Undanfarin ár hafa um átta heimilislæknar útskrifast á hverju ári hér á landi, en árleg þörf fyrir nýja heimilislækna er um það bil tvöfalt meiri, eða 15 læknar. Mjög lítil nýliðun hefur átt sér stað í stétt heimilislækna síðustu tíu til fimmtán ár, og mikið þarf að breytast til að ekki verði skortur á heimilislæknum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Aðeins 25 heimilislæknar á Íslandi eru á aldrinum 35 til 45 ára, samanborið við 64 heimilislækna á aldrinum 61 til 70 ára. Þegar farið er í minni aldursbil, til dæmis 35 til 40 ára, eru aðeins átta heimilislæknar á Íslandi á þeim aldri. 30 heimilislæknar eru á aldrinum 66 til 70 ára.
Það er því ljóst að þeir heimilislæknar sem fara á eftirlaun á næstu árum og áratug munu skilja eftir sig mjög stórt skarð. Það skarð verður ekki fyllt nema að útskrifuðum heimilislæknum fjölgi verulega á allra næstu árum. Í lok síðasta árs, 2016, voru 24 læknar í sérnámi í heimilislækningum.
Vantar 7 á ári en áætlun gerir ráð fyrir tveimur
Ríkisendurskoðun beinir því til stjórnvalda að leita þurfi allra leiða til að fjölga útskrifuðum heimilislæknum. Vandinn er ekki nýr af nálinni því í annarri skýrslu um heildarskipulag sérfræðiþjónustu lækna árið 2011 kom fram að skortur væri á læknum, meðal annars í heimilislækningum. Vitneskja um vandann hefur því legið fyrir lengi en ekki nógu mikið verið gert til að bregðast við.
„Því hvetur stofnunin velferðarráðuneyti og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að kanna sérstaklega til hvaða að- gerða megi grípa til að fjölga heimilislæknum. Þá hvetur stofnunin ráðuneytið til að tryggja að það fjármagn sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fær vegna kennslu dugi fyrir kostnaði sem henni tengist. Fram kemur í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 að til standi að fjölga námsstöðum í heimilislækningum um tvær á því ári. Ríkisendurskoðun telur flest benda til þess að gera þurfi betur í þeim efnum og hvetur því velferðarráðuneyti til að meta þörf á endurnýjun í stétt heimilislækna fram til ársins 2030.“
Einnig þyrfti að fjölga nemum í heilsugæsluhjúkrun að mati Ríkisendurskoðunar.
Heimilislæknar eru hlutfallslega fæstir á Íslandi af Norðurlöndunum, en einstaklingum á hvern heimilislækni hefur fjölgað hér á landi á undanförnum árum á meðan þeim hefur fækkað í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Líka vöntun á geðlæknum
Það er skortur á nýliðun í fleiri sérgreinum læknisfræði. Fréttablaðið greindi frá því í gær að aðeins fjórir læknar stundi nú sérnám í geðlækningum, en venjulega séu það ríflega þrefalt fleiri. Alls er vitað um í kringum tíu Íslendinga sem sækja sér nú áframhaldandi menntun í geðlækningum.
Bæði heimilislækningar og geðlækningar eru sérnám sem hægt er að klára alfarið á Íslandi. Þó eru einhverjir sem sækja sér menntunina erlendis, og í Fréttablaðinu kemur fram í máli Halldóru Jónsdóttur, yfirlæknis á bráðageðdeild Landspítalans, að verið sé að hafa samband við læknanema erlendis og útskrifaða geðlækna erlendis og freista þess að fá þá heim og til starfa á Landspítalanum eða á einkastofum.