Landsvirkjun boðar að arðgreiðslur muni brátt hækka úr 1,5 milljarði í 10-20 milljarða króna og að þetta muni gerast á næstu 3-4 árum. Þ.e. að arðgreiðslurnar tífaldist og jafnvel rúmlega það á einungis örfáum árum. Það yrði gríðarlega mikil og snögg hækkun arðgreiðslna. Og þessi sviðsmynd Landsvirkjunar virðist raunhæf. Það hljóta að vera afskaplega ánægjuleg tíðindi fyrir eiganda fyrirtækisins; íslenska ríkið.
Úr 1,5 milljarði 2017 í 10-20 milljarða á næstu 3-4 árum
Arðgreiðsla Landsvirkjunar undanfarin ár hefur verið 1,5 milljarður króna. Samkvæmt rúmlega mánaðargamalli kynningu fyrirtækisins á uppgjöri ársins 2016 á að byrja að auka arðgreiðslurnar eftir 1-2 ár. Og að þær muni fara í 10-20 milljarða króna á næstu 3-4 árum.
Ekki hefur komið fram hvernig þetta á nákvæmlega að gerast. Stefnan virðist þó sú að á næsta ári eða ekki síðar en 2019 verði unnt að auka arðgreiðsluna um þó nokkra milljarða. Og brátt muni svo arðgreiðslan fara yfir milljarðatuginn og svo teygja sig í átt að u.þ.b. 15 milljörðum króna og jafnvel í 20 milljarða króna. Á örfáum árum.
Arðgreiðslur áttu að aukast jafnvel strax 2017
Það er vel að merkja svo að væntingar Landsvirkjunar frá árinu 2015 um vaxandi arðgreiðslur eftir „tvö til þrjú ár“ eiga ennþá eftir að raungerast. Núna tveimur árum síðar er arðgreiðslan ennþá í 1,5 milljarði króna, rétt eins og verið hefur undanfarin ár. Og sá arður sem greiddur er núna, sbr. ársreikningur fyrir rekstrarárið 2016, er minni í USD en greiddur var vegna rekstrarársins 2014 (USD er uppgjörsmynt Landsvirkjunar). Að því leyti hefur arðgreiðsla Landsvirkjunar í reynd minnkað síðan 2014. Og bæði rekstrarhagnaður og nettóhagnaður fyrirtækisins vegna ársins 2016 var minni en vegna ársins 2015.
Lágt álverð heldur aftur af arðgreiðslugetu Landsvirkjunar
Markmið eða væntingar Landsvirkjunar frá 2015 um hækkandi arðgreiðslur eftir 2-3 ár geta ennþá gengið eftir. Þ.e. ef arðgreiðslan eykst árið 2018, þ.e. vegna rekstrarársins 2017. Það er því ekki svo að væntingar Landsvirkjunar um auknar arðgreiðslur hafi ekki gengið eftir. En spyrja má af hverju arðgreiðslan jókst ekki strax nú í ár?
Svarið við þeirri spurningu er sennilega að álverð hafi verið lægra en væntingar voru um, svo og gengi krónunnar. Hvort tveggja hefur haldið aftur af arðgreiðslumöguleikum Landsvirkjunar. Hefði álverð hækkað hraðar og meira en raunin hefur verið hefði arðgreiðslan sennilega aukist strax árið 2017. Og Landsvirkjun hefur vel að merkja ekki slegið af væntingunum og boðar núna að hækka arðgreiðslur úr 1,5 milljarði í 10-20 milljarða króna á næstu 3-4 árum.
Mikil vikmörk
Vikmörkin þarna eru mikil; mikill munur er á því hvort arðgreiðsla eftir 3-4 ár verði 10 milljarðar eða 20 milljarðar króna. Þessi miklu vikmörk skýrast sennilega fyrst og fremst af óvissunni um þróun raforkuverðs og þróun álverðs. Það hvort arðgreiðslur nái brátt 10 eða 20 milljörðum króna strax um eða upp úr 2020 mun sem sagt ráðast mjög af þróun tekna Landsvirkjunar af raforkusölunni og þar er álverð stór áhrifaþáttur. Fleira kemur þó til og óvissuþættirnir eru margir.
Minni framkvæmdir, minni afborganir skulda og hækkandi orkuverð
Fari arðgreiðslur Landsvirkjunar vel yfir 10 milljarða króna strax á næstu árum yrði það mun hraðari aukning arðgreiðslna en greinarhöfundur gerði ráð fyrir í nýlegri grein hér á Kjarnanum. Munurinn þarna felst einkum í því að meiri samdráttur virðist áætlaður í framkvæmdum Landsvirkjunar en greinarhöfundur bjóst þá við. Þar með verða meiri fjármunir fyrir hendi til að greiða arð.
Samkvæmt áðurnefndri nýlegri kynningu fyrirtækisins kemur fram að þeir fjármunir sem muni skapa þessa miklu aukningu á arðgreiðslum eigi sér þrenns konar uppsprettur:
- Samdráttur í framkvæmdum, þ.e. minna virkjað en verið hefur og minna tekið af veltufé til framkvæmda.
- Minni afborganir skulda, enda hafa skuldir farið lækkandi (og lánshæfi fyrirtækisins batnað og vextir því orðið lægri en ella).
- Aukning á rekstrartekjum, sem kemur til vegna hækkandi raforkuverðs, þ.e. hærra meðalverð fæst fyrir hverja selda framleiðslueiningu.
Lítið virkjað á næstu árum
Eins og áður sagði skiptir hér verulegu máli að Landsvirkjun hyggst nú verja minna fjármagni í virkjunarframkvæmdir. Einnig skiptir miklu að vegna lækkandi skulda fer nú almennt minna fé í afborganir lána og vaxtagreiðslur og það skapar aukið svigrúm til arðgreiðslna.
Sú þróun að nú muni hægja á virkjunarframkvæmdum af hálfu Landsvirkjunar kemur kannski sumum á óvart. Sérstaklega í ljósi þess að undanfarin misseri hefur talsverð umræða verið um það hérlendis að það jaðri við raforkuskort í landinu.
Á móti kemur að næstu árin má nýta til undirbúa nýjar framkvæmdir, sem svo gætu farið á fullt eftir fáein ár. Það ætti því að vera óþarfi að óttast raforkuskort. Svo er það vel að merkja Landsvirkjun sem útvegar kísilveri United Silicon rafmagn, en þar mun nú allt vera stopp og nokkuð óvíst um framhaldið. Það er því ekki útilokað að þar losni um raforku, sem að vísu er ekki mjög mikið magn. Þetta er aukaatriði en gæti sem sagt skipt máli.
Tekið skal fram að ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um áætlaðar framkvæmdir Landsvirkjunar á næstu árum. Þess vegna er erfitt að áætla af nákvæmni t.a.m. hversu stórum hluta af veltufé sínu Landsvirkjun hyggst verja til slíkra verkefna. Og því augljóslega vandkvæðum bundið fyrir utanaðkomandi að meta hversu mikil áhrif framkvæmdir koma til með að hafa á arðgreiðslugetuna.
Tekjuóvissa gæti haldið aftur af arðgreiðslum
Áætlanir Landsvirkjunar um að arðgreiðsla geti farið í allt að 20 milljarða króna eftir einungis 3-4 ár er háð margvíslegum óvissuþáttum og ytri skilyrðum. Það er t.a.m. óvíst hversu góður árángur næst í að auka tekjur Landsvirkjunar af raforkusölunni. Og til að vel gangi má raforkuverðið á norræna orkumarkaðnum helst ekki verða mjög lágt og slæmt væri ef álverð yrði mjög lágt. Þá er ennþá óvíst hvort endursamið verður við Elkem á þeim nótum sem Landsvirkjun gerir ráð fyrir. Og ekki er heldur víst hverju raforkusamningur Landsvirkjunar við Norðurál muni nákvæmlega skila í tekjur eftir að hann gengur í gildi á árinu 2019; það ræðst af verðþróuninni á norræna raforkumarkaðnum. Þarna eru því margir óvissuþættir fyrir hendi.
Þá er líka óvíst hversu miklum tekjum um helmingurinn af raforkusölu Landsvirkjunar muni skila, þ.e. vegna þess að þar er orkuverðið tengt álverði. Hér er að sjálfsögðu átt við orkusamning Landsvirkjunar og Fjarðaáls (Alcoa), ásamt raforkusölunni til Norðuráls (Century) fram á 2019. Um þessar tekjur ríkir veruleg óvissa og sú óvissa veldur miklum vikmörkum um það hvaða arðgreiðslna megi vænta frá Landsvirkjun á komandi árum. Álverð er sem sagt ennþá mikilvægur þáttur í afkomu Landsvirkjunar. Svo er gengisþróun líka ávallt óvissuþáttur; hér er jú rætt um arðgreiðslu í íslenskum krónum.
Aukning í arðsemi Landsvirkjunar er eðlileg og aðkallandi
Vert er að hafa í huga að miðað við stærð (framleiðslumagn) Landsvirkjunar yrðu arðgreiðslur af þessari stærðargráðu, þ.e. 10-20 milljarðar, engin ósköp. Fremur mætti þar tala um eðlilegan arð, svo sem ef miðað er við sambærilegan rekstur á Norðurlöndunum. Landsvirkjun hefur í áratugi skilað lítilli arðsemi og hefur þar að jafnaði staðið talsvert að baki t.d. norrænum raforkufyrirtækjum í ríkiseigu.
Góð tíðindi fyrir eiganda Landsvirkjunar
Hér í lokin má svo sjá töflu sem sýnir hvernig arðgreiðslur Landsvirkjunar gætu mögulega þróast á komandi árum. Þarna er vel að merkja um að ræða mögulega sviðsmynd en ekki spá. Þessi sviðsmynd er raunhæf að gefnum tilteknum forsendum, en þær forsendur geta hæglega breyst. Þess vegna er t.a.m. ekki víst að það muni ganga svona hratt að auka arðgreiðslurnar og kannski ennþá síður líklegt að nákvæmlega þessi spá muni ganga eftir.
Í töflunni er t.d. gert ráð fyrir því að árlegar tekjur Landsvirkjunar af Norðuráli og Elkem aukist brátt um hátt í sex milljarða króna. Sem er að sjálfsögðu óvíst og kann að vera full bjartsýnt f.h. Landsvirkjunar, m.a. með hliðsjón af því að nú er verið að spá mjög lágu raforkuverði á norræna orkumarkaðnum á komandi árum. Umrædd sviðsmynd er því háð margvíslegum fyrirvörum. En er engu að síður vísbending eða tillaga um það hvaða staða gæti verið framundan hjá Landsvirkjun m.t.t. arðgreiðslna.
Möguleikinn á 10-20 milljarða króna arðgreiðslu Landsvirkjunar á allra næstu árum er sem sagt til staðar þó svo að margvíslegir óvissuþættir séu fyrir hendi. Það hljóta að vera ánægjuleg tíðindi fyrir eiganda fyrirtækisins, sem er íslenska ríkið. Meiri og nákvæmari upplýsingar um arðgreiðslur Landsvirkjunar kunna svo að koma fram á ársfundi fyrirtækisins sem fer fram í dag; miðvikudaginn 26. apríl. Áhugasömum um orkumál má einnig benda á skrif á vefnum Medium.com.