Eigið fé Íslendinga í fasteignum þeirra tvöfaldaðist í krónum talið frá lokum ársins 2010 til loka árs 2015. Eigið fé þeirra, þ.e. eign miðað við fasteignamat að frádregnum skuldum, var 1.146 milljarðar króna í lok árs 2010 en 2.284 milljarðar króna fimm árum síðar. Þau tíu prósent fjölskyldna sem áttu mest eigið fé í fasteignum í lok tímabilsins juku það um tæplega 500 milljarða króna á því. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands um eigið fé Íslendinga í fasteignum.
Miklar hindranir fyrir tekjulága og eignarlitla
Frá árslokum 2015 hefur húsnæðisverð haldið áfram að hækka hratt. Frá febrúar 2016 til febrúar 2017 hækkaði það til að mynda um 18,6 prósent, samkvæmt vísitölu húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu.
Á sama tíma er mikil umframeftirspurn eftir húsnæði á Íslandi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Íbúðum fjölgaði enda einungis um 7.057 á öllu landinu frá lokum árs 2008 og fram að síðustu áramótum.
Það er langt frá því að svala eftirspurn. Til að halda í við mannfjöldaþróun (Íslendingum hefur fjölgað um 22.890 á tímabilinu) og fjölgun ferðamanna, sem nýta sér líka íbúðarhúsnæði (ferðamenn voru um 500 þúsund árið 2010 en áætlað er að þeir verði 2,3 milljónir í ár), þarf að byggja miklu meira. Bara á höfuðborgarsvæðinu er talið að það þurfi að byggja 1.500 til 1.700 íbúðir á ári og Arion banki áætlaði í nýlegri greiningu að það þyrfti að byggja um átta þúsund íbúðir á næstu þremur árum til að vinna upp uppsafnaða eftirspurn og koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn á ný.
Staðan er því þannig að fyrir hluta landsmanna sem á ekki fasteign versnar ástandi dag frá degi. Leiguverð hefur til að mynda hækkað um 62,7 prósent frá byrjun árs 2011. Alls hefur sú vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 78 prósent frá lokum árs 2010. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hækkað um 20 prósent.
Þetta hefur myndað miklar hindranir fyrir þá sem ekki komast inn á eignamarkað.
Á sama tíma batnar staða þeirra sem hafa komið sér í eigið húsnæði gríðarlega nánast dag frá degi. Þeir efnast á meðan að hinir standa í stað eða dragast aftur úr. Og bilið er stanslaust að breikka.
Afleiðingar hrunsins sýnilegar 2010
Í árslok 2010 áttu Íslendingar 1.146 milljarða króna í eigin fé í fasteignum sínum. Þau tíu prósent landsmanna sem áttu mestar eignir, alls 18.669 fjölskyldur (einstaklinga og samskattaðra), áttu 672,5 milljarða króna af þeirri upphæð, eða 58,7 prósent af öllu eigin fé sem þjóðin átti í fasteignum sínum.
Þau 20 prósent sem áttu mest eigið fé í fasteignum sínum áttu 87,4 prósent af öllu eigin fénu í fasteignum, eða 1.002 milljarða króna.
Sá fimmtungur landsmanna sem átti minnst eigið fé í fasteign, alls um 40.500 fjölskyldur, skulduðu 97 milljörðum krónum meira í fasteignum sínum en virði þeirra var áætlað. Þau 70 prósent þjóðarinnar sem áttu minnst eigið fé voru samanlagt með neikvætt eigið fé upp á 24,7 milljarða króna. Þau semsagt skulduðu meira en þau áttu. Hin 30 prósentin áttu hins vegar 1.171 milljarða króna í eigið fé í fasteignum sínum.
Allt breyttist á örfáum árum
Síðan þá hefur auðvitað mikið vatn runnið til sjávar. Stór hluti fólks var keyrður í gegnum sértæka skuldaaðlögun, 110 prósent leiðina og fjölmargir fengu gengistryggð lán niðurfelld. Þá ákvað ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að gefa hluta þeirra sem voru með verðtryggð lán á árunum 2008 og 2009 72,2 milljarða króna úr ríkissjóði í skaðabætur fyrir verðbólguskot þeirra ára. Sú aðgerð er ótrúleg þegar horft er til þess að eigið fé landsmanna í fasteignum tvöfaldaðist í krónum talið frá árinu 2010 og til loka ársins 2015, eða um rúmlega 1.100 milljarða króna. Án Leiðréttingarinnar hefði það „bara“ hækkað um rúmlega þúsund milljarða króna.
Hlutfallslega var aukningin mest hjá þeim hópum sem áttu minnst.
Þau 70 prósent þjóðarinnar sem áttu minnst eigið fé í fasteignum sínum juku það úr því að vera neikvætt um 24,7 milljarðar króna í að vera jákvætt um 220,1 milljarðar króna. Viðsnúningurinn var 244,8 milljarðar króna.
Þótt staða þessa hóps hafi batnað hlutfallslega langmest þá bættist mest af krónum við eignahlið þeirra ríkustu. Efstu tíu prósent landsmanna, sem voru 20.251 fjölskyldur árið 2015, juku eignir sínar í fasteignum um 494,3 milljarða króna á tímabilinu og áttu 1.167 milljarða króna í eigið fé í fasteignum í lok árs 2015. Samtals áttu þau 30 prósent landsmanna sem áttu mest eigið fé í fasteignum 2.064 milljarða króna í slíku.