Útgjöld ríkissjóðs verða aukin umtalsvert á næstu fimm árum. Heildarútgjöld munu vaxa um 208 milljarða króna yfir allt tímabilið og frumgjöld sem nemur 223 milljörðum króna. Stærstu útgjaldaliðirnir eru heilbrigðis- og velferðarmál. Raunvöxtur á útgjöldum til heilbrigðismála mun verða 22 prósent á tímabilinu og vöxtur á framlögum úr ríkissjóði til velferðarmála verður 13 prósent. Þetta kemur fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára sem lögð var fram á Alþingi í dag.
Á meðal þeirra verkefna sem ráðist verður í samkvæmt áætluninni eru bygging nýs Landsspítala, kaup á þremur þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, útgjöld til háskólastigsins verða aukin til að það standist alþjóðlegan samanburð, hámarksgreiðslur foreldra í fæðingarorlofi verða hækkaðar, frítekjumark eldri borga hækkað, stofnframlög veitt til að byggja almennar leiguíbúðir, úrræði til kaupa á fyrsta húsnæði stykt, notendastýrð persónuleg aðstoð lögfest og tekið verður á móti stórauknum fjölda kvótaflóttamanna og hælisleitenda. Þá verður tekið á loftlagsmálum með heildrænum hætti og það tvinnað inn á mörg málefnasvið.
Ferðaþjónustan upp í almenna þrepið á næsta ári
Helstu breytingar á skattkerfinu á tímabilinu verða þær að flestar tegundir ferðaþjónustu verða felldar undir almennt þrep virðisaukaskatts og tekur breytingin gildi 1. júlí 2018. Veitingaþjónusta verður hins vegar áfram í lægra skattþrepinu. Vegna þess á að myndast svigrúm til að lækka almennt þrep virðisaukaskatts úr 24 prósentum í 22,5 prósent og á sú breyting að taka gildi 1. janúar 2019.
Kolefnisgjald, sem er lágt í alþjóðlegum samanburði, verður tvöfaldað. Áfram verður unnið að útfærslu heildstæðs kerfis grænna skatta. Áður lögfestar eða áformaðar skattkerfisbreytingar taka gildi á tímabilinu, þar á meðal vörugjald á bílaleigubíla, samsköttunarákvæði og lækkun bankaskatts.
Gert er ráð fyrir því að sala eigna og arðgreiðslur, auk myndarlegs afgangs af rekstri, verði til þess að skuldir lækka hratt á tímabilinu. Óreglulegar tekjur verða nýttar til að greiða niður lán. Á sama tíma hækkar landsframleiðsla svo hlutfall lána af landsframleiðslu lækkar.
Mest í velferðar- og heilbrigðismál
Líkt og áður sagði er höfuðáhersla á að auka útgjöld til heilbrigðis- og velferðarmála. Í áætluninni er gert ráð fyrir að uppsafnaður raunvöxtur útgjalda til heilbrigðismála á tímabilinu verði 22 prósent og 13 prósent til velferðarmála.
Á meðal þess sem verður gert á sviði heilbrigðismála er að nýr Landsspítali verður byggður á tímabilinu, biðlistar verða styttir og nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga, sem lækkar kostnað þeirra, mun taka gildi. Í velferðarmálum verða helstu breytingar sem leiða til kostnaðarhækkunar þær að greiðslur foreldra í fæðingarorlofi verða hækkaðar, frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara verða hækkaðar í skrefum,bótakerfi öryrkja verður endurskoðað með auknum útgjöldum og aðstoð við atvinnuleit. Þá verða stigin markviss skref til að leysa húsnæðisvandann og notendastýrð persónuleg aðstoð lögfest. Auk þess verður unnið gegn fátækt barna.