessu var breyting í janúar þegar málefni Seðlabankans voru færð yfir til forsætisráðuneytisins. Að sögn Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra var það gert til að tryggja sjálfstæði Seðlabankans.
Þar með var yfirstjórn yfir Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits slitin aftur í sundur, þvert á þær ráðleggingar sem Jännäri hafði veitt eftir bankahrunið.
Sérfræðingar kallaðir til
Íslenska efnahagskerfið er ekki fyrsta ríkið sem farið hefur á hliðina, þótt umfangið hafi verið meira hérlendis en hjá flestum öðrum sem hafa gengið í gegnum slíkt. Þegar hið risastóra verkefni að endurskipuleggja hagkerfið lá fyrir var því hægt að horfa reynslu og árangur ýmissa annarra ríkja til að finna uppskriftir að velgengni eða víti til varnaðar.
Margir sérfræðingar litu til Norðurlandaþjóðanna, einkum Finna og Svía, og hvernig þær höfðu brugðist við sinni bankakreppu snemma á tíunda áratugnum.
Sérfræðingar frá þeim löndum komu hingað til lands til að aðstoða stjórnvöld fyrir tilstuðlan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hafði þá tekin Ísland inn í svokallaða efnahagsáætlun, sem í fólst að sjóðurinn lánaði félausu ríkinu um 250 milljarða króna auk þess sem hin Norðurlöndin og Pólland tryggðu Íslandi aðgang að allt að 150 milljörðum króna í lánsfé. Á móti skuldbatt Ísland sig til að grípa til margháttaðra aðgerða til að ná efnahagslegum stöðugleika eftir það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði kallað „hinn fullkomna storm“ sem geysaði hér í október 2008. Í áætluninni fólst endurreisn fjármálakerfis, að aðlaga ríkisfjármál að gjörbreyttum aðstæðum og endurnýja aðgang ríkisins að alþjóðlegum mörkuðum. Þá átti að vinna að lausn á skuldavanda íslenskra heimila og fyrirtækja og endurreisa traust á íslenskt efnahagslíf.
Fjármálaeftirlit og Seðlabankinn eiga að vera saman
Til að ná síðastnefnda markmiðinu, að endurreisa traust á íslenskt efnahagslíf, var Finninn Kaarlo Jännäri fengið til að aðstoða íslendinga við að fara yfir regluverk og fjármálaeftirlit hérlendis. Jännäri var forstöðumaður fjármálaeftirlitsins í Finnlandi á árunum 1996 til 2007 og mjög reyndur bankaeftirlitsmaður sem þekkti slíkt breytingaferli mjög vel. Hann hafði líka verið forstöðumaður fjármálamarkaðadeildar finnska seðlabankans og verið bæði forstjóri og stjórnarformaður SKOP-bankans eftir að hann var tekinn yfir af finnskum stjórnvöldum snemma á tíunda áratugnum. Jännäri hafði auk þess sinnt margháttaðri ráðgjöf fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, OECD og Seðlabanka Evrópu.
Í áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins stóð að Jännäri myndi „einkum beina sjónum að reglum um lausafjárstýringu, lán til tengdra aðila, stórar einstakar áhættur, krosseignatengsl og hagsmunalegt sjálfstæði eigenda og stjórnenda.“
Jännäri skilaði skýrslu í lok mars 2009. Þar fjallaði hann meðal annars sérstaklega um framkvæmd og eftirlit með fjármálastarfsemi hérlendis. Hann sagði galla á þeim þáttum. Þar bæri hæst aðskilnaður Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins en Jännari taldi að sameina ætti þær stofnanir hið fyrsta, í það minnsta færa þær undir sama ráðuneyti.
Hann sagði mikinn galla hafa verið fólginn í því fyrir hrun að Seðlabankinn heyrði undir forsætisráðuneytið og Fjármálaeftirlitið undir viðskiptaráðuneytið en það fæli það í sér að lítil samskipti væru á milli þessara stofnana sem þó þyrftu að hafa náið samráð.
Í kjölfarið bjó ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur til nýtt ráðuneyti, efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Ráðuneytið tók við verkefnum á sviði efnahagsmála úr forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti, þar með talið yfirstjórn Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands. Starfsemi efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytis fluttist til ráðuneytisins og hluti af efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis. Þá fluttust málefni sem varða bókhald, endurskoðendur og ársreikninga til ráðuneytisins.
Ráðuneytið erfði jafnframt flest verkefni viðskiptaráðuneytisins, meðal annars yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins, Einkaleyfastofu og Samkeppniseftirlitsins.
Ákvörðunin byggði á tillögum Jännäri.
Ráðgjöf fylgt
Þann 1. september 2012, nokkrum mánuðum fyrir þingkosningarnar 2013, var fjármálaráðuneytinu breytt í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Verkefni á sviði efnahagsmála, þar með talið yfirstjórn yfir Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirliti, fluttist yfir í það ráðuneyti. Það skipulag hélst síðan eftir stjórnarskiptin vorið 2013, þegar ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við völdum.
Í janúar, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tók við völdum á Íslandi, undir forsæti Bjarna Benediktssonar, varð breyting á. Málefni Seðlabankans voru færð frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu yfir til forsætisráðuneytisins. Þar með var yfirstjórn yfir Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlits slitin aftur í sundur, þvert á þær ráðleggingar sem Jännäri hafði veitt eftir bankahrunið.
Kjarninn leitaði eftir skýringum á þessum breytingum hjá forsætisráðuneytinu í febrúar. Í svari þess kom fram að rökin fyrir flutningnum fælust í því að vegna sjálfstæðis Seðlabankans væri æskilegt að yfirstjórn hans og samþykkt peninga- og gengisstefnu sé í öðru ráðuneyti en því sem fer með fjármál ríkisins. Náin tengsl væru milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Seðlabankans á ýmsum sviðum. „Þar má nefna fjárhagsleg samskipti Seðlabanka og ríkissjóðs, gengismál og nú á síðustu árum losun fjármagnshafta, samskipti um efnahagsmál og samskipti við lánshæfismatsfyrirtæki og alþjóðastofnanir. Rökin fyrir flutningi málefna Seðlabankans yfir til forsætisráðuneytisins felast í því að vegna sjálfstæðis Seðlabankans sé æskilegt að yfirstjórn hans og samþykkt peninga- og gengisstefnu sé í öðru ráðuneyti en því sem fer með fjármál ríkisins.“
Fyrrverandi samherjar takast á
Mennirnir tveir sem mynduðu saman ríkisstjórn eftir kosningarnar 2013, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson, tókust á um þessi mál í þinginu í gær.
Sigmundur Davíð spurði Bjarna þar um þær breytingar sem gerðar voru hjá nýrri ríkisstjórn að færa málefni Seðlabankans frá fjármálaráðuneytinu og til forsætisráðuneytisins. Hann vitnaði í ofangreint svar Bjarna við fyrirspurn Kjarnans um málið. Sigmundur Davíð spurði hvenær Bjarni hefði uppgötvað þetta, hvort það hefði verið áður en hann tók við embætti fjármálaráðherra eða á meðan, og hvaða hagsmunir hefðu orðið ofan á hjá honum sjálfum þegar hagsmunaárekstrar hefðu komið upp.
Bjarni svaraði því til að þetta væru ein rökin fyrir því að færa málefni Seðlabankans milli ráðuneyta. Það væri vegna tiltölulega nýrrar lagabreytingar, og meðal annars vegna þess að Seðlabankinn geti við vissar aðstæður kallað eftir framlagi frá ríkinu. Bjarni segist ætla að lyfta upp því hlutverki forsætisráðuneytisins sem hafi með hagstjórn almennt að gera, og ráða inn sérfræðinga í forsætisráðuneytið í þessu skyni.
Til stendur að selja þá banka sem voru endurreistir eftir bankahrunið á næstu misserum. Nú standa yfir viðræður um að kaupa helmingshlut í Arion banka og skrá bankann í kjölfarið á markað. Þeir sem að þeim tilraunum standa eru annars vegar bandarískir vogunarsjóðir og hins vegar íslenskir lífeyrissjóðir. Til viðbótar er það yfirlýst stefna sitjandi ríkisstjórnar að selja allan hlut ríkisins í Íslandsbanka og stærstan hlut þess í Landsbankanum.
Því er þess skammt að bíða, gangi áætlanir eftir, að bönkum verði aftur stjórnar beint af einkafjárfestum með önnur markmið en hafa verið í fyrirrúmi hjá þeim á endurreisnartíma íslensks efnahagslífs. Og þau lögmál sem giltu á árunum fyrir hrun verði aftur ofan á á íslenskum fjármálamarkaði.