Látum hann hafa boltann
Gylfi Þór Sigurðsson, 27 ára gamall Hafnfirðingur, er kominn í hóp allra bestu leikmanna sem Ísland hefur átt. Líklega hefur enginn leikmaður í sögunni spilað jafn vel með landsliðinu.
Áður en lengra er haldið er best að segja frá stöðunni eins og hún er. Íslenska karlalandsliðið komst í 8 liða úrslit á EM í Frakklandi með sögulegri frammistöðu og er nú í 2. sæti á eftir Króötum í riðlinum, eftir fimm leiki. Farmiði á HM í Rússlandi 2018 er augljóst markmið. Nú hefur andlegri hindrun verið rutt úr vegi. Þetta er ekki draumur lengur, eftir að liðið komst á EM og spilaði þar stórkostlega. Þetta er hægt þó margt þurfi að ganga upp.
Við eigum okkar stjórnanda
Það má gleðjast yfir mörgu í landsliðinu, en það er eitt sem gleður mig meira en annað þessi misserin. Það er sú staðreynd að Ísland á orðið leikmann sem getur stjórnað ferðinni (stundum talað um dictator - í merkingunni maðurinn sem stjórnar ferðinni). Gylfi Þór Sigurðsson er án nokkurs vafa besti landsliðsmaður sem Ísland hefur átt. Það er alveg óhætt að fullyrða það, þar sem hann hefur verið miðpunkturinn í algjörri kúvendingu á landsliðinu.
Hann er maðurinn sem stjórnar ferðinni og leiðir liðið með gæðum sínum og yfirferð. Hann er maðurinn sem landsliðið leitar til, svo til alltaf. Frammistaða hans þessa dagana hlýtur að setja hann í hóp bestu miðjumanna Evrópu.
Tölfræðin með félagsliðinu, Swansea City, er betri en hjá flestum öðrum (11 stoðsendingar og 9 mörk af miðjunni, það sem af er), en það er frammistaðan með Íslandi, horft yfir síðustu 5 árin eða svo, sem fleytir honum inn á sviðið með þeim allra bestu. Með fullri virðingu fyrir öllum hinum leikmönnum Íslands, sem mynda sterka liðsheild, þá hefur verið hrein unun að fylgjast með Gylfa verða að þessum leikmanni sem hann er nú orðinn.
Gaman að sjá til þeirra sem stjórna
Í gegnum tíðina hef ég haft gaman af því að fylgjast með leikmönnum sem eru það góðir í fótbolta, að þeir geta stjórnað og búa yfir þeim eiginleikum að „geta tekið leikina til sín“, eins og Arnór Guðjohnsen sagði einu sinni við mig í viðtali. Hann var þá að lýsa þeirri lífsreynslu þegar hann fylgdist með Diego Maradona setja á svið sýningu í Munchen, vorið 1989, þegar Napoli og FC Bayern áttust við í undanúrslitum UEFA keppninnar. Argentíska goðsögnina var þá allt í öllu, færði sig úr einni stöðu í aðra, og „tók leikinn til sín“ og stjórnaði ferðinni. Arnór sat upp í stúku og fylgdist með.
Þetta eru ekki alltaf miðjumenn, en oft er sú raunin. Marga má nefna til sögunnar. Af Íslendingum er Ásgeir Sigurvinsson líklega sá sem helst má nefna, en Guðjohnsen feðgarnir Arnór og Eiður Smári koma líka upp í hugann. Þeir voru leiðtogar á vellinum hvor með sínum hætti.
Enn þann dag í dag er frammistaða Eiðs Smára í fyrri hálfleik gegn Króötum, 3. september 2005, í fersku minni mínu. Þá var hann í stuði og það héldu honum engin bönd. Frábær í samspili framarlega á vellinum, og skoraði gott mark á 24. mínútu leiksins. Staðan var 1-0 í hálfleik, en í seinni hálfleik sýndu Króatar mátt sinn og unnu 1-3.
Í stórleiknum sem framundan er í júní, í toppslagnum í undankeppni HM, má ekki missa einbeitinguna eitt augnablik því Króatar eru annálaðir fyrir gæði sín og ástríðufullan leik.
Sé mið tekið af síðustu mánuðum þá er ólíklegt annað en að Gylfi mæti tilbúinn til leiks, einbeittur og fullur sjálfstraust. Hann getur mætt hverjum sem er, haldið boltanum og fengið liðsfélagana til að blómstra. Samvinna hans og Arons Einars Gunnarssonar, fyrirliðans frá Þór á Akureyri, hefur verið aðdáunarverð.
Gefum boltann á Gylfa
Didier Deschamps, fyrirliði Frakka á HM 1998 og landsliðsþjálfari nú, lýsti hinu stórkostlega franska liði sem vann HM á heimavelli eitt sinn þannig, að Frakkar hefðu búið við þann munað að geta alltaf sent boltann á Zinedine Zidane. Þá var vandinn leystur.
Gylfi er eins og okkar Zidane. Fyrir nokkrum árum hefði svona líking eflaust verið álitin barnaleg en þannig er það ekki núna. Árangurinn hefur verið með ólíkindum, eins og við þekkjum öll (og skulum ekki þreytast á að minna okkur á!), og stöðugleikinn í spilamennsku Gylfa setur hann í fámennan hóp frábærra leikmanna sem eru með þræðina í hendi sér þegar leikurinn er í gangi.
Kúnstin að treysta mönnum
Aðeins að öðru, ekki óskyldu þó. Í bókum Alex Ferguson um feril hans, Managing My Life (1999), Alex Ferguson (2013) og Leading (2015) þá fjallar Ferguson - frá ýmsum hliðum - um þá kúnst að stjórna íþróttafólki með mismunandi styrkleika og veikleika og reyna að fá lið til að ná árangri.
Ólíkt því sem ég hafði gert mér grein fyrir, fyrir lestur þessara bóka, þá beitti Ferguson þaulskipulögðum aðferðum í bland við tilfinningu og mannlega næmni. Hann gerði miklar kröfur til allra, notaði gögn á undan flestum örðum knattspyrnustjórum á Englandi og var annálaður fyrir einstaka hæfileika við að halda virðingu leikmanna og ólíkra karaktera.
Hann talaði til þeirra í liðsræðum, með því að fá þá til að hugsa hvað þeir væru búnir að ná langt og hvað það væru mikil forréttindi fyrir þá að spila fyrir Man. Utd. Þegar þess þurfti þá tók hann „hárþurrkuna“ á leikmenn, en það gerðist sárasjaldan, að hans sögn. Það var frekar þannig að leikmenn óttuðust að hann myndi reiðast, ef þeir stæðu sig ekki, og það var nóg til þess að þeir lögðu sig fram um að standa sig.
En eitt einkenndi hann umfram annað; hann var afar næmur á hæfileika leikmanna og bar mikla virðingu fyrir þeim, óháð öllu öðru. Sérstaklega átti þetta við um leikmenn sem voru góðir í að stjórna leikjum, bæði framarlega og aftarlega á vellinum. Hann treysti þeim og lét þá finna fyrir því.
Einn af þeim mönnum sem Ferguson átti sérstakt samband við var franska ólíkindatólið Eric Cantona, en hann hætti hjá Man. Utd. svo til upp úr þurru, aðeins 32 ára, eftir magnaðan sex ára feril hjá félaginu.
Í nýjustu bók sinni, Leading, sem hann skrifar sameiginlega með Michael Moritz, birtir hann í heild sinni bréfið sem hann sendi til Cantona þegar hann hætti en í því segir hann að hann hafi „alltaf vonað að hann kæmi aftur á æfingasvæðið“ þar sem hann gæti haldið áfram að miðla „snilld“ sinni til leikmanna. Cantona hafði eiginleika sem voru nær alveg á skjön við þær kröfur sem Ferguson gerði til allra sinna leikmanna þegar kom að aga og dugnaði. Hann var með óútreiknanlegt skap, fékk oft glórulaus rauð spjöld sem settu liðið í vanda, sinnti stundum varnarvinnu lítið og fór sínar eigin leiðir.
En hæfileikar hans fólust ekki síst einstöku sjálfstrausti, leikskilningi og eiginleikum til að hrífa aðra með sér. Hann segir í bók sinni að aðeins fjórir leikmenn hjá Man. Utd. á 26 ára ferli hans sem knattspyrnustjóri nái því að teljast til heimsklassa leikmanna. Það séu Paul Scholes, Cristiano Ronaldo, Ryan Giggs og áðurnefndur Cantona.
Ferguson byggði upp sjálfstraust í sóknarleik liðsins í kringum Cantona, og gaf yngri leikmönnum fyrirmæli um að reyna að koma boltanum á hann og finna glufur á vörnum andstæðingana. Cantona varð af þessum ástæðum eins konar leikstjórnandi hjá Man. Utd., maðurinn sem leikmenn leituðu til og fóru ósjálfrátt að búast við að myndi leysa úr vandamálunum.
Þó að mörgu leyti sé mjög ólíku saman að jafna, þá birtist Gylfi manni stundum í svipuðu hlutverki, aftar á vellinum, þegar Ísland er að spila. Svo lengi sem boltinn kemst til hans, þá eru líkur til þess að eitthvað jákvætt gerist hjá íslenska landsliðinu. Og vegna þess hve duglegur og agaður hann er - þvert á það sem finna mátti hjá snillingnum Cantona - þá kemst boltinn oft í fætur hans og þaðan inn á hættusvæðin.
Blessunarlega er Gylfi ólíklegur til að ráðast á áhorfendur, tækla leikmenn fullkomlega að óþörfu með báðum fótum eða þaðan af verra, eins og einkenndi Cantona oft á tíðum, en það má finna samsvörun í þeim tveimur í gegnum snilldina og hvernig hún gerði þá að leiðtogum. Hún fer ekki framhjá neinum og hún ræður oftar en ekki úrslitum.
Fyrirmyndin sem íþróttahreyfingin þarf
Allir leikmenn hafa sína kosti og galla, en það verður að teljast einstök lukka fyrir íþróttahreyfinguna á Íslandi að íslenska landsliðið sé með leikmann í fararbroddi eins og Gylfa. Hann er góð fyrirmynd yngri leikmanna, hafnar vímuefnum af öllu tagi alfarið, æfir meira en flestir aðrir, og hefur frá blautu barnsbeini stefnt á það að upplifa drauma sína. Það vilja ekki allir verða atvinnumenn í fótbolta, en Gylfi vildi það og kaus að gefa sig allan í verkefnið, eins og hann hefur lýst í viðtölum. Samanlagt sendir þetta jákvæð og góð skilaboð til ungmenna. Það er dýrmætt.
Það er ekki hægt að þakka gervigrashöllum fyrir það að hann sé að standa sig vel, nema þá að litlu leyti. Hugarfarið og þrotlausar æfingar - í bland við mikla hæfileika vitaskuld - eru alveg örugglega nærtækasta skýringin á því hversu frábær leikmaður hann er orðinn.
Umfram allt eigum við Íslendingar að njóta þess að fylgjast með Gylfa í leikjum með Íslandi, næstu árin, því það er eflaust langt í að viðlíka leikmaður komi fram í okkar litla, dásamlega og fámenna landi. Maður sem er með þræðina í hendi sér og leikmenn láta hafa boltann um leið og færi gefst.