Fjármálaeftirlitið (FME) hefur lagt 50 milljóna stjórnvaldssekt á Eimskipafélag Íslands fyrir að birta ekki innherjaupplýsingar úr rekstri félagsins nægilega snemma.
Hinn 8. mars 2017 tók stjórn FME þessa ákvörðun á Eimskipafélag Ísland hf. (Eimskip) vegna brots gegn 1. mgr. 122. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. „Brotið fólst í því að Eimskip birti ekki innherjaupplýsingar, sem lágu fyrir þann 20. maí 2016, um mikið bætta rekstrarafkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi 2016, eins fljótt og auðið var og á jafnræðisgrundvelli eða frestaði birtingu innherjaupplýsinganna,“ segir í tilkynningu FME.
Eimskip hefur hækkað um 36 prósent á undanförnu ári, í viðskiptum á markaði, og er markaðsvirði félagsins nú tæplega 60 milljarðar króna.
Allt í uppnám?
Óhætt er að segja að þessum tíðindum hafi ekki verið vel tekið hjá Eimskip. Félagið segir þessa lagatúlkun FME setja í uppnám hvernig staðið skuli að birtingu upplýsinga í aðdraganda uppgjöra á markaði. Eins og alltaf þegar skráður markaður er annars vegar, þá er mikið í húfi. Grundvallarhugmyndin að baki því að halda úti skráðum markaði er sú að þátttakendur hafi jafnan aðgang að upplýsingum.
Í tilkynningu Eimskip segir að ef þessi niðurstaða FME eigi að vera leiðandi fyrir skráðan markað, þá sé skráðum félögum í raun gert ómögulegt með að vinna að undirbúningi fjárhagsuppgjara.
FME rökstyður niðurstöðu sína með því að horfa sérstaklega til þess hvernig málsatvik voru í umrætt sinn.
Í lýsingu á málsatvikum segir að vinna við gerð árshlutareiknings Eimskips fyrir fyrsta ársfjórðung 2016, tímabilið 1. janúar til 31. mars (Q1), hafi hafist um miðjan maí og „lágu fyrstu drög fyrir þann 20. maí 2016 kl. 11:39,“ eins og orðrétt segir í málsatvikalýsingunni.
Þá segir að drög hafi sýnt „mikið bætta rekstrarafkomu Q1 2016, m.a. nam EBITDA 9,6 milljónum evra og jókst um 66,5% í samanburði við Q1 2015“, og hagnaður hafi numið 1,8 milljónum evra og jókst um 21,1 prósent í samanburði við Q1 2015.
66,5 prósent hækkun
„Drögin breyttust óverulega fram að samþykkt stjórnar Eimskips á stjórnarfundi þann 26. maí 2016. Þá fyrst var regluvörður Eimskips upplýstur um innihald uppgjörsins og afkomutilkynningar sem innihélt uppfærða afkomuspá. Þann sama dag var árshlutareikningurinn ásamt afkomutilkynningunni birtur í Kauphöll. Í fyrirsögn tilkynningarinnar kemur eftirfarandi fram: „EBITDA jókst um 66,5% á fyrsta ársfjórðungi 2016“ og „Afkomuspá fyrir 2016 hækkuð í 49 til 53 milljónir evra.“ Þann 28. maí 2016 hafði verð hlutabréfa félagsins hækkað um 12,89% frá opnun markaða þann 26. maí 2016,“ segir FME.
FME tók til skoðunar hvort innherjaupplýsingar hefðu myndast við uppgjörsvinnu Eimskips fyrir fyrsta ársfjórðung 2016 sem bar að birta eins fljótt og auðið var „og á jafnræðisgrundvelli, eða eftir atvikum fresta birtingu upplýsinganna, í samræmi við 1. og 4. mgr. 122. gr. Vvl.“
Undirbúningur uppgjara í uppnámi?
Eimskip heldur því fram að með þessari ákvörðun FME sé búið að setja undirbúning uppgjara í uppnám. Í tilkynningu félagsins eru sérstaklega sett fram aðtriði sem félagið telur að sýni, að ákvörðun FME sé ekki í samræmi við veruleika skráðra félaga þegar kemur að uppgjörum.
Þessar upplýsingar eru setta fram svona í tilkynningu Eimskipafélagsins:
- Birting árshlutauppgjörs er hluti reglulegrar upplýsingaskyldu, en ekki annarrar atviksbundinnar upplýsingaskyldu.
- Fjárhagsdagatal ársins 2016 lá fyrir þegar í desember 2015, um birtingardag þann 26. maí 2016. Sá dagur var síðan staðfestur með tilkynningu 18. maí 2016.
- Félagið upplýsti í febrúar 2016 að það gerði ráð fyrir bættri afkomu samanborið við fyrra ár.
- Undirbúningur og birting rekstraruppgjöra skráðra félaga er háð ákveðnu reglubundnu ferli sem krefst aðkomu stjórnenda, endurskoðunarnefndar og stjórnar. Endanlegt samþykki árshlutareiknings er í höndum stjórnar félagsins og hann er ekki hægt að birta fyrr en slíkt samþykki liggur fyrir.
- Ekki er hægt að líta einvörðungu til EBITDA framlegðar heldur verður að horfa heildstætt á afkomu félagsins þegar árangur er metinn.
- Félaginu þykir skjóta skökku við að sektarfjárhæðin, 50 milljónir króna, er hærri en nettó aukning hagnaðar milli fyrsta ársfjórðungs 2015 og 2016, sem nam um 45,4 milljónum króna.
- Félagið telur ekki rétt að beintengja breytingar á verði hlutabréfa félagsins í kjölfar uppgjörs einvörðungu við bætingu á EBITDA, þegar aðrir þættir geta haft verðmótandi áhrif, s.s. uppfærð afkomuspá, tilkynningar vegna fyrirhugaðs samstarfs við Royal Arctic Line, fyrirhuguð fyrirtækjakaup á árinu, flot á bréfum félagsins, almennar væntingar á markaði o.fl.
Félagið telur að FME sé að ganga of langt, og ætlar að fara með málið fyrir dómstóla, þar sem tekist verður á um þessi mál.
FME segir hið meint broti varða upplýsingaskyldu útgefanda á
hlutabréfamarkaði, en það var framið eftir gildistöku laga um
breytingar á lagaákvæðum um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði, þar sem
fjárhæð stjórnvaldssekta var hækkuð umtalsvert auk þess sem heimilt er að miða
fjárhæðina við allt að 10 prósent af heildarveltu lögaðila. „Litið er til fordæma með hliðsjón af
framangreindri lagabreytingu. Auk þess er við ákvörðun sektarfjárhæðar tekið mið af
því að brotið var framið af gáleysi og félagið hefur ekki á síðustu fimm árum gerst
brotlegt við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti,“ segir FME.