Búist er við því að rannsókn á aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser á kaupum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum snemma árs 2003 ljúki á næstunni. Samkvæmt heimildum Kjarnans er stefnt að því að birta niðurstöður rannsóknarinnar 29. mars en sú dagsetning hefur þó ekki verið að öllu leyti niðurnegld.
Alþingi samþykkti í júní 2016 þingsályktunartillögu um að aðkoma þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á 45,8 prósent hlut í Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003 yrði rannsökuð af sérstakri rannsóknarnefnd sem myndi hafa víðtækar heimildir til að kalla eftir upplýsingum. Rannsókn málsins átti að vera lokið fyrir árslok sama ár og var tekið fram að einn maður myndi skipa rannsóknarnefndina.
Í byrjun júlí 2016 var Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, skipaður til að fara með rannsóknina. Kjartan Bjarni var um tíma aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis, og vann hjá embættinu frá árinu 2002 til 2009. Hann starfaði síðar hjá EFTA-dómstólnum. Kjartan Bjarni var skipaður í héraðsdómari í maí 2015.
Rannsóknin beinist sérstaklega að hlut þýska einkabankans Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum í byrjun árs 2003. Ákveðið var að ráðast í hana eftir ábendingu Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, sem sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf í júnímánuði 2016 þar sem hann lagði til að skipuð yrði rannsóknarnefnd um málið. Þetta eigi að gera vegna þess að Tryggvi hafi nýjar upplýsingar sem byggja á ábendingum um hver raunveruleg þátttaka þýska bankans var. Samkvæmt heimildum Kjarnans mun rannsóknin meðal annars snúast um hvort Kaupþing, sem var sameinaður Búnaðarbankanum skömmu eftir að söluna á bankanum, hafi fjármagnað Hauck & Aufhäuser.
Kjarninn fjallaði ítarlega um málið í fréttaskýringu í lok maí 2016.
Vildu ekki gefa skýrslu
Rannsókn Kjartans Bjarna hefur þó ekki gengið snurðulaust fyrir sig og fresta hefur þurfti skilum á niðurstöðu. Þegar Kjartan Bjarni ætlaði að kalla til einstaklinga til að gefa skýrslu í málinu reyndust þeir einstaklingar ekki viljugir til þess að gera slíkt að óbreyttu. Skýrslutökunum átti að vera stýrt af dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, Ásmundi Helgasyni. Þrír einstaklingar sem áttu að gefa skýrslu neituðu hins vegar að mæta nema að Ásmundur myndi víkja fyrst sæti sökum vanhæfis. Það vanhæfi var sagt lúta að því að hann væri dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur líkt og Kjartan Bjarni. Hæstiréttur hafnaði þessum kröfum í lok nóvember 2016. Einn þeirra sem neitaði að gefa skýrslu á þessum tíma var Ólafur Ólafsson kaupsýslumaður, sem var eigandi tíu prósent eignarhlutar í Kaupþingi þegar hann féll haustið 2008. Ólafur er líka fyrrverandi stjórnarformaður Eglu sem var hluti S-hópsins svokallaða. Annar sem var kallaður til skýrslutöku var Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eglu.
Mennirnir töldu sér hins vegar ekki skylt að gefa skýrslu fyrir dómi og fóru fram á staðfestingu dómstóla þess efnis. Lögmaður Ólafs og Guðmundar, Gísli Guðni Hall, sendi tilkynningu fyrir þeirra hönd þar sem því var haldið fram að allt í kringum rannsóknarferlið væri „undarlegt, fordæmalaust og byggt á órökstuddum dylgjum.“ Héraðsdómur úrskurðaði skömmu fyrir jól 2016 að þeim yrði ekki gert að gefa skýrslu fyrir dómi en Hæstiréttur snéri þeirri ákvörðun um miðjan janúar síðastliðinn og komst að þeirri niðurstöðu ekki væri stoð fyrir því í ákvæðum laga að þeir gætu skorast með öllu undan því að gefa vitnaskýrslu fyrir dómi. Skýrslutökur fóru fram loks fram 30. janúar.
Í kjölfar þeirra var hægt að ljúka vinnu við rannsóknina og nú stefnir í að niðurstaða hennar verði birt undir lok marsmánaðar.
Opnar síðu með eigin skýringum á söluferlinu
Daginn eftir að skýrslutökur fóru fram sendi almannatengslafyrirtækið KOM, sem starfar fyrir Ólaf Ólafsson, frá sér tilkynningu þar sem sagt var að engin ný gögn hefðu verið lögð fram við rannsóknina. Þar var eftirfarandi haft eftir Ólafi: „Ég hef ávallt verið reiðubúinn að láta af hendi öll gögn sem snúa að mér og mínum félögum í þessu ferli sem átti sér stað fyrir nærri 15 árum. Þessi uppákoma fyrir héraðsdómi í gær, þar sem mér eru sýndar gamlar blaðaúrklippur, styrkir mig í þeirri trú að rannsóknarnefndin hafi verið sett á fót til að leysa pólitískan ágreining á Alþingi fyrir kosningar um hvernig ætti að standa að rannsókn á einkavæðingu bankanna. Verra er þegar einstaklingar eru dregnir inn í þann skollaleik, þeir sviptir sjálfsögðum mannréttindum við rannsókn málsins og gjörðir þeirra gerðar tortryggilegar í augum almennings. Ég frábið mér að vera þátttakandi í slíku pólitísku leikriti.“
Í tilkynningunni kom einnig fram að Ólafur væri að láta vinna samantekt til opinberrar birtingar þar sem farið yrði yfir söluferli Búnaðarbankans, frumgögn birt og spurningum svarað. Þessi samantekt mun birtast á vefnum soluferli.issem KOM er skráð fyrir. Almannatengslafyrirtækið mun auk þess sjá um efnið sem birtist á vefnum.