Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) telur mjög mikilvægt að gæði nýrra eigenda að bönkum landsins verði forgangsmál þegar þeir verða seldir, ekki hversu hratt sé hægt að selja þá eða hvaða verð fæst fyrir. Hún leggur áherslu á fyrirhuguð einkavæðing ríkisbankanna tveggja, Landsbankans og Íslandsbanka, verði þolinmótt ferli þar sem áhersla verði lögð á að finna strategíska eigendur sem ætli sér að fjárfesta í bönkunum til lengri tíma og séu íhaldssamir í nálgun sinni. Þá feli kaup þriggja vogunarsjóða og Goldman Sachs á stórum hlut í Arion banka í sér áskoranir fyrir Fjármálaeftirlitið. Matsferli þess á hæfi aðilanna til að eiga íslenskan viðskiptabanka þurfi að vera nákvæmt, ósveigjanlegt og óhlutdrægt.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér eftir tveggja vikna úttekt á stöðu mála á Íslandi. Á meðan að á vinnu nefndarinnar, sem var stýrt af Ashok Bhatia, stóð áttu hún fundi með fulltrúum stjórnvalda, Seðlabanka Íslands, aðilum vinnumarkaðarins og fulltrúum einkageirans.
Breytist úr svefnmarkaði í samkeppnismarkað
Nefndin eyðir umtalsverðu púðri í að fjalla um framtíð íslenska bankakerfisins í yfirlýsingu sinni. Þar minnist hún sérstaklega á nýlega sölu á 29,18 prósent hlut í Arion banka til þriggja vogunarsjóða og Goldman Sachs, sem síðan eiga kauprétt á 21,9 prósent hlut til viðbótar í bankanum. AGS segir að þetta séu eigendur sem séu líklegir til að sækjast eftir háum arðgreiðslum, sölu á eignum út úr bankanum og ýmiss konar endurskipulagningu til hagræðingar. Það séu allt kraftar sem muni auka samkeppni á bankamarkaði. Í raun muni hann umbreytast úr svefnmarkaði yfir í markað sem verði með mikla samkeppni. Slík gæti leitt af sér kerfislæga áhættu og ógnað fjármálalegum stöðugleika.
Styrkja þurfi alla laga- og regluumgjörð í kringum fjármálakerfið og auka eftirlit með því. Auk þess þurfi að tryggja sjálfstæði þess eftirlits með skýrari hætti. Ein leið til þess væri sú að sameina allt eftirlit með bönkum hjá Seðlabanka Íslands en láta Fjármálaeftirlitinu eftir eftirlit með annarri fjármálastarfsemi. Leggja þurfi áherslu á að fá hágæðaeigendur að íslenskum bönkum.
Ferðamenn eru ekki síld
AGS bendir á þá augljósu breytingu að ferðaþjónusta hafi umbylt íslenska raunhagkerfinu. Það sé jákvæð þróun og vísbendingar annars staðar frá bendi ekki til þess að ferðamönnum muni fækka skyndilega. Ferðamenn eru ekki síld, segir sendinefndin og vísar þar til þess þegar síldin hvarf frá Íslandsströndum með gríðarlegum efnahagslegum afleiðingum fyrir land og þjóð.
Nefndin segir þó að jafnvægisraungengi íslensku krónunnar þurfi að hækka ef styrkur ferðaþjónustu reynist varanlegur. „Gengishækkun hefur dempandi áhrif og beinir hagkerfinu í átt að sjálfbærum vaxtarferli. Sannarlega felur þetta í sér áskorun fyrir sumar útflutningsgreinar, þ.á.m. nýsköpun. Í sjávarútvegi getur orðið samþjöppun og áframhaldandi velgengni veltur á innleiðingu fullkomnustu tæknilausna. Tafin áhrif styrkingar krónunnar og rýrnandi viðskiptakjör munu smám saman draga úr afgangi á vöru- og þjónustuviðskiptum.“
Vilja mögulega banna lánveitingar lífeyrissjóða
Þá er fjallað um mál málanna á Íslandi í yfirlýsingu nefndarinnar, nefnilega húsnæðismál. Þar segir að þrýstingur á húsnæðismarkaði geti leitt til ofhitnunar. Vöxtur íbúðalána sé enn hóflegur en sé að aukast og það kalli á aðgætni. „Þjóðhagsvarúðartækjum skal beita eftir þörfum, þ.á.m. nýjum tækjum er takmarka lánveitingar í erlendri mynt til óvarinna aðila og mögulega banna lánveitingar lífeyrissjóða. Eftirspurn á íbúðamarkaði gæti áfram aukist umfram nýbyggingar og þrýst húsnæðisverði upp á við. Ef hækkandi framfærslukostnaður fælir erlent vinnuafl frá gæti vinnumarkaðurinn ofhitnað. Frekari háar launahækkanir gætu aukið enn á innlendan eftirspurnarþrýsting.“
Sjóðurinn kemst að þeirri niðustöðu að frekari vaxtalækkanir séu ekki endilega í andstöðu við þá stefnu að halda verðbólgu undir 2,5 prósent markmiði, en hún hefur verið þar í rúm þrjú ár. Verðbólgumarkmiðið hafi skilað góðum árangir og eftir því sem styrking krónunnar bætir verðbólguhorfur gæti myndast svigrúm til vaxtalækkunar. „ Fjármagnsútflæði gæti vitaskuld átt sér stað, sér í lagi ef óábyrg stefna eða yfirlýsingar grafa undan trausti. Við slík skilyrði yrði vaxtahækkun nauðsynleg.“
Vilja SALEK-ferlið áfram
AGS segir að það sé ákveðinn sigur að lög um opinber fjármál hafi mótað umræðuna um fjármálastefnu hins opinbera og að þau hafi lifað af síðustu kosningar. Fjárlög ársins 2017 boði hins vegar of mikil útgjöld þegar jafn vel árar og búist sé við áframhaldandi kröftugum hagvexti. „Fjármagna verður útgjöld af skynsemi og stjórnvöld verða að vera reiðubúin til að herða á ríkisfjármálum ef alvarleg áhætta á ofhitnun raungerist. Stjórnvöld ættu að íhuga skattaúrbætur, með áherslu á óbeina skatta. Seinna meir gæti myndast svigrúm til verulegra aukinna útgjalda á sviði innviða, heilsuþjónustu og menntunar, að undangenginni gagngerri endurskoðun útgjalda.“
Þá leggur nefndin áherslu á að vinna við úrbætur á kjarasamningsferlinu, á grundvelli SALEK-samkomulagsins, haldi áfram. „Aðilar vinnumarkaðarins hafa gert drög að nýju líkani sem byggist á samkeppnisstöðu og ætti að leggja áherslu á innleiðingu þess fyrir samningalotuna árið 2018. Sömuleiðis er aðkallandi að þróa heildstæða ferðaþjónustustefnu. Vöxtur greinarinnar hefur reynt verulega á innviði og opinbera þjónustu. Gagnlegt gæti verið að stofna nefnd helstu aðila sem hefur það hlutverk að tryggja nægjanlega fjármögnun og virka samþættingu leyfisveitingarreglna, uppbyggingar innviða og umhverfisverndar.“