Ríkissjóður mun koma áfram að gerð Vaðlaheiðarganga sem lánveitandi eða með öðrum hætti. Fyrir Alþingi verður lagt eins fljótt og unnt er frumvarp til breytinga á lögum um Vaðlaheiðagöng sem kveða á um að fjárhæðaheimild laganna veðri hækkuð um allt að 4,7 milljarða króna miðað við verðlag í lok árs 2016. Auk þess verði gert úttekt á Vaðlaheiðargangaverkefninu og því sem fór úrskeiðis. Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Íslenska ríkið ákvað á árunum 2009 og 2010 að kanna að ráðist yrði í gerð Vaðlaheiðarganga í einkaframkvæmd. Leitað var til íslenskra lífeyrissjóða um að koma að fjármögnun verkefnisins en ekki náðist saman um slíkt. Því ákvað þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að verkefnið yrði fjármagnað af ríkissjóði til skamms tíma en síðar yrði leitað á almennan markað að langtímafjármögnun. Verkefnið átti að verða aðlandi fyrir fjárfesta m.a. vegna þess að fjármögnunin átti að verða rekstrarlega sjálfbær með innheimtu veggjalds.
Í júní 2012 samþykkti Alþingi svo lög um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Í þeim fólst að ríkissjóður gat lánað allt að 8,7 milljarða króna til verkefnisins, á því verðlagi sem var í lok árs 2011. Vextir á lánunum voru allt að 3,7 prósent og átti það fé að duga fyrir stofnkostnaði. Sérstakt félag var stofnað utan um framkvæmdina, Vaðlaheiðargöng ehf. Meirihlutaeigandi þess félags er Greið leið ehf. í eigu Akureyrarbæjar, fjárfestingarfélagsins KEA og Útgerðarfélags Akureyringa. Minnihlutaeigandi í félaginu er Vegagerðin. Gert var ráð fyrir að framkvæmdum yrði lokið í árslok 2016 og að gangagröftur myndi klárast í september 2015.
Mikil vandræði hafa hins vegar orðið á meðan að á framkvæmdinni hefur staðið vegna erfiðra jarðlaga og innrennsli á bæði heitu og köldu vatni. Betur hefur gengið að undanförnu og samkvæmt minnisblaði sem Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram í ríkisstjórn á í morgun var búið að klára um 97 prósent af greftri ganganna í lok mars. Þegar er búið að grafa 7 kílómetra af 7,2 kílómetra heildarlengd þeirra.
Ríkisstjórn samþykkir frekari lánveitingar
Í mars var greint frá því að það vantaði umtalsvert fé til að klára gerð Vaðlaheiðarganga. Benedikt sagði þá að hann myndi beita sér fyrir því að ríkið myndi lána meira fé í framkvæmdina en að hann teldi ekki útilokað að eigendur Greiðrar leiðar kæmu að slíkri fjármögnun. Þeir höfnuðu því hins vegar algjörlega, en þeir hafa þegar lagt fram 236 milljónir króna í eigið fé inn í félagið.Þess vegna hefur ríkisstjórnin nú ákveðið að hækka lánsheimild Vaðlaheiðarganga um allt að 4,7 milljarða króna. Í minnisblaði fjármála- og efnahagsráðherra, sem lagt var fyrir ríkisstjórnarfund í morgun, segir : „Gera má ráð fyrir að sú óvissa sem einkennt hefur gangagröftinn hverfi að mestu við gegnumslagið sem verður væntanlega á næstu vikum. Í upphaflegum áætlunum félagsins var gert ráð fyrir að ófyrirséður kostnaður gæti numið allt að 7% af framkvæmdaáætlun og var það hlutfall byggt á upplýsingum frá Vegagerðinni. Áætlaður umframkostnaður vegna fyrrgreindra tafa nemur hins vegar um 44% af áætluðum stofnframkvæmdakostnaði miðað við verðlag upphaflegrar lánveitingar. Viðbótarfjárþörf nemur því um 4.7 milljörðum króna m.v. verðlag og stöðu láns í lok árs 2016.
Fyrir liggur að hluthafar Vaðlaheiðarganga hf. hafa á aðalfundi félagsins hafnað því að leggja félaginu til aukið hlutafé til að standa undir framangreindum aukakostnaði. Ljóst er að verði framkvæmdinni ekki að fullu lokið kann ríkissjóður sem lánveitandi að skaðast auk þess sem göngin sem nánast eru fullgrafin munu ekki skila þeim samfélagslega ávinningi sem stefnt var að. Að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins er hagfelldast fyrir ríkið að verkefninu verði lokið og það verði síðan skoðað í framhaldinu hvernig best verður að haga framtíðarfjármögnun þeirra eftir að öll óvissa er frá og reynsla verður kominn á rekstur þeirra.
Ríkisábyrgðasjóði var af fjármála- og efnahagsráðuneytinu falið að gera umsögn um slíka viðbótarlánveitingu til félagsins til að unnt sé að ljúka verkefninu. Í umsögn sjóðsins kemur í meginatriðum fram að hann telji rétt úr því sem komið er að samþykkja slíkt viðbótarlán til félagsins.
Ljóst er að öll óvissa um greiðslugetu félagsins mun hafa áhrif á verktaka framkvæmdarinnar. Gera má ráð fyrir að þeir muni sjá sig knúna til að bregðast við slíkri stöðu með einhverjum hætti telji þeir hættu á að ekki náist að fullfjármagna það sem eftir stendur af verkinu.
Til að unnt sé að lána félaginu umrædda fjárhæð þarf að breyta fjárhæðarmörkum laga nr. 48/2012, um heimild til að fjármagna gerð umræddra ganga undir Vaðlaheiði. Við lögfestingu breytinganna mun ríkið geta gert viðaukasamning við félagið um slíka lánveitingu.“
Í samræmi við þetta samþykkti ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp til að hækka mögulega lánveitingu til verkefnisins um 4,7 milljarða króna og að gera úttekt á verkefninu til að kanna hvað hafi farið úrskeiðis.