Landsbankinn telur sig ekki geta svarað því hvort Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri bankans, eigi enn hluti í bankanum eða ekki. Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Landsbankans átti Steinþór 345.228 hluti í bankanum og var tíundi stærsti hluthafi bankans. Sá reikningur sýndi stöðuna í lok árs 2016, Þá var rúmur mánuður síðan að Steinþór lét af störfum hjá Landsbankanum.
Stjórnendur og starfsmenn Landsbankans fengu hluti sína í Landsbankanum gefins. Íslenska ríkið samdi um það í samningi um fjárhagslegt uppgjör við kröfuhafa gamla Landsbanka Íslands. Íslenska ríkið á í dag 98,2 prósent hlut í Landsbankanum en aðrir eigendur, að mestu núverandi og fyrrverandi stjórnendur og starfsmenn, eiga samanlagt 1,8 prósent hlut. Alls eru hluthafar 1.003 talsins.
Veitir ekki umframupplýsingar
Kjarninn beindi fyrirspurn til Landsbankans um hvort Steinþór hefði selt hluti sína þegar hann lét af störfum og ef svo væri, hver hefði keypt hlutinn. Í svari ríkisbankans segir að hann veiti ekki upplýsingar um einstaka hluthafa umfram það sem kemur fram í ársreikningi hans. „Í ársreikningi Landsbankans kemur fram hverjir eru 10 stærstu hluthafar bankans. Upplýsingar um 10 stærstu hluthafa eru einnig birtar á vef bankans. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki ber að uppfæra á vef fjármálafyrirtækis lista yfir hluthafa sem eiga yfir 1% eignarhlut innan 4 daga frá því að breyting á sér stað. Bankinn birtir ekki frekari upplýsingar um einstaka hluthafa á opinberum vettvangi.[...]Upplýsingar um alla hluthafa og hlutafjáreign þeirra eru í hlutaskrá bankans. Allir hluthafar og stjórnvöld hafa aðgang að henni og mega kynna sér efni hennar. Þá fylgja upplýsingar um hlutafjáreign allra hluthafa með ársreikningi þegar hann er sendur til ríkisskattstjóra.“
Samið um að gefa starfsfólki hlut
Þegar íslenska ríkið samdi við kröfuhafa gamla Landsbankans í desember 2009 um skiptingu eigna hans fékk ríkið 80 prósenta hlut í nýja Landsbankanum, sem stofnaður var á rústum hins gamla. Þessi hlutur gat hækkað umtalsvert ef vel gengi að innheimta tvö lánasöfn, sem hétu Pony og Pegasus.
Afrakstur þeirrar innheimtu átti að renna til gamla Landsbankans og hlutur ríkisins myndi vaxa upp að 98,2 prósentum ef endurheimtir yrðu góðar. Þorra afgangsins áttu starfsmenn nýja Landsbankans að fá í verðlaun fyrir vel heppnaða rukkun. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, skrifaði undir samninginn fyrir hönd íslenska ríkisins. Niðurstaðan varð sú að endurheimtir urðu með hæsta móti og starfsmennirnir fengu umræddan hlut gefins.
Á þeim hlutum sem runnu til starfsmanna bankans voru reyndar kvaðir um að ekki mætti framselja hlutina fyrr en 1. september 2016 en gert hafði verið ráð fyrir að búið yrði að skrá hlutabréf í bankanum á skipulegan verðbréfamarkað fyrir þann tíma. Svo er hins vegar ekki og ekki fyrirsjáanlegt í nánustu framtíð að skráning muni eiga sér stað, þótt að heimild sé til þess að selja stóran hluta í Landsbankanum á fjárlögum.
Landsbankinn kaupir eigið hlutafé
Í september 2016 ákvað bankaráð Landsbankans að nýta heimild til að kaupa eigið hlutafé. Tilgangurinn er að lækka eigin fé bankans og gefa hluthöfum hans möguleika á að selja hluti sína. Alls býðst bankinn til að kaupa um tveggja prósenta hlut í sjálfum sér, sem verðmetin er á 5,2 milljarða króna miðað við bókfært verð eigin fjár, í þremur lotum. Síðasta lotan fór fram í febrúar síðastliðnum. Á meðal þeirra sem geta selt eignarhlut sinn í þessum lotum eru núverandi og fyrrverandi starfsmenn Landsbankans sem fengu hlutabréf gefins.
Í síðustu endurkaupalotunni, sem lauk 24. febrúar síðastliðinn, bauðst Landsbankinn til að kaupa hvern hlut á genginu 10,6226 krónur. Miðað við það verð er virði hlutar Steinþórs um 3,7 milljónir króna.
Fékk þrjá mánuði greidda við uppsögn
Tilkynnt var um starfslok Steinþórs 30. nóvember 2016. Tíu dögum áður hafði Ríkisendurskoðun birt skýrslu um fjölmargar eignasölur Landsbankans á árunum 2010 til 2016 og gagnrýndi þær þar harðlega. Á meðal þeirra var salan á eignarhlut Landsbankans í Borgun, sem mikill styr hefur staðið um.
Gagnrýnin á bankann og stjórnendur hans náði hámarki í mars 2016, þegar bankaráð Landsbankans greindi frá því að Bankasýsla ríkisins hafi farið fram á það við sig að Steinþóri yrði sagt upp störfum vegna Borgunarmálsins. Enn fremur hafi stofnunin farið fram á að formaður og varaformaður bankaráðsins myndu víkja. Ráðið varð ekki við því að segja upp bankastjóra Landsbankans. Þess í stað tilkynntu fimm af sjö bankaráðsmönnum Landsbankans að þeir myndu ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Bankasýslan hafnaði því síðar að uppsögn Steinþórs hafi verið til skoðunar hjá henni.
Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi hafði verið, og þeirrar orðsporsáhættu sem Landsbankanum hafði verið skapað vegna Borgunarmálsins, barst Ríkisendurskoðun formlegar og óformlegar beiðnir frá einstaka þingmönnum, Landsbankanum sjálfum og Bankasýslu ríkisins um að taka eignasölur bankans síðustu ár til skoðunar. Ríkisendurskoðun varð við þeirri beiðni og ákvað að skoða alla eignasölu Landsbankans frá árinu 2010 til 2016.
Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var síðan kynnt í nóvember. Þar voru gerðar fjölmargar athugasemdir við sölu Landsbankans á mörgum eignum á umræddu tímabili. Einkum er kastljósinu beint að söluferli sex eigna. Sölurnar hafi farið fram í lokuðu ferli og í sumum tilvikum hafi fengist „lægra verð fyrir eignarhlutina en vænta mátti miðað við verðmætin sem þeir geymdu.“
Þrátt fyrir mikinn þrýsting þá aftók Steinþór það með öllu að hann myndi hætta störfum í kjölfar birtingu skýrslunnar. Það breyttist þó snögglega og tíu dögum eftir að hún kom út var tilkynnt að hann hefði komist að samkomulagi við bankann um að láta af störfum. Í ársreikningi Landsbankans fyrir árið 2016 kemur fram að laun og hlunnindi Steinþórs, ásamt mótframlagi í lífeyrissjóð, hafi verið 24,8 milljónir króna í fyrra. Miðað við ellefu mánaða starfstíma á árinu var meðaltal launa og hlunninda því 2,3 milljónir króna.
Heildargreiðslur til Steinþórs á árinu 2016 voru hins vegar 31,9 milljónir króna samkvæmt ársreikningnum. Ástæða þess er sú að hann fékk viðbótargreiðslur við starfslok samkvæmt ráðningarsamningi sem voru að fullu færðar til gjalda á árinu 2016. Munurinn á heildargreiðslu og launagreiðslum er 7,1 milljón króna. Miðað við það hefur greiddur uppsagnarfrestur Steinþórs verið rúmlega þrír mánuðir.