Þrír af fjórum stærstu hlutabréfasjóðum landsins, sem skráðir eru sem íslenskir hlutabréfasjóðir á vef Keldunnar, hafa ekki átt góðu gengi að fagna á markaði undanfarna tólf mánuði. Stærsti sjóðurinn, Stefnir ÍS 15, er með neikvæða ávöxtun upp á tæplega 16 prósent en stærð þess sjóðs er 37,8 milljarðar króna.
Versta ávöxtunin af öllum sjóðunum er hjá tveimur hlutabréfasjóðum Landsbréfa. Neikvæð ávöxtun Landsbréfa - Úrvalsbréfa er 16,8 prósent og hjá Landsbréfum - Öndvegisbréf, er hún 17,3 prósent.
Samanlögð stærð þessara tveggja sjóða hjá Landsbréfum nemur um 22,7 milljörðum króna.
Mikil lækkun á markaðsvirði Icelandair hefur komið illa við sjóð Stefnis en eins og staða mála er nú þá er um átján prósent af eignum sjóðsins í bréfum ferðaþjónusturisans. Stærsta einstaka eign sjóðsins eru hlutabréf í Marel, sem nú eru um 22 prósent af eignasafninu.
Markaðsvirði Icelandair er nú 69 milljarðar en um mitt ár í fyrra var það 189 milljarðar.
Hjá báðum sjóðunum á vegum Landsbréfa eru skráð hlutabréf á íslenskum markaði langsamlega stærsti hluti eignasafnsins, á bilinu 75 til 89 prósent. Hjá Landsbréfum - Úrvalsbréf eru um 21 prósent eigna sjóðsins í bréfum Icelandair en hjá Landsbréf - Öndvegisbréf er um 22 prósent eigna í bréfum Icelandair.
Besta ávöxtunin hjá íslenskum hlutabréfasjóðum, samkvæmt vef Keldunnar, er hjá Gamma Equity Fund, en ávöxtun þess sjóðs er 6,8 prósent á undanförnu ári.
Aðeins einn annar hlutabréfasjóður hefur sýnt jákvæða ávöxtun á síðustu tólf mánuðum en það er hlutabréfasjóður Íslenskra verðbréfa (ÍV) en ávöxtun hans er 3,7 prósent. Gamma sjóðurinn er upp á 3,7 milljarða og sjóður ÍV upp á 1,9 milljarða.
Samanlögð stærð þessara hlutabréfa sem finna má á lista Keldunnar er 85,2 milljarðar króna. Gengi þeirra á markaði skiptir almenning máli, enda er hann óbeinn eigandi að stórum hluta þeirra fjármuna sem eru í stýringu sjóðanna, í gegnum lífeyrissjóði landsins.
Uppfært 19:43: Hlekkjum á nákvæmari skiptingu eigna í sjóðum Landsbréfa, hefur verið komið inn í textann, og hann uppfærður í samræmi við það.