Þann 7. maí í seinni umferð forsetakosninganna í Frakklandi verða það Emmanuel Macron (23,9%) úr samtökunum En Marché og Marine Le Pen (21,4%) frá Þjóðarfylkingunni sem mætast. Sögulegt nú fimmtán árum eftir að Jean-Marie Le Pen, faðir Marine Le Pen, komst í aðra umferð á móti Jacques Chirac forseta. Hvorki klassískir hægri eða vinstri flokkar komust áfram að þessu sinni. François Fillon frambjóðandi Repúblikana hlaut 19,9% og Benoit Hamon frá Sósíalistaflokknum aðeins 6,3%. Annað óvænt er að hinn vinstrisinnaði Jean-Luc Melenchan fékk aðeins 0,3% minna en Fillon, 19,6% og hefði þurft minna en 2% í viðbót til að ýta Le Pen út.
Þótt skoðanakannanir hefðu hvorki séð Brexit né kosningu Donald Trump fyrir þá höfðu margar þeirra nokkurn veginn séð fyrir úrslitin í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna. Hvorki var búist við því í könnunum til vinstri og hægri að Hamon eða Fillon myndu vinna. Því má segja að kannanir hafi aðeins náð að rétta hlut sinn hvað trúverðugleika varðar.
Margir tala um „Big bang“ í frönskum stjórnmálum í Frakklandi. Á örfáum mánuðum hafa Frakkar hafnað tveimur forsetum, Nicolas Sarkozy í forkosningum og François Hollande í skoðanakönnunum, sem olli því að hann bauð sig ekki fram. Einnig þremur fyrrum forsætisráðherrum, Alain Juppé til hægri, Manuel Valls sem sagði af sér og ætlaði sér að vinna hjá Sósíalistum og svo á sunnudag François Fillon, forsætisráðherra Sarkozys.
Macron sem á endanum varð efstur, og nær allir stjórnmálaleiðtogar hafa lýst yfir stuðningi við, fyrir seinni umferðina, er aðeins 39 ára og hefur aldrei boðið sig fram í kosningum fyrr en nú. Hann kemur úr hinum fræga ENA stjórnsýsluskóla, þaðan hafa margir sem ná langt í opinberu starfi komið og reyndar oft stjórnmálaelítan. Hann hætti hins vegar í opinbera geiranum og fór að vinna hjá einkafyrirtæki, í hinum fræga Rochild-banka. Seinna varð hann ráðgjafi Hollande forseta í Elysée og efnahagsráðherra hans í tvö ár. Það er einstakt í franskri stjórnmálasögu að frambjóðandi hafi ekki verið þingmaður eða ráðherra árum saman og að hann komi ekki heldur úr stjórnmálaflokki. Fyrir aðeins þremur árum vissi enginn hver Emmanuel Macron var.
Það að Marine Le Pen komst í seinni umferðina var nokkuð fyrirsjáanlegt. Skoðanakannanir höfðu sýnt það síðustu þrjú ár. Í héraðstjórnakosningunum í Frakklandi 2015 varð Þjóðarfylkingin efst og hefur síðan þá verið stærsti flokkur landsins. Margir höfðu vonast eftir því að Le Pen kæmist ekki áfram því það yrði blettur á ímynd landsins að öfga hægriframbjóðandi hefði raunverulega möguleika á að vinna kosningarnar. Góðu fréttirnar eru þær að Marine Le Pen hefur tapað sex prósentum á tveimur mánuðum því hún var lang efst lengi vel og það eru þó jákvæð skilaboð. Samkvæmt könnun sem gerð var á sunnudagskvöld mun Macron sigra með 62 prósentum en Le Pen fá 38 prósent í seinni umferðinni.
Fyrirvara verður þó að hafa á öllu þessu því að nú hefst ný kosningabarátta sem stendur í tvær vikur og margt getur breyst þó vissulega hafi Marine Le Pen ekki mikinn varasjóð í atkvæðum. Samkvæmt því sem kjósendur segja skiptast atkvæði Fillons í þrennt, einn þriðji til Le Pen, helmingur til Macrons og 20 prósent segjast ætla að skila auðu í annarri umferð. Sósíalistar munu fylkja sér bak við Macron og um 60 prósent þeirra sem kusu Melanchon. Því ætti Le Pen ekki að eiga möguleika á að vinna.
En það er EN í þessari greiningu. Kosningaþátttaka í fyrri umferðinni var 77 prósent og því voru 23 prósent sem sátu heima. Ef stór hluti þeirra sem ekki kusu á sunnudag kjósa sunnudaginn 7. maí og þá Le Pen, getur jafnvægið breyst. Einnig verða þeir sem kusu í fyrri umferðinni að skila sér og kjósa, sem auðvitað er ekki öruggt. Svo má ekki gleyma því sem allir óttast eftir skotárásina á Champs-Elysée-breiðgötunni á fimmtudag og handtöku mannanna tveggja í Marseille á mánudag í síðustu viku sem voru að skipuleggja hryðjuverkaársás, að ef eitthvað slíkt myndi gerast að nýju er óvíst hvernig almenningur mundi bregðast við. Marine Le Pen hefur árum saman spilað inn á hræðslu fólks við innflytjendur og nú sérstaklega múslima eftir þær árásir sem landið hefur upplifað síðan í janúar 2015. Emmanuel Macron hefur verið gagnrýndur fyrir að hafa ekki nógu harða stefnu í öryggismálum og það gæti unnið gegn honum, gerist eitthvað óvænt sem enginn auðvitað óskar.
Verðbréfamarkaðir og Evrópusambandslönd eru ánægð með úrslitin á sunnudag. Markaðir voru í uppsveiflu við opnun í morgun, í Frakklandi hækkuðu verðbréf um 4,5%. Stjórnmálamenn í Þýskalandi og ýmsir yfirmenn hjá Evrópusambandinu í Brussel eru ánægðir með að eini frambjóðandinn sem talar með jákvæðum hætti um Evrópusamvinnu og vill auka hana, skuli hafa orðið efstur og eigi góða möguleika á að sigra. Bæði Sigmar Gabriel og Angela Merkel hafa lýst yfir stuðingi við Macron.