Það ríkir 16. aldar stemning í breskum stjórnmálum þessa dagana. Tvær konur, Theresa May og Nicola Sturgeon bítast um völd og yfirráð á eyjunni líkt og Elísabet I og María Skotadrottning sem lentu saman veturinn 1569-1570. Þá virðast helstu fjandmenn Englendinga nú vera Spánverjar líkt og árið 1588 þegar þeir sendu flotann ósigrandi til að hernema eyjuna. Elísabet stóð uppi sem sigurvegari í báðum þessum rimmum en það er alls óvíst hvort að Theresu May takist hið sama. Sturgeon hefur fært fram sitt fyrsta peð og nú er það May að svara.
Sturgeon spilar djarft
Flestir bjuggust við því að vindurinn færi úr seglum Skoska Þjóðarflokksins (SNP) með brotthvarfi hins litríka leiðtoga þeirra, Alex Salmond, eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um sjálfstæði landsins þann 18. september árið 2014. Við taumunum tók Nicola Sturgeon sem var algerlega óþekkt utan Skotlands og innan Skotlands talin sjarmalaus og hreint út sagt leiðinleg. Hún hafði verið afar náinn samstarfsmaður Salmond og flestir bjuggust við því að hann myndi í raun stýra flokknum í gegnum hana. Sem leiðtogi stærsta flokksins á skoska þinginu var hún kjörin fyrsti ráðherra Skotlands og í því hlutverki hefur hún sprungið út. Hún er vel sjáanleg og heldur þrumuræður sem eru bæði hrífandi og upplýsandi.
Í sínum fyrstu kosningum til breska þingsins árið 2015 vann hún stórsigur og flokkurinn bætti við sig 50 þingsætum og vann öll kjördæmi landsins nema 3. Salmond hafði nappað fylginu af Verkamannaflokknum, stærsta flokki Skotlands um áratuga skeið, með því að stela hugmyndafræði þeirra og baráttumálum varðandi kjaramál og fleira. Sturgeon fylgdi þessari línu en náði einnig að gera frjálslyndi að einni helstu hugmyndafræði flokksins. Með því að setja frjálslynd stefnumál á oddinn, t.d. í innflytjendamálum, aðgreindi hún Skotland enn fremur frá Englandi þar sem íhaldssami armur Íhaldsflokksins og þjóðernispópulistaflokkurinn UKIP voru í uppgangi. Þessi aðgreining kom glögglega í ljósi í þjóðaratkvæðagreiðslunni um brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit) þann 23. júní síðastliðinn. 62% Skota kusu með áframhaldandi veru í Evrópusambandinu og í höfuðborginni Edinborg var hlutfallið rúmlega 74% (hæst allra borga Bretlands).
Það sem gerði kosninguna enn athyglisverðari var að allar 32 sýslur Skotlands kusu eins. Allt Skotland var sameinað gegn Brexit og þar með taldi Sturgeon sig hafa umboð til þess að fara með málið áfram. Þann 13. mars tilkynnti hún formlega að hún myndi sækjast eftir samþykki skoska þingsins um að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði.
Verðugur andstæðingur
Fáir forsætisráðherrar Bretlands hafa tekið við embætti í jafn slæmri stöðu og Theresa May sumarið 2016, þ.e. ef undanskildir eru David Lloyd George og Winston Churchill sem tóku við í miðri heimsstyrjöld. May tók að sér það óöfundsverða verkefni að leiða Brexit (sem hún sjálf var andvíg) með tilheyrandi samningum við öll aðildarríkin. Fyrir utan það að ná sem hagstæðustu samningum við Evrópusambandið beið hennar það verkefni að lægja öldur heimafyrir.
Brexit var samþykkt með einungis tæplega 52% meirihluta og ljóst að atkvæðagreiðslan hjó Bretland í tvennt. Í grófum dráttum voru það annars vegar íhaldssamir, minna menntaðir, eldri Englendingar í dreifbýli. Hins vegar frjálslynt, menntað, yngra fólk í stórborgum og svæðum utan Englands. Líkt og Sturgeon var May ekki talinn hrífandi stjórnmálamaður áður en hún settist að í Downing stræti 10. Hún var innanríkisráðherra um áraraðir og þótti íhaldssöm á sumum sviðum (innflytjendamálum, glæpum) en frjálslynd á öðrum (réttindum samkynhneigðra). Hún hefur verið uppnefnd “kerfismanneskja” og sökuð um að vera laus við hugsjónir.
En kannski var það einmitt það sem stuðningsmenn Brexit þurftu, þ.e. að fá miðjumanneskju en ekki blóðheita hugsjónamanneskju til að sigla skipinu í gegnum komandi ólgutíma. Þess vegna hefur stjórnartíð hennar byrjað vel fyrir hana sjálfa og Íhaldsflokkinn. Persónulegar vinsældir hennar eru í hæstu hæðum (meira að segja í Skotlandi) en Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir Demókratar eru í molum. Að öllum líkindum munu Íhaldsmenn bæta verulega við sig í næstu þingkosningum, sem verður mögulega flýtt til að styrkja umboð May. Eina raunverulega ógnin við stjórn hennar er því Skoski Þjóðarflokkurinn og leiðtogi þeirra, Nicola Sturgeon.
Störukeppni í Glasgow
Strax eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu var farið að tala um að það þyrfti að endurtaka atkvæðagreiðsluna um sjálfstæði Skotlands. Flestir Skotar bjuggust ekki við að sjá aðra atkvæðagreiðslu fyrr en eftir marga áratugi en nú var ljóst að forsendurnar höfðu breyst umtalsvert. Vilji Englands og Skotlands fór ekki saman og margir Skotar litu svo á að Englendingar væru að draga þá nauðuga út úr Evrópusamstarfinu. Eftir sem leið á haustið urðu þær raddir sífellt háværari að kjósa þyrfti aftur, fyrr en seinna, og Sturgeon tók heilshugar undir þann málstað. Sturgeon segir nú að Bretland stefni í “hart Brexit”, þ.e. að landið fái ekki neinn aðgang að innri markaði Evrópu, og að Skotar sem þjóð verði að hafa valkost milli þeirrar leiðar og að vera sjálfstæðir í Evrópu. May bregst við með því að segja að önnur atkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands sé alls ekki tímabær.
Athyglin verði að vera á Brexit-samningunum sjálfum og Bretar verði að standa þétt saman í þeim til að tryggja bestu útkomuna. Sturgeon stefnir á að halda aðra atkvæðagreiðslu síðla árs 2018 eða snemma árs 2019, áður en að Bretar gangi út. En May segir að samningarnir munu taka langan tíma og Skotlandsmálið geti tafið þá enn frekar. Allur efi um grundvöll Stóra Bretlands sem sameinaðs ríkis myndi gera samningaumleitanir óhugsandi.
„Það er nú augljóst að eina takmark SNP síðan í júní hefur verið að nota Brexit sem fyrirslátt til að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði.“
Sturgeon og May funduðu á hóteli í Glasgow þann 27. mars síðastliðinn í um það bil klukkustund. Þrúgandi andrúmsloft var á fundinum og ekkert kom út úr honum annað en staðfesting á þeirri stöðu sem upp var komin. Eftir fundinn sagði May Brexit vera tækifæri fyrir þjóðir Stóra Bretlands að styrkja böndin en Sturgeon sagðist pirruð á því að May hlustaði ekki á kröfur Skota. Degi seinna var tillaga Sturgeon um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði samþykkt á skoska þinginu með 69 atkvæðum gegn 59.
Flókið endatafl
Vandi Nicolu Sturgeon er fólginn í því að samþykki skoska þingsins er ekki nægur. Hún þarf einnig að fá samþykki frá breska þinginu í Westminster. Vandi May er annar og meiri, þ.e. hvernig þessu verður svarað. David Mundell, Skotlandsmálaráðherra Íhaldsstjórnarinnar, hefur sagt að önnur atkvæðagreiðsla um sjálfstæði myndi ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi á næsta áratug, eftir að Brexit væri til lykta leitt. En það er hins vegar áhætta að segja einfaldlega: “Nei, ekki núna” við skoska þingið. Að gera lítið úr vilja skoska þingsins gæti komið í bakið á Westminster því að Sturgeon myndi hiklaust nota höfnunina sem vopn heimafyrir. Íhaldsstjórnin er því smeyk við að styggja ekki Skota um of og efla þar með þjóðerniskennd þeirra.
Theresa May gæti hins vegar ákveðið að segja einfaldlega já og krossa fingur því að það er langt því frá gefið að Skotar samþykki að yfirgefa Stóra Bretland í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Árið 2014 kusu rúm 55% með áframhaldandi veru í Stóra Bretlandi en tæp 45% með sjálfstæði. Einungis 4 sýslur kusu með sjálfstæði og þar var Glasgow, fjölmennasta borg landsins, veigamest. Þetta var þó mun jafnara en búist hafði verið við því að um langt skeið mældist stuðningur við sjálfstæði einungis um þriðjungur í skoðanakönnunum. Nú mælist stuðningur við sjálfstæði yfirleitt á bilinu 40-45% en Sturgeon treystir á að hann hækki í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar líkt og gerðist árið 2014 og fari þá yfir 50%.
Líkt og 2014 flækja Evrópumálin hins vegar myndina og þar koma Spánverjar inn. Spánverjar væru hikandi við að hleypa Skotum strax inn í Evrópusambandið í ljósi þeirra eigin stöðu með Katalóníu. Ef Skotar fengju sjálfstæði gæti EFTA aðild hins vegar verið möguleiki fyrir þá. Spánverjar eru þó ekki aðeins að vefjast fyrir Sturgeon því að eftir Brexit hafa þeir ítrekað kröfur sínar á Gíbraltar-höfða. Á Gíbraltar kusu einungis 4% með Brexit en Bretar hafa verið harðir á því að sleppa þó ekki takinu af höfðanum. Það hefur meira að segja verið talað um að beita hernum gegn Spánverjum í því samhengi.
Eitt helsta vandamál sem Theresa May stendur frammi fyrir varðandi mögulega atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotland er að finna leiðtoga til að berjast fyrir sínum málstað. Hún sjálf er ekki skosk og það yrði feigðarflan að velja eigin flokksmenn. Því þyrfti hún að stóla á Verkamannaflokkinn sem er þó mun lemstraðri nú en hann var árið 2014. Fyrrum fjármálaráðherrann Alistair Darling stýrði baráttunni árið 2014 en nú hefur tveimur gamalgrónum nöfnum verið velt upp, þ.e. fyrrum forsætisráðherrunum Tony Blair og Gordon Brown. Þeir hafa báðir sagt nýlega að þeir styðji áframhaldandi veru Skotlands í Stóra Bretlandi en spurningin er hvort þeir hafi ennþá nægilega vigt til að takast á við Nicolu Sturgeon.
Fleiri vilja tefla
Skotland og Gíbraltar-höfði eru ekki einu lömbin sem Theresa May þarf að halda innan girðingar. Aðeins nokkrum klukkutímum eftir að Nicola Sturgeon lýsti því yfir að Skotar myndu fara fram á atkvæðagreiðslu gerði Michelle O´Neill, leiðtogi Sinn Fein í Norður Írlandi, slíkt hið sama. Líkt og Skotland kaus Norður Írland gegn Brexit með um 56% atkvæða. O´Neill segir:
„Brexit verður stórslys fyrir efnahaginn, og stórslys fyrir fólk Írlands. Breska stjórnin neitar að hlusta á meirihlutann og neitar að standa við skuldbindingar sínar og samninga.“
Samkvæmt friðarsamningum frá árinu 1998 hafa Norður Írar val um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um að ganga út úr Stóra Bretlandi. En einungis ef fyrirséð er að almennur þjóðarvilji sé fyrir því (sem hefur ekki verið sjáanlegur í skoðanakönnunum hingað til). Staða Norður Írlands er þó nokkuð töluvert ólík stöðu Skotlands. Þær sýslur sem eru að mestu byggðar Bretum kusu með Brexit en írsku sýslurnar kusu gegn. Þá er það ekki takmark Sinn Fein og annarra þjóðernissinnaðra flokka að Norður Írland verði sjálfstæð þjóð, heldur að landið gangi inn í Írland og komist þar með aftur inn í Evrópusambandið.
Eftir Brexit-kosninguna eru sífellt fleiri farnir að tala um sjálfstæða Lundúni þar sem um 60% íbúanna kusu með áframhaldandi aðild að Evrópusambandinu. “Londependence” heitir hreyfingin og virðist í fyrstu fráleit ólíkt máli Skotlands, Norður Írlands og Gíbraltar sem eiga öll sína fána og fótboltalandslið. En hún er þó ekki ný af nálinni og Londependence-sinnar líta fyrst og fremst til Singapúr sem fyrirmyndar að sjálfstæðu borgríki Lundúna. Helsti talsmaðurinn er hinn ungi David Lammy, fyrrum menningarmálaráðherra Bretlands. Hann telur allar forsendur til staðar fyrir sjálfstæði borgarinnar og beintengir kröfuna við baráttu Skota nú. Í Lundúnum búa rúmlega 8 milljónir íbúa, 3 milljónum fleiri en í Skotlandi, og efnahagurinn er um tvöfalt stærri.
Tæplega 200.000 undirskriftir hafa safnast á netinu til stuðnings hugmyndinni en hún hefur þó enn ekki víðtæka skírskotun. Að sleppa takinu á höfuðborginni er sennilega það síðasta sem Theresu May dytti í hug að gera. Uppgangur hreyfingarinnar er þó gott dæmi um það hversu mikið róstur er komið á í bresku samfélagi eftir Brexit atkvæðagreiðsluna.