Gengi krónunnar gagnvart erlendum myntum hefur mikið verið í umræðunni að undanförnu, bæði hjá stjórnmálamönnum og einnig hjá almenningi og fyrirtækjum. Gengið hefur styrkst töluvert gagnvart helstu alþjóðlegu myntum, einkum á undanförnum sex mánuðum, og margt sem bendir til þess að það geti haldið áfram að styrkjast ef ekki kemur til mikilla inngripa frá Seðlabanka Íslands.
Mikið innstreymi
Gjaldeyrisinnstreymi frá erlendum ferðamönnum er mikið og stöðugt en því er spáð, í nýrri skýrslu greiningardeildar Íslandsbanka, að það verði meira en 530 milljarðar króna á þessu ári, samanborið við ríflega 460 milljarða í fyrra.
Stjórnvöld hafa nú skipað verkefnisstjórn til að endurskoða peningamálastefnuna en þau dr. Ásgeir Jónsson, hagfræðingur við Háskóla Íslands, Ásdís Kristjánsdóttir, hagfræðingur á efnahagssviði Samtaka atvinnulífsins, og Illugi Gunnarsson, hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður og ráðherra, eru í verkefnastjórninni.
Eitt af því sem er verið að skoða eru hugmyndir um fastgengisstefnu og myntráð, en Viðreisn talaði mikið fyrir þessari hugmynd í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar 29. október og í tilkynningu um skipun verkefnastjórnarinnar er á það minnst þetta verði skoðað sérstaklega.
Krónan og sveiflurnar
Eftir hrun fjármálakerfisins og setningu fjármagnshafta í nóvember 2008 hefur efnahagslífið í landinu verið endurreist í allt öðrum gengisveruleika en var áður fyrir hendi. Gengi krónunnar hrundi, og það lagði grunninn að sterkari stöðu útflutningshliðar hagkerfisins, ekki síst ferðaþjónustu og sjávarútvegs.
Þegar gengið var sem sterkast þá kostaði Bandaríkjadalur 58 krónur, árið 2007, en eftir hrunið hefur allt annar veruleiki verið fyrir hendi. Eftir styrkingarþróun síðustu mánaða er Bandaríkjadalurinn nú á 109 krónur og evran á 116 krónur, en fyrir rúmlega ári kostaði dalurinn 135 krónur og evran tæplega 140. Styrkingin hefur því verið mikil á skömmum tíma, þrátt fyrir gjaldeyriskaup Seðlabanka Íslands sem drógu úr styrkingunni.
Ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar kallaði eftir mati ýmissa aðila á því hvaða áhrif áframhaldandi styrking krónunnar gæti haft á þjóðarbúið og hinar ýmsu atvinnugreinar. Flestir voru sammála um að ef krónan myndi halda áfram að styrkjast, þá myndi smátt og smátt fjara undan rekstri útflutningsfyrirtækja. Þá kom fram hávær krafa um að hagstjórnin þyrfti að ýta undir meiri stöðugleika.
Ólíkir hagsmunir
Í samtölum blaðamanns við fólk sem rekur fyrirtæki í tækni- og iðntæknigeiranum, þar sem tekjur eru í erlendri mynt og tekjur í krónum, kom fram að krónan mætti ekki styrkjast mikið frá því sem nú er, þannig að það færi að bitna verulega á samkeppnishæfni gagnvart helstu keppinautum erlendis. Eftir hrunið hefur það verið einn helsti kostur tæknifyrirtækja á Íslandi, og annarra útflutningsfyrirtækja, að tekjurnar hafa verið í erlendri mynt, en kostnaður að miklu leyti í krónum, og ýtti veik staða krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum undir meiri samkeppnishæfni hvað þetta snertir.
Svipaða sögu var að segja úr sjávarútvegi, en þó má heyra miklar áhyggjur þar af stöðu mála á mörkuðum erlendis. Gengisstyrkingin kemur illa við fyrirtæki, á sama tíma og þau þurfa að hafa meira fyrir því en áður að koma vörum til kaupenda.
Í ferðaþjónustunni hafa hagsmunasamtökin, Samtök ferðaþjónustunnar, gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir að huga ekki nægilega að innviðum í greininni, eins og samgöngum og fleiru, sem styrkir stoðirnar til lengdar litið. Áhyggjur af styrkingu krónunnar eru töluverðar, enda algengt að viðskipti fari fram með miklum fyrirvara, þar sem ferðir eru pantaðar langt fram í tímann. Viðvarandi gengisstyrking kemur sér því illa.
Hin hliðin
Á sama tíma þarf að huga að hinni hliðinni, sem er sú að gengisstyrkingin getur fært almenningi aukinn kaupmátt og hún dregur úr verðbólguþrýstingi. Verðbólga hefur haldist undir 2,5 prósent markmiði Seðlabanka Íslands í meira en þrjú ár, og mælist nú 1,9 prósent.
En það eru sársaukamörk í þessum örhagkerfi þar sem sveiflur hafa verið tíðar, með innan við 200 þúsund einstaklinga á vinnumarkaði. Til lengdar eru hagsmunir almennings þeir, að staðan í þjóðarbúinu sé sjálfbær og samkeppnishæfni hagkerfisins þurfi að fara saman við hagsmuni fyrirtækja, og þar með almennings á endanum. Þessum boðskap er auðvelt að koma á framfæri en sagan sýnir að það er snúið að ástunda hagstjórnina með þeim hætti að allir kraftar verki í rétta ár.
Hugmyndirnar um fastgengisstefnu og myntráð byggja á því að meta hvar æskilegt sé að hafa gengi krónunnar, með tilliti til rekstur fyrirtækja og stöðu hagkerfisins. Hinn mikli vöxtur í ferðaþjónustunni, sem hefur aukið á innstreymi gjaldeyris svo um munar, hefur haft viðtæk áhrif í öllum geirum, eins og í verslun, bílaviðskiptum, veitingastarfsemi og ýmsu fleiru. Það er því að mörgu að huga þegar skoða þarf, hvernig best sé að koma á gengisstöðugleika og fyrir hvaða fórnarkostnað.