Topp 10 – Knattspyrnustjórar í úrvalsdeildinni

Enski boltinn hefur lengi staðið Íslendingum nærri. Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur tók saman lista yfir þá 10 knattspyrnustjóra sem hafa náð bestum árangri.

Alex Ferguson er á topplistanum.
Alex Ferguson er á topplistanum.
Auglýsing

Stjörnu-költ knattspyrnustjóra í ensku úrvalsdeildinni hefur sjaldan verið meiri en nú. Ljós fjölmiðlanna beinist sífellt oftar að þeim líkt og þeir séu stórmeistarar í skák en leikmennirnir aðeins taflmenn.

Um fátt annað var talað seinasta sumar en komandi einvígi Manchester-stjóranna José Mourinho og Pep Guardiola og nú er staða Arsene Wenger hjá Arsenal heitasta deilumálið. Þá er velgengni Chelsea og Tottenham fyrst og fremst þakkað stjórum þeirra, Antonio Conte og Mauricio Potchettino. Augu heimsins eru á þessum mönnum sem svitna og orga á hliðarlínunni.

Hér eru 10 knattspyrnustjórar sem best hafa valdið þessu verkefni síðan 1993.

10. Martin O´Neill

Leicester City (1995-2000), Aston Villa (2006-210), Sunderland (2011-2013)

Martin O´Neill er fyrst og fremst þekktur fyrir afrek sín í Skotlandi og Írlandi en ár hans í ensku úrvalsdeildinni eru ekki síður tilkomumikil. O´Neill kom Leicster City upp í úrvalsdeildina á sínu fyrsta tímabili og hélt þeim í efri hlutanum í fjögur tímabil í röð þar til hann hætti árið 2000. Það sem er jafnvel enn tilkomumeira er að hann vann deildarbikarinn í tvígang og kom liðinu þar með í Evrópukeppni. 

Martin O'NeillTveimur árum eftir að hann hætti féllu Leicester. Miklar vonir voru bundnar við O´Neill þegar hann tók við Aston Villa árið 2006 en honum fannst eigendurnir ekki styðja nægilega við liðið fjárhagslega. Úrslitin voru þó ágæt og bættu Aston Villa sig með hverju árinu. Liðið komst þó aldrei hærra en í 6. sæti og í Evrópudeildina.

Eftir að O´Neill kvaddi árið 2010 lá leiðin niður á við uns liðið féll loks í fyrsta skipti úr úrvalsdeildinni árið 2016. O´Neill hefur alltaf trúað á einfalda knattspyrnu af gamla skólanum og hugsar fyrst og fremst um sitt eigið lið fremur en andstæðingana.

9. David O´Leary

Leeds United (1998-2002), Aston Villa (2003-2006)

David O´LearyHið unga Leeds United-lið David O´Leary minnir um margt á söguna um Íkarus sem flaug of nærri sólu og hrapaði. Þeir voru eitt mest spennandi lið Evrópu um tíma, djarfir og óheflaðir. O´Leary var ungur og algerlega óreyndur stjóri en náði strax árangri, bæði í deildinni og í Evrópu, án þess þó að vinna neina titla. Árið 2001 komust þeir eftirminnilega alla leið í undanúrslit meistaradeildarinnar. O´Leary treysti mikið á uppalda leikmenn á borð við Jonathan Woodgate, Harry Kewell, Alan Smith og Ian Harte. En eigendurnir höfðu fjárfest gríðarlega í liðinu og treyst á áframhaldandi viðveru í meistaradeildinni. Þegar það tókst ekki lenti liðið í fjárhagslegri hringiðu og O´Leary var látinn fara. 

Eftir nokkur sæmileg en jafnframt viðburðarsnauð ár hjá Aston Villa kvaddi O´Leary úrvalsdeildina árið 2006. O´Leary hefur sinnt útsendarastörfum fyrir Arsenal undan farin ár og hefur sagt að hann geti vel hugsað sér að snúa aftur í stjórastól ef gott tækifæri býðst.

Auglýsing

8. Kenny Dalglish

Liverpool (1985-1991 og 2011-2012), Blackburn Rovers (1991-1995), Newcastle United (1997-1998)

Kenny Dalglish„King Kenny“ er einn besti leikmaður og knattspyrnustjóri sem Liverpool hafa átt og stýrði liðinu til fjölda titla undir lok níunda áratugarins, þá sem spilandi-knattspyrnustjóri. Hann stimplaði sig svo inn í úrvalsdeildina með því að gera annarrar deildarliðið Blackburn Rovers að enskum meisturum á aðeins fjórum árum og var valinn knattspyrnustjóri ársins fyrir vikið. Liðið var fjármagnað af hinum vellauðuga iðnjöfri Jack Walker en Dalglish kallaði það þó „lið fólksins“ vegna þess að Blackburn er í raun lítill verkamannabær.

Tveimur árum síðar gerði hann aðra atlögu að Englandsmeistaratitlinum með Newcastle United. Á síðustu árum hefur hann gegnt ýmsum stöðum hjá Liverpool, m.a. sem knattspyrnustjóri um skamma hríð. Sá tími minnti ekkert á fyrrum dýrðardaga hans hjá liðinu og hann var talinn spila úrelta knattspyrnu. En hann skilaði þó einum deildarbikar í safnið.

7. Harry Redknapp

West Ham United (1994-2001), Portsmouth (2002-2004 og 2005-2008), Southampton (2004-2005), Tottenham Hotspur (2008-2012), Queens Park Rangers (2012-2015)

Harry Redknapp verður ávallt nefndur í sömu andrá og West Ham United, klúbbnum sem hann spilaði með á sjöunda áratugnum og stýrði á þeim tíunda. Þar komu hæfileikar hans til að ala upp og hlúa að ungum knattspyrnumönnum best í ljós með leikmönnum á borð við Frank Lampard, Joe Cole, Michael Carrick og Rio Ferdinand. Redknapp var einnig slyngur á markaðinum og lið hans þóttu spila sókndjarfan og skemmtilegan bolta.

Hann er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Portsmouth fyrir þrennar sakir, þ.e. að koma liðinu upp í úrvalsdeildina, að vinna FA bikarinn árið 2008 og að fella höfuðandstæðinga þeirra Southampton. Stærsta starfið sem Redknapp fékk var hjá Tottenham og þar stóð hann sig með prýði. Hann kom liðinu í meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn og var valinn knattspyrnustjóri ársins 2010 fyrir vikið. Hjá Queens Park Rangers féll hann hins vegar í annað skiptið á ferlinum og er það einn helsti löstur á frábærum ferli í úrvalsdeildinni.

Harry Redknapp á blaðamannafundi fyrir Tottenham eftir að hann kom liðinu í Meistaradeild Evrópu.

6. Rafa Benitez

Liverpool (2004-2010), Chelsea (2012-2013), Newcastle United (2016-)

Benitez var talinn kraftaverkamaður og taktískur snillingur þegar hann kom til Liverpool eftir að hafa unnið spænsku deildina í tvígang með Valencia. Sú trú jókst þegar hann sigraði meistaradeild Evrópu á sínu fyrsta ári hjá félaginu eftir ótrúlegan úrslitaleik gegn AC Milan sem leiddi 3-0 í hálfleik. FA bikar fylgdi ári seinna og liðið gerði í tvígang harða atlögu að Englandsmeistaratitlinum sem kom þó aldrei.

Rafa BenitezÍ nóvember árið 2012 var Benitez óvænt ráðinn til Chelsea út það tímabil. Liverpool og Chelsea höfðu eldað saman grátt silfur á tíma Benitez og háð fjórar rimmur í meistaradeildinni. Hann var aldrei tekinn í sátt þrátt fyrir að hafa skilað liðinu þriðja sæti deildarinnar og fyrsta Evrópudeildar bikarnum.

Benitez fékk það erfiða verkefni að bjarga Newcastle United frá falli undir lok tímabilsins 2015/2016. Þrátt fyrir góð úrslit tókst það ekki en hann virðist nú vera að stýra þeim rakleiðis aftur upp á þessu tímabili.

5. Claudio Ranieri

Chelsea (2000-2004), Leicester City (2015-2017)

Claudio Ranieri fær ráðleggingar frá aðstoðarmanni sínum.

Ranieri var lengi vel talinn einn óheppnasti knattspyrnustjóri heims. Hann hefur þjálfað næstum öll stóru liðin á Ítalíu en einnig á Spáni og í Frakklandi og er þekktur fyrir að byggja upp góð lið. Eftir 30 ára starf voru tveir bikartitlar þó það eina sem hann hafði unnið. Þar með eru talin árin fjögur sem hann stýrði Chelsea og fékk viðurnefnið fálmarinn vegna þess að hann breytti svo oft um leikkerfi og leikmenn.

Það kom því eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar hann var ráðinn til Leicester City sumarið 2015 eftir stormasaman tíma stjórans Nigel Pearson. Allir bjuggust við að liðið færi lóðbeint niður en þá gerðist hið ótrúlegasta kraftaverk í sögu enska boltans. Leicester unnu og unnu og komu sér strax á topp úrvalsdeildarinnar. Þar sigldu þeir allt tímabilið og unnu titilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins…. með 10 stiga mun. Lykillinn að þessu var varnarleikurinn því þeir héldu hreinu í alls 15 leiki. Ævintýrið endaði illa hjá Ranieri og flestir knattspyrnuáhugamenn tóku það mjög nærri sér. Því Ranieri er mikil tilfinningavera og sérlegur heiðursmaður.


4. Sam Allardyce

Bolton Wanderers (1999-2007), Newcastle United (2007-2008), Blackburn Rovers (2008-2010), West Ham United (2011-2015), Sunderland (2015-2016), Crystal Palace (2016-)

Ef það er einhver kann á úrvalsdeildina þá er það „Big Sam“ Allardyce. Hann er þekktur fyrir að halda liðum frá falli og það var einmitt ástæðan fyrir því að hann var ráðinn til Crystal Palace nú fyrir jól.

Sam AllardyceAllardyce er þekktastur fyrir veru sína hjá Bolton þar sem hann kom þeim upp í úrvalsdeildina árið 2001 og hélt þeim í efri helmingnum í fjögur ár. Hann kom þeim meira að segja í Evrópukeppni í fyrsta sinn. Mesta afrekið sem hann vann var aftur á móti hjá Sunderland, tímabilið 2015/2016. Sunderland voru í fallsæti í 237 daga samanlagt en björguðu sér fyrir horn á lokametrunum. Stóri-Sámur fagnaði því með því að fá sér bjór á sína alþýðlegu vísu.

Allardyce hefur aldrei fengið tækifæri hjá stærstu klúbbunum en tími hans hjá enska landsliðinu er sá svartasti á ferli hans. Allardyce hrökklaðist úr starfi eftir aðeins einn leik eftir að fjölmiðlar komu upp um spillingarmál honum tengt. Allardyce er mjög skipulagður og leggur mikla áherslu á varnarleik og föst leikatriði. En hann á sína óhefðbundnu siði í þjálfun eins og t.d. hugleiðslu.  

3. Arsene Wenger

Arsenal (1996-)

Fólk yppti öxlum haustið 1996 þegar Wenger kom til Arsenal frá Japan. George Graham hafði gert Arsenal að varnarsinnaðasta liði deildarinnar en Wenger breytti algerlega hugarfari liðsins án þess þó að brjóta upp varnarmúrinn fræga. Hann keypti sóknarsnillinga frá Frakklandi og brátt byrjuðu titlarnir að flæða inn.

Arsene WengerHápunktinum var náð þegar liðið tapaði ekki einum einasta deildarleik tímabilið 2003/2004. Þessum árangri var náð með því að halda sig við sóknarleik sem byggði á tæknilegri getu leikmanna og hafa traust og trú á þeim. Leikmenn hafa notið þess að spila fyrir Wenger og hann hefur gefið yngri leikmönnum næg tækifæri.

Síðustu 10 ár hefur hann haldið liðinu á hásléttu án þess að ná neinum tindum (fyrir utan tvo bikartitla) og þar með verið gagnrýndur fyrir stöðnun. Kaup hans á leikmönnum hafa versnað og hann hefur verið óviljugur að splæsa eins og keppinautar hans. Yngri aðdáendur þekkja ekkert annað en Arsenal undir Wenger og margir eru orðnir þreyttir. Það er þó ótrúlegur árangur að enda aldrei neðar en í fjórða sæti í heila tvo áratugi.

2. José Mourinho

Chelsea (2004-2007 og 2013-2015), Manchester United (2016-)

Mourinho kom inn í enska boltann með látum sumarið 2004 eftir að hafa unnið meistaradeildina með Porto. Á blaðamannafundi sagði hann: „Ég held að ég sé sá sérstaki“, og allar götur síðan hefur hann baðað sig í sviðsljósinu. Það er ekkert grátt svæði, sá sérstaki er annað hvort hataður eða elskaður en enginn getur neitað snilli hans.

Á sínu fyrsta tímabili unnu Chelsea sinn fyrsta titil í hálfa öld, settu stigamet og fengu aðeins á sig 15 mörk. Hvert sem hann fer sankar hann að sér titlum en stoppar þó aldrei lengi á hverjum stað. Á síðustu 15 árum hefur hann unnið 19 stóra bikara og titla.

Mourinho er ekki hugsjónamaður heldur er takmark hans að vinna… sama hvað það kostar. Hann leggur meiri áherslu á varnarleik en sóknarleik, er skipulagður en viðbragðsfljótur og stundar miskunarlausan sálfræðihernað. Síðustu 5 ár hafa ekki verið jafn gjöful og áratugurinn þar á undan og hrun hans hjá Chelsea tímabilið 2015/2016 setti blett á feril hans. Hann er þó líklegur til að bæta bikurum í skáp Manchester United á komandi árum.


1. Alex Ferguson

Manchester United (1986-2013)

Eftir að hafa losað heljargrip Glasgow-risanna á skoska boltanum með Aberdeen var Ferguson ráðinn til Manchester United árið 1986. Fyrstu árin voru erfið og minnstu munaði að hann yrði rekinn. Hann vann loks enska titilinn árið 1993 á fyrsta ári úrvalsdeildarinnar og þá hófst veldi sem leið ekki undir lok fyrr en hann settist í helgan stein 20 árum síðar.

Þegar upp var staðið vann hann 13 deildartitla, 5 bikara, 4 deildarbikara, 2 Evrópumeistaratitla og margt fleira. Eftir 1993 endaði liðið aldrei neðar en í þriðja sæti í deildinni og 11 sinnum var Ferguson valinn knattspyrnustjóri ársins. Ferguson byggði liðið upp frá grunni og tók áhættur með að leyfa yngri leikmönnum að spreyta sig. Hann gerði miklar kröfur til leikmanna og hélt járnaga á liðinu. Lykilatriði var að stjórna hraðanum í leiknum og þora að sækja fram og vinna.

Á seinni hluta ferilsins reiddu Manchester United sig meira á að kaupa alþjóðlegar stórstjörnur á meðan unglingastarfið versnaði. Ferguson náði þó ávallt, ólíkt eftirmönnum hans, að ná því allra besta út úr leikmönnum sínum.

Alex Ferguson hætti að þjálfa árið 2013.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorsteinn Már Baldvinsson er forstjóri Samherja og sonur hans, Baldvin Þorsteinsson, er yfir Evrópuútgerð Samherja.
Norskur ráðherra segist ekki sjá ástæðu til að hjálpa Samherja að safna meiri kvóta
Norsk stjórnvöld hafa gripið formlega til aðgerða vegna tilraunar Samherja til að komast yfir aukin fiskveiðikvóta þar í landi. Reglur verða hertar og fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegi þar í landi verða bundnar sérstakri heimild.
Kjarninn 9. maí 2021
Women Empowerment – bók eftir Eddu Falak
„Kynþokki er allavega og við ættum ekki að vera hræddar við að sýna hann“
Edda Falak safnar nú fyrir bók sem ber nafnið „Women Empowerment“ á Karolina Fund.
Kjarninn 9. maí 2021
Mótmælandi steytir hnefa í borginni Cali en þar hafa átök milli mótmælenda og lögreglu orðið hve hörðust í mótmælunum sem staðið hafa yfir frá því 28. apríl í Kólumbíu.
Mótmæla harðræði lögreglu í Kólumbíu
Mótmæli hafa staðið yfir í Kólumbíu í á aðra viku. Upphaflega voru það breytingar á sköttum sem fólk mótmælti en síðar varð það harðræði lögreglu sem dró fólk af stað. Félagasamtök segja að hátt á fjórða tug mótmælanda hafi látist vegna aðgerða lögreglu.
Kjarninn 9. maí 2021
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None