Verkefnastjórn um endurmat á peningastefnu, sem skipuð var fyrr í mánuðinum, mun undirrita trúnaðaryfirlýsingu á fyrsta fundi sínum. Hún getur þó unnið að endurskoðun peningastefnu Seðlabanka Íslands án þess að hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum en fái nefndin slíkar upplýsingar um reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipta innherja gilda. Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytis við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra skipaði verkefnastjórn um endurmat á peningastefnu. Í henni sitja Illugi Gunnarsson, hagfræðingur, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins um árabil, og hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson, efnahagsráðgjafi Virðingar og dósent, og Ásdís Kristjánsdóttir, sem starfar hjá Samtökum atvinnulífsins. Forsætisráðuneytið segir alla sem í hópnum sitja vera með „menntun, reynslu og þekkingu á peningastefnumálum sem nýtast mun í starfi verkefnisstjórar.“
Þurftu að undirrita drengskaparheit
Þetta er alls ekki fyrst hópur utanaðkomandi sérfræðinga sem ríkið hefur skipað til að móta stefnu í mikilvægum málum á undanförnum árum. Í ágúst 2013 skipaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, tvo sérfræðihópa. Annar hópurinn átti að skila tillögum um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Formaður þess hóps var Sigurður Hannesson, þá framkvæmdastjóri eignastýringar hjá MP banka, sem í dag heitir Kvika.
Í hinum sérfræðihópnum, sem áti að vinna að afnámi verðtryggingar á neytendalánum, sat Valdimar Ármann, þá sjóðsstjóri hjá GAMMA, Þar sat líka Iða Brá Benediktsdóttir, þá forstöðumaður einkabankaþjónustu Arion banka. Öll þrjú ofangreint stýrðu því starfsemi þar sem fjárfest var í skuldabréfum. Á þeim tíma voru margir leikendur á markaði, og starfsmenn annarra fjármálafyrirtækja, ósáttir með þessa stöðu. Þeim þótti það skjóta skökku við að starfsmenn ákveðinna fjármálafyrirtækja hefðu aðgang að innherjaupplýsingum um skuldabréfamarkað í vinnu sinni. Þótt ekki væri tilefni til að ætla að umræddir aðilar myndu nýta upplýsingarnar til að hjálpa fyrirtækjum sínum að hagnast þá sköpuðu þessar aðstæður vantraust á markaði sem leiddi til þess að viðskipti voru tortryggð.
Forsætisráðuneytið fór ekki fram á að sérfræðingarnir sem sátu í hópunum myndu víkja úr störfum sínum á meðan að þeir sinntu sérfræðingahópunum. Meðlimir hópanna voru hins vegar látnir undirrita drengskaparheit við upphaf starfs síns þar sem kveðið var á um þagnarskyldu um atriði sem þeir kynnu að hafa upplýsingar um. Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið á sínum tíma sagði enn fremur: „Einnig er sérstaklega áréttað í yfirlýsingunni að viðkomandi sé kunnugt um að meðlimir hópsins kunni í starfi sínu að fá vitneskju um innherjaupplýsingar og teljist þar með innherjar.“
Haftahópurinn undirritaði trúnaðaryfirlýsingu
Á árinu 2014 var skipuð framkvæmdastjórn til að taka þátt í vinnu við losun fjármagnshafta. Breytingar voru gerðar á framkvæmdastjórninni í janúar 2015. Þá fór Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabankans, út úr hópnum og Sigurður Hannesson, þá framkvæmdastjóri eignastýringar hjá MP banka, tók sæti í honum. Seðlabanki Íslands tilnefndi líka tvo starfsmenn bankans til að starfa í framkvæmdahópnum: Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans,og Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóra alþjóðasamskipta og skrifstofu bankastjóra. Auk þeirra voru í hópnum Glenn Victor Kim, Benedikt Gíslason og Ásgeir Helgi Reykjfjörð Gylfason, yfirlögfræðingur MP banka, sem tók sæti í hópnum í byrjun árs 2015.
Ljóst var að þeir sem störfuðu að áætlunargerð um losun hafta bjuggu yfir mjög verðmætum upplýsingum sem gætu nýst á markaði til að hagnast verulega. Í trúnaðaryfirlýsingu sem allir sem vinna með haftalosunarhópnum eru látnir skrifa undir kom fram hversu viðkvæmar upplýsingarnar væru og hversu mikilvægt það væri fyrir sérfræðinganna að halda trúnað um þær.
Hefðu þeir brotið gegn þeim trúnaði eða misnotað upplýsingarnar með einhverjum hætti gæti það verið talið saknæmt athæfi, og viðkomandi efði getað verið ákærður fyrir vikið.
Endurskoða peningastefnuna
Þann 12. mars síðastliðinn skipaði Bjarni Benediktsson verkefnisstjórn um endurmat á ramma peningastefnu Seðlabanka Íslands. Tilkynnt var um skipan nefndarinnar sama dag og boðað var til fréttamannafundar til að upplýsa um stór skref í átt að losun fjármagnshafta. Þrír voru skipaðir í nefndina: Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur, Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur og Illugi Gunnarsson hagfræðingur og fyrrverandi ráðherra.
Enn og aftur hefur skipan nefndarinnar valdið ólgu innan fjárnálageirans, þar sem Ásgeir starfar sem efnahagsráðgjafi Virðingar og Ásdís er gift Agnari Tómasi Möller, annars stofnanda GAMMA og framkvæmdastjóra sjóða hjá fyrirtækinu. Upplýsingar um breytingar á peningastefnu gætu nýst á markaði.
Kjarninn beindi fyrirspurn til forsætisráðuneytisins og spurði hvort verkefnastjórnin yrði bundin af reglum um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti starfsmanna með fjármálagerninga? Þá var einnig spurt hvort verkefnastjórnin hefði verið látin undirrita trúnaðaryfirýsingu gagnvart þeim upplýsingum sem hún mun hafa undir höndum á meðan að á vinnu hennar stendur?
Í svari ráðuneytisins segir að unnt sé að vinna að endurskoðun á peningastefnu án þess að hafa aðgang að trúnaðarupplýsingum „Fái verkefnisstjórn um peningastefnu trúnaðarupplýsingar í starfi sínu gilda um það almenn lög og reglur líkt og um aðra hópa sem skipaðir eru af stjórnvöldum, þar með talið lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja nr. 1050/2012. Til að hnykkja betur á þessum lagaákvæðum og reglum mun verkefnisstjórn undirrita trúnaðaryfirlýsingu á fyrsta fundi sínum.“