Mynd: Birgir Þór

Látum hann hafa boltann

Gylfi Þór Sigurðsson, 27 ára gamall Hafnfirðingur, er kominn í hóp allra bestu leikmanna sem Ísland hefur átt. Líklega hefur enginn leikmaður í sögunni spilað jafn vel með landsliðinu.

Áður en lengra er haldið er best að segja frá stöð­unni eins og hún er. Íslenska karla­lands­liðið komst í 8 liða úrslit á EM í Frakk­landi með sögu­legri frammi­stöðu og er nú í 2. sæti á eftir Króötum í riðl­in­um, eftir fimm leiki. Far­miði á HM í Rúss­landi 2018 er aug­ljóst mark­mið. Nú hefur and­legri hindrun verið rutt úr vegi. Þetta er ekki draumur leng­ur, eftir að liðið komst á EM og spil­aði þar stór­kost­lega. Þetta er hægt þó margt þurfi að ganga upp.

Við eigum okkar stjórn­anda

Það má gleðj­ast yfir mörgu í lands­lið­inu, en það er eitt sem gleður mig meira en annað þessi miss­er­in. Það er sú stað­reynd að Ísland á orðið leik­mann sem getur stjórnað ferð­inni (stundum talað um dict­a­tor - í merk­ing­unni mað­ur­inn sem stjórnar ferð­inn­i). Gylfi Þór Sig­urðs­son er án nokk­urs vafa besti lands­liðs­maður sem Ísland hefur átt. Það er alveg óhætt að full­yrða það, þar sem hann hefur verið mið­punkt­ur­inn í algjörri kúvend­ingu á lands­lið­in­u. 

Hann er mað­ur­inn sem stjórnar ferð­inni og leiðir liðið með gæðum sínum og yfir­ferð. Hann er mað­ur­inn sem lands­liðið leitar til, svo til alltaf. Frammi­staða hans þessa dag­ana hlýtur að setja hann í hóp bestu miðju­manna Evr­ópu. 

Töl­fræðin með félags­lið­inu, Swan­sea City, er betri en hjá flestum öðrum (11 stoðsend­ingar og 9 mörk af miðj­unni, það sem af er), en það er frammi­staðan með Íslandi, horft yfir síð­ustu 5 árin eða svo, sem fleytir honum inn á sviðið með þeim allra bestu. Með fullri virð­ingu fyrir öllum hinum leik­mönnum Íslands, sem mynda sterka liðs­heild, þá hefur verið hrein unun að fylgj­ast með Gylfa verða að þessum leik­manni sem hann er nú orð­inn.  

Í baráttu við leikmenn Man. Utd.
Mynd: EPA

Gaman að sjá til þeirra sem stjórna

Í gegnum tíð­ina hef ég haft gaman af því að fylgj­ast með leik­mönnum sem eru það góðir í fót­bolta, að þeir geta stjórnað og búa yfir þeim eig­in­leikum að „geta tekið leik­ina til sín“, eins og Arnór Guðjohn­sen sagði einu sinni við mig í við­tali. Hann var þá að lýsa þeirri lífs­reynslu þegar hann fylgd­ist með Diego Mara­dona setja á svið sýn­ingu í Munchen, vorið 1989, þegar Napoli og FC Bayern átt­ust við í und­an­úr­slitum UEFA keppn­inn­ar. Argentíska goð­sögn­ina var þá allt í öllu, færði sig úr einni stöðu í aðra, og „tók leik­inn til sín“ og stjórn­aði ferð­inni. Arnór sat upp í stúku og fylgd­ist með.

Þetta eru ekki alltaf miðju­menn, en oft er sú raun­in. Marga má nefna til sög­unn­ar. Af Íslend­ingum er Ásgeir Sig­ur­vins­son lík­lega sá sem helst má nefna, en Guðjohn­sen feðgarnir Arnór og Eiður Smári koma líka upp í hug­ann. Þeir voru leið­togar á vell­inum hvor með sínum hætti.

Enn þann dag í dag er frammi­staða Eiðs Smára í fyrri hálf­leik gegn Króöt­um, 3. sept­em­ber 2005, í fersku minni mínu. Þá var hann í stuði og það héldu honum engin bönd. Frá­bær í sam­spili fram­ar­lega á vell­in­um, og skor­aði gott mark á 24. mín­útu leiks­ins. Staðan var 1-0 í hálf­leik, en í seinni hálf­leik sýndu Króatar mátt sinn og unnu 1-3

Í stór­leiknum sem framundan er í júní, í toppslagnum í und­ankeppni HM, má ekki missa ein­beit­ing­una eitt augna­blik því Króatar eru ann­ál­aðir fyrir gæði sín og ástríðu­fullan leik.

Sé mið tekið af síð­ustu mán­uðum þá er ólík­legt annað en að Gylfi mæti til­bú­inn til leiks, ein­beittur og fullur sjálfs­traust. Hann getur mætt hverjum sem er, haldið bolt­anum og fengið liðs­fé­lag­ana til að blómstra. Sam­vinna hans og Arons Ein­ars Gunn­ars­son­ar, fyr­ir­lið­ans frá Þór á Akur­eyri, hefur verið aðdá­un­ar­verð.

Gefum bolt­ann á Gylfa

Didier Deschamps, fyr­ir­liði Frakka á HM 1998 og lands­liðs­þjálf­ari nú, lýsti hinu stór­kost­lega franska liði sem vann HM á heima­velli eitt sinn þannig, að Frakkar hefðu búið við þann munað að geta alltaf sent bolt­ann á Zinedine Zida­ne. Þá var vand­inn leyst­ur. 

Gylfi er eins og okkar Zida­ne. Fyrir nokkrum árum hefði svona lík­ing eflaust verið álitin barna­leg en þannig er það ekki núna. Árang­ur­inn hefur verið með ólík­ind­um, eins og við þekkjum öll (og skulum ekki þreyt­ast á að minna okkur á!), og stöð­ug­leik­inn í spila­mennsku Gylfa setur hann í fámennan hóp frá­bærra leik­manna sem eru með þræð­ina í hendi sér þegar leik­ur­inn er í gangi.

Kúnstin að treysta mönnum

Aðeins að öðru, ekki óskyldu þó. Í bókum Alex Fergu­son um feril hans, Manag­ing My Life (1999), Alex Fergu­son (2013) og Lea­d­ing (2015) þá fjallar Fergu­son - frá ýmsum hliðum - um þá kúnst að stjórna íþrótta­fólki með mis­mun­andi styrk­leika og veik­leika og reyna að fá lið til að ná árangri.

Ólíkt því sem ég hafði gert mér grein fyr­ir, fyrir lestur þess­ara bóka, þá beitti Fergu­son þaul­skipu­lögðum aðferðum í bland við til­finn­ingu og mann­lega næmni. Hann gerði miklar kröfur til allra, not­aði gögn á undan flestum örðum knatt­spyrnu­stjórum á Englandi og var ann­ál­aður fyrir ein­staka hæfi­leika við að halda virð­ingu leik­manna og ólíkra karakt­er­a. 

Hann tal­aði til þeirra í liðs­ræð­um, með því að fá þá til að hugsa hvað þeir væru búnir að ná langt og hvað það væru mikil for­rétt­indi fyrir þá að spila fyrir Man. Utd. Þegar þess þurfti þá tók hann „hár­þurrk­una“ á leik­menn, en það gerð­ist sárasjald­an, að hans sögn. Það var frekar þannig að leik­menn ótt­uð­ust að hann myndi reiðast, ef þeir stæðu sig ekki, og það var nóg til þess að þeir lögðu sig fram um að standa sig.

En eitt ein­kenndi hann umfram ann­að; hann var afar næmur á hæfi­leika leik­manna og bar mikla virð­ingu fyrir þeim, óháð öllu öðru. Sér­stak­lega átti þetta við um leik­menn sem voru góðir í að stjórna leikj­um, bæði fram­ar­lega og aft­ar­lega á vell­in­um. Hann treysti þeim og lét þá finna fyrir því.

Einn af þeim mönnum sem Fergu­son átti sér­stakt sam­band við var franska ólík­inda­tólið Eric Cant­ona, en hann hætti hjá Man. Utd. svo til upp úr þurru, aðeins 32 ára, eftir magn­aðan sex ára feril hjá félag­in­u. 

Í nýj­ustu bók sinni, Lea­d­ing, sem hann skrifar sam­eig­in­lega með Mich­ael Moritz, birtir hann í heild sinni bréfið sem hann sendi til Cant­ona þegar hann hætti en í því segir hann að hann hafi „alltaf vonað að hann kæmi aftur á æfinga­svæð­ið“ þar sem hann gæti haldið áfram að miðla „snilld“ sinni til leik­manna. Cant­ona hafði eig­in­leika sem voru nær alveg á skjön við þær kröfur sem Fergu­son gerði til allra sinna leik­manna þegar kom að aga og dugn­aði. Hann var með óút­reikn­an­legt skap, fékk oft glóru­laus rauð spjöld sem settu liðið í vanda, sinnti stundum varn­ar­vinnu lítið og fór sínar eigin leið­ir. 

En hæfi­leikar hans fólust ekki síst ein­stöku sjálfs­trausti, leikskiln­ingi og eig­in­leikum til að hrífa aðra með sér. Hann segir í bók sinni að aðeins fjórir leik­menn hjá Man. Utd. á 26 ára ferli hans sem knatt­spyrnu­stjóri nái því að telj­ast til heimsklassa leik­manna. Það séu Paul Scho­les, Crist­i­ano Ron­aldo, Ryan Giggs og áður­nefndur Cant­ona. Fergu­son byggði upp sjálfs­traust í sókn­ar­leik liðs­ins í kringum Cant­ona, og gaf yngri leik­mönnum fyr­ir­mæli um að reyna að koma bolt­anum á hann og finna glufur á vörnum and­stæð­ing­ana. Cant­ona varð af þessum ástæðum eins konar leik­stjórn­andi hjá Man. Utd., mað­ur­inn sem leik­menn leit­uðu til og fóru ósjálfrátt að búast við að myndi leysa úr vanda­mál­un­um.

Þó að mörgu leyti sé mjög ólíku saman að jafna, þá birt­ist Gylfi manni stundum í svip­uðu hlut­verki, aftar á vell­in­um, þegar Ísland er að spila. Svo lengi sem bolt­inn kemst til hans, þá eru líkur til þess að eitt­hvað jákvætt ger­ist hjá íslenska lands­lið­inu. Og vegna þess hve dug­legur og agaður hann er - þvert á það sem finna mátti hjá snill­ingnum Cant­ona - þá kemst bolt­inn oft í fætur hans og þaðan inn á hættu­svæð­in.

Bless­un­ar­lega er Gylfi ólík­legur til að ráð­ast á áhorf­end­ur, tækla leik­menn full­kom­lega að óþörfu með báðum fótum eða þaðan af verra, eins og ein­kenndi Cant­ona oft á tíð­um, en það má finna sam­svörun í þeim tveimur í gegnum snilld­ina og hvernig hún gerði þá að leið­tog­um. Hún fer ekki fram­hjá neinum og hún ræður oftar en ekki úrslit­um.

Fyr­ir­myndin sem íþrótta­hreyf­ingin þarf

Allir leik­menn hafa sína kosti og galla, en það verður að telj­ast ein­stök lukka fyrir íþrótta­hreyf­ing­una á Íslandi að íslenska lands­liðið sé með leik­mann í far­ar­broddi eins og Gylfa. Hann er góð fyr­ir­mynd yngri leik­manna, hafnar vímu­efnum af öllu tagi alfar­ið, æfir meira en flestir aðr­ir, og hefur frá blautu barns­beini stefnt á það að upp­lifa drauma sína. Það vilja ekki allir verða atvinnu­menn í fót­bolta, en Gylfi vildi það og kaus að gefa sig allan í verk­efn­ið, eins og hann hefur lýst í við­töl­um. Sam­an­lagt sendir þetta jákvæð og góð skila­boð til ung­menna. Það er dýr­mætt.

Það er ekki hægt að þakka gervi­gras­höllum fyrir það að hann sé að standa sig vel, nema þá að litlu leyti. Hug­ar­farið og þrot­lausar æfingar - í bland við mikla hæfi­leika vita­skuld - eru alveg örugg­lega nær­tæk­asta skýr­ingin á því hversu frá­bær leik­maður hann er orð­inn.

Umfram allt eigum við Íslend­ingar að njóta þess að fylgj­ast með Gylfa í leikjum með Íslandi, næstu árin, því það er eflaust langt í að við­líka leik­maður komi fram í okkar litla, dásam­lega og fámenna landi. Maður sem er með þræð­ina í hendi sér og leik­menn láta hafa bolt­ann um leið og færi gefst.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar