Á sama tíma og vísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins hefur lækkað um tæplega þrjú prósent á undanförnu ári, þá hafa hlutabréfasjóðir sem einblína á íslenskamarkaðinn skilað mun lakari niðurstöðu. Þannig hefur sjóðum á Íslandi ekki tekist að skila betri niðurstöðu en vísitala markaðarins sýnir (Beat the Market), sem oft er viðmiðið fyrir það sem að lágmarki þarf að ná til að teljast viðunandi við ávöxtun sjóða.
Þrír af ellefu
Einungis þrír sjóðir, sem Keldan mælir ávöxtunina hjá, hafa náð að sýna betri árangur heldur en vísitala markaðarins en það eru Júpíter - Innlend hlutabréf, vísitölusjóður Íslenskra verðbréfa og síðan GAMMA Equity Fund. Hann hefur skilað bestri ávöxtun allra sjóða á síðasta árinu, eða 6,12 prósent. ÍV sjóðurinn er síðan 2,8 prósent ávöxtun og Júpiter 0,69 prósent.
Aðrir sjóðir eru allir með neikvæða ávöxtun og fyrir neðan þrjú prósent.
Samandregið eru þrír sjóðir eru með jákvæða ávöxtun, en átta neikvæða ávöxtun og lakari en vísitala markaðarins.
Samtals eru þeir ellefu sjóðir sem eru með fjárfestingar sínar í innlendum hlutabréfum um 82 milljarðar að stærð. Stærstur þeirra er Stefnir ÍS 15 sem er um 38 milljarðar. Neikvæð ávöxtun hans á undanförnu ári er 16,6 prósent og er hann með þriðju verstu ávöxtunina af öllum sjóðum.
Verstu sjóðirnir, þegar horft er til ávöxtunar á undanförnu ári, eru hjá Landsbréfum. Landsbréf Úrvalsbréf með neikvæða ávöxtun um 18,5 prósent og Landsbréf Öndvegisbréf með neikvæða ávöxtun upp á 18,8 prósent.
Icelandair hefur dregið sjóðina niður
Ástæðan fyrir slæmri ávöxtun þessara þriggja sjóða er sú að þeir eru allir með drjúgan hluta af eignum sínum í bréfum Icelandair Group sem hafa lækkað mikið á undanförnu ári, eða úr ríflega 40 í 13 nú. Félagið er nú 64 milljarða króna virði en var fyrir um ári um 190 milljarða virði.
Hjá Stefni ÍS 15 eru 16,3 prósent eigna í bréfum Icelandair, hjá Landsbréfum Úrvalsbréfum 21,7 prósent og hjá Landsbréfum Öndvegisbréfum 18,3 prósent.
Sé meðaltal allra sjóðanna tekið saman, og það skoðað í samhengi við þróun á vísitölu markaðarins á undanförnu ári, þá er meðaltalsávöxtun sjóðanna neikvæð um 6,4 prósent á sama tíma og vísitala markaðarins hefur lækkað um tæplega þrjú prósent.
Uppgangur á síðustu árum
Þrátt fyrir að undanfarið ár hafi verið frekar slæmt á íslenskum hlutabréfamarkaði, þvert á mikinn gang í efnahagsmálum þjóðarinnar, þá hefur hækkunin á undanförnum árum verið mikil. Á síðustu fimm árum hefur vísitalan farið úr ríflega þúsund í ríflega 1.750 nú. Fyrir um ári var hún í hæstu hæðum frá endurreisninni eftir hrun, ríflega 1.940.