Þegar Daniel Kristiansen, 14 ára grunnskólanemi og bóndasonur í Birkelse á Norður-Jótlandi skammt frá Álaborg, sagði foreldrum sínum frá því að hann ætti að skrifa ritgerð um eitthvað sem tengdist heimstsyrjöldinni síðari, sagði pabbi hans „við ættum kannski að leita að þessari þýsku flugvél sem afi minntist svo oft á.” Hvorki Daniel né Klaus pabba hans grunaði að þeir feðgar yrðu, eftir nokkra daga á forsíðum fjölmiðla víða um heim.
Klaus hafði alltaf haldið að þessi saga, sem afi hans hafði svo oft sagt, væri bara tilbúningur. Afinn sagðist hafa verið að baka smákökur, ætlaðar til jólanna, þegar flugvél hefði skollið í jörðina á opnu svæði, mýrarfláka, skammt frá bænum, þar sem barnabarnið Klaus býr ennþá. Þetta var í nóvember 1944.
Daniel sem hefur mikinn áhuga á öllu því sem tengist síðari heimsstyrjöldinni leist vel á þessa hugmynd pabba síns, þótt hann hefði enga trú á að þeir fyndu neitt. Hann gæti þá bara skrifað um þessa sögu sem langafi hans hafði sagt, en langafinn hafði líka sagt að Þjóðverjar hefðu fljótlega eftir slysið komið á staðinn og fjarlægt flakið.
Málmleitartækið kom þeim á sporið
Þeir feðgar, Daniel og Klaus leigðu málmleitartæki og fóru síðan út að leita, tóku reku með. „Ég vonaði að við myndum kannski finna einn eða tvo smáhluti sem ég gæti farið með í skólann” sagði Daniel. Ekki höfðu þeir feðgar leitað lengi þegar tækið gaf merki. Þegar þeir höfðu grafið tíu til fimmtán sentimetra komu þeir niður á smá málmhlut sem þeir gátu ekki áttað sig á hvort væri úr flugvél eða einhverju öðru. En málmleitartækið hélt áfram að láta í sér heyra og þeim Daniel og Klaus varð ljóst að þarna í jörðinni lægi fleira grafið en þetta járnstykki sem þeir höfðu fyrst fundið. Þeim varð líka ljóst, eftir að hafa grafið dálitla holu, að þeir yrðu að nota öflugra tæki en rekuna sem þeir höfðu tekið með. Daniel sagði í viðtali að þarna hefði hann áttað sig á því að langafi hefði ekki verið að grínast.
Það var djúpt á flakinu
Klaus bóndi á traktorsgröfu, hún getur þó ekki grafið nema tvo til þrjá metra niður og þegar þangað var komið pípti tækið enn. Nú voru þeir feðgar orðnir mjög spenntir og ekki kom til greina að hætta leitinni. Fengin var stærri grafa og þegar holan var orðin sjö til átta metra djúp kom flakið í ljós. Vélin hafði bersýnilega splundrast þegar hún skall í jörðina en augljóst virtist að ekki hefði kviknað í henni. Líkamsleifar flugmannsins voru í flakinu.
Feðgarnir fjarlægðu strax talsvert af málmhlutum sem virtust vera úr búk og vængjum vélarinnar en kölluðu síðan til sérfræðinga. Í samvinnu við þá var mótor vélarinnar, sem var heillegasti hluti þess sem fannst, fluttur í skemmu við bóndabæinn. Líkamsleifar flugmannsins voru einnig fjarlægðar úr flakinu.
Fréttin af flugvélarfundinum vakti athygli víða um heim
Danskir fjölmiðlar greindu fyrstir frá fundinum en strax kom í ljós að þessi frétt var ekki bara „til heimabrúks”, hún barst á svipstundu um víða veröld. Vitað var að vélin var þýsk, og því líklegt að flugmaðurinn hafi verið Þjóðverji, en í upphafi var fátt annað vitað með vissu. Það átti eftir að breytast.
Var í æfingaflugi
Í Danmörku er mikill áhugi fyrir öllu því sem viðkemur sögu síðari heimsstyrjaldar og árlega kemur út fjöldi bóka um efni sem henni tengjast. Margir, einkum karlar, grúska í gömlu efni og því þurfti ekki að bíða lengi eftir að einhverjar uppýsingar kæmu fram varðandi þessa flugvél sem endaði í mýrinni við Birkelse. Sögugrúskarinn Søren C. Flensted greindi frá því daginn eftir að greint var frá flugvélarfundinum að flugmaðurinn hefði heitið Bruno Krüger. Hann hafi farið í æfingaflug 27 nóvember 1944 frá flugvellinum í Rördal austan við Álaborg, þar sem Þjóðverjar voru með stóra herstöð, og vélin brotlent við Birkelse. Þessar upplýsingar hafði Søren Flensted fundið í þýskum skjalasöfnum. Þar kom líka fram að vélin var Messerschmitt Bf 109, eins hreyfils vél, með einu sæti.
Þótt Þjóðverjar hafi lagt mikla áherslu á að finna og jarðsetja fallna hermenn virðast þeir ekki hafa reynt að finna lík Krügers í mýrinni. Þegar þarna var komið (í nóvember 1944) voru Þjóðverjar orðnir mjög aðþrengdir og kannski hefur það ráðið því að ekki var reynt að sækja lík Krügers. Tíu dögum áður hafði annar þýskur flugmaður farist í æfingaflugi á svipuðum slóðum, sá var jarðsettur í Frederikshavn. Þjóðverjr höfðu misst marga menn og nýir flugmenn fengu iðulega litla æfingu, auk þess var eldsneytið sem notað var á herflugvélarnar lélegt.
Horfði á vélina fljúga í jörðina
Þennan nóvemberdag árið 1944 var Sigurd Jensen, 22 ára gamall maður frá Brovst skammt frá Birkelse, að stinga upp mó til eldiviðar. Sigurd Jensen sem nú er að verða 95 ára fylgdist með flugvél sem hringsólaði skammt frá honum, flaug upp og niður, greinilega í æfingaflugi. Skyndilega sá hann að vélin tók stefnuna, á fullri ferð, beint niður og skall svo í mýrina. Að sögn Sigurd þeyttust brot úr vélinni og mold í allar áttir. „ Ég hugsaði með mér að flugmaðurinn hefði ákveðið að enda þátttöku sína í stríðinu með þessum hætti”.
Fréttin um flugvélafundinn kom Sigurd á óvart. Hann taldi víst að Þjóðverjar hefðu komið og fjarlægt lík flugmannsins og leifarnar af vélinni.
Skotvopn, matarmiðar og smokkar
Danskir fjölmiðlar hafa greint frá því að í flaki vélarinnar hafi fundist hríðskotabyssa og í lítilli tösku sem flugmaðurinn hafði verið með á sér hafi verið matarmiðar (mötuneytismiðar) og nokkrir smokkar. Fjölmiðlar víða um heim slógu þessu með smokkana upp í fyrirsögnum, sumir jafnvel í háðungartón. Skýringin er hinsvegar ekki flókin og á ekkert skylt við hefðbundna notkun vörunnar. Smokkurinn var hluti neyðarbúnaðar þýskra flugmanna, hugsaður sem vatnsbrúsi í neyð. Léttur, fyrirferðarlítill og vatnsheldur.
Messerschmitt vélarnar eftirsóttir safngripir
Alls voru smíðaðar tæplega 34 þúsund Messerschmitt Bf 109 vélar, þær fyrstu voru teknar í notkun árið 1937 en sögu þeirra lauk með niðurlagi Þjóðverja í heimsstyrjöldinni síðari. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda sem smíðaður var eru tiltölulega fáar vélar af þessari gerð til. Margar fórust í stríðinu og flestar þeirra sem eftir voru í stríðslok voru bútaðar niður og málmurinn, sem mikill skortur var á eftir stríðið, notaður í annað. Eftirspurn eftir Bf 109 er þess vegna mikil og reikna má með að mörg söfn vilji komast yfir flakið af vélinni sem fannst við Birkelse. Af myndum að dæma er geysimikið verk að endurbyggja vélina, ef það er á annað borð framkvæmanlegt.
Eins og áður sagði er mikill áhugi í Danmörku fyrir öllu því sem viðkemur heimsstyrjöldinni síðari. Ef söfn komast yfir eitthvað merkilegt frá heimstyrjaldarárunum eykst aðsóknin. Ringköbing – Skjern safnið á Vestur-Jótlandi opnaði fyrir nokkrum árum gamalt loftvarnabyrgi sem Þjóðverjar gerðu á hernámsárunum í Danmörku. Árið eftir jókst aðsóknin um 400 prósent.
Daniel og ritgerðin
Aðeins eru liðnir nokkrir dagar frá því að Daniel fór ásamt föður sínum að leita að flugvélarflakinu í mýrinni. Hvernig honum vegnar við ritgerðarsmíðina er ókomið í ljós en eitt er víst: efniviðinn skortir ekki.