Í vikunni var greint frá því að Karl Wernersson hefði fært lyfjafyrirtækið Lyf og Heilsu yfir rúmlega tvítugan son sinn daginn eftir að Karl var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsisdóm í Hæstarétti og tveir dómar féllu í einkamálum gegn honum. Engar upplýsingar hafa fengist um hvað var greitt fyrir Lyf og heilsu.
Karl, bróðir hans Steingrímur og Guðmundur Ólason, fyrrverandi forstjóri Milestone, skulda þrotabúi þess félags um tíu milljarða króna. Sú skuld er gjaldfallinn og í innheimtu. Ef Karl reynist ekki borgunarmaður þá verður hann að öllum líkindum lýstur gjaldþrota og skipaður skiptastjóri yfir honum. Viðmælendur Kjarnans innan lögfræðistéttarinnar segja einboðið að sá muni reyna að rifta sölunni á Lyfjum og heilsu ef í ljós komi að ekki hafi verið greitt sannvirði fyrir fyrirtækið. Reynist salan á Lyfjum og heilsu hafa verið gjafagjörningur gæti það einnig verið refsivert.
Samkvæmt efnahagsreikningi Lyfja og heilsu voru eignir fyrirtækisins 3,5 milljarðar króna í árslok 2015 og langtímaskuldir um 1,2 milljarðar króna.
En þetta er ekki fyrsti snúningurinn sem Karl hefur tekið með Lyf og heilsu á undanförnum árum. Þvert á móti.
Færðu Lyf og heilsu til félags í sinni eigu
Karl og bróðir hans Steingrímur voru aðaleigendur fjárfestingafélagsins Milestone á uppgangsárunum fyrir bankahrun. Félagið fór mikinn í fjárfestingum. Þegar mestur völlur var á Milestone voru eignir þess sagðar vera 392 milljarðar króna og eigið féð um 66 milljarðar króna. Þar munaði mest um stóran hlut í Glitni banka, allt hlutafé í Sjóvá, Moderna í Svíþjóð, bankinn Askar Capital og Lyf og heilsa.
Mikið loft reyndist hins vegar vera í Milestone og félagið var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2009. Lýstar kröfur í búið voru allt að 95 milljarðar króna en lítið sem ekkert var til upp í þær af eignum. Þess vegna réðst þrotabú Milestone í fjölmörg mál vegna ákvarðana sem teknar voru áður en Milestone var sett í þrot.
Eitt þeirra mála var vegna „sölu“ á Lyfjum og heilsu. Þann 31. mars 2008 keypti nefnilega Aurláki ehf., félag í eigu Karls og Steingríms, 99,9 prósenta eignarhlut í Lyf og Heilsu á um 3,4 milljarða króna. Seljandinn var L&H eignarhaldsfélag, sem aftur var í 100 prósent eigu Milestone.
Kaupandinn, Aurláki ehf., var stofnaður snemma árs 2008 og hét þá GÓ1 ehf. Þann 24 október 2008, nokkrum dögum eftir fall íslensku viðskiptabankanna, barst Fyrirtækjaskrá tilkynning um að á aðalfundi félagsins þann 31. mars 2008 hefði nafni félagsins verið breytt í Aurláka og þeir Karl og Steingrímur sest í stjórn þess. Í þeirri tilkynningu kemur auk þess fram að Aurláki hefði keypt allt hlutafé í Lyf og Heilsu ehf.
Greitt var fyrir með yfirtöku skulda upp á 2,5 milljarða króna og 970 milljóna króna seljendaláni sem átti að greiðast við fyrsta hentugleika. Guðmundur Ólason, fyrrverandi forstjóri Milestone, sagði við Morgunblaðið árið 2009 að lánið hafi verið gert upp fljótlega eftir að viðskiptin hefðu átt sér stað. Stuðst hafi verið við verðmat KPMG þegar kaupverðið á Lyf og Heilsu var ákveðið.
Dæmdir til að greiða Milestone um milljarð
Seljendalánið var hins vegar aldrei greitt með hefðbundnum hætti. Þvert á móti. „Greiðsla“ þess fór þannig fram að gerður var kaupsamningur milli Milestone og félags sem hét Leiftri Ltd., og var einnig í eigu bræðranna Kars og Steingríms og skráð á Tortóla. Samkvæmt honum keypti Leiftri viðskiptakröfu Milestone á hendur Aurláka. Kaupverðið var greitt með niðurfellingu á viðskiptakröfunni sem Leiftri átti á hendur Milestone. Vert er að minna á að öll félögin þrjú voru á einhverjum tímapunkti í eigu sömu aðila, Karls og Steingríms.
Skiptastjóri Milestone vildi ekki una þessu og rifti gjöf Milestone á 970 milljónum króna og krafðist greiðslu þeirra, enda hafi Lyf og heilsa verið færð út úr Milestone til félags bræðranna án þess að nokkur greiðsla hafi komið í staðinn. Fyrir dómi hélt Karl Wernersson því fram að „þeir gerningar sem um ræðir hafi verið fyllilega lögmætir og framkvæmdir í eðlilegum viðskiptalegum tilgangi. Allar ákvarðanir hans hafi því verið teknar á viðskiptalegum forsendum en ekki með annarlega hagsmuni í huga“.
Héraðsdómur Reykavíkur var ósammála og í september 2016 var Aurláka gert að greiða Milestone 970 milljónir króna auk dráttarvaxta.
Skulda Milestone tíu milljarða
Þegar hér var komið við sögu sátu þeir Karl og Steingrímur, og Guðmundur Ólason, reyndar í fangelsi. Þeir höfðu verið dæmdir fyrir að nota 4,8 milljarða króna af peningum Milestone til að borga systur sína, Ingunni, út úr Milestone á árunum 2006 og 2007. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að gerningurinn hefði verið umboðssvik. Karl hlaut þriggja og hálfs árs dóm, Guðmundur þriggja ára dóm og Steingrímur tvö og hálft ár. Þá hlutu Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór C. Guðmundsson, endurskoðendur hjá KPMG, bæði níu mánaða skilorðsbundinn dóm.
Á grundvelli þessa dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Karl, Steingrím og Guðmund til að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða króna auk dráttarvaxta með dómi sem féll 8. mars síðastliðinn. RÚV greindi frá því í síðustu viku að mennirnir þrír skuldi þrotabúinu um tíu milljarða króna alls að meðtöldum vöxtum, að sú skuld sé gjaldfallin og sé í innheimtuferli. Komi í ljós að mennirnir eigi ekki eignir til að greiða skuldina sé viðbúið að þeir verði úrskurðaðir gjaldþrota. Það gæti þó frestast ef þeir ákveða að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar. Frestur til þess rennur út snemma í næsta mánuði.
Rúmlega tvítugur sonur eignast lyfjakeðju
Aurláki, sem „keypti“ Lyf og heilsu í kringum hrunið, er nú í 100 prósent eigu Karls Wernerssonar. En Lyf og heilsa er ekki lengur í eigu Aurláka.
RÚV greindi frá því í liðinni viku að rúmlega tvítugur sonur Karls hefði eignast fyrirtækið og aðrar eignir móðurfélags þess. Þetta gerðist sama dag og Karl var dæmdur til fangelsisvistar í Hæstarétti í fyrra.
Daginn eftir að sá dómur féll var nýjum og leiðréttum ársreikningi fyrir móðurfélag Lyfja og heilsu skilað til ársreikningaskrár. Félagið heitir Faxar ehf., en það er í eigu annars félag sem heitir Faxi ehf. Faxi ehf. er svo í eigu félagsins Toska ehf. Það félag, þ.e. Toska, var eini sinni í eigu Karl Wernerssonar og komst í fréttir árið 2012 þegar það nýtti sér fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands til að flytja hundruð milljóna króna erlendis frá hingað til lands. Með þessu fékk Karl greiða leið inn í landið fyrir peninga sem komið hafði verið fyrir utan landsteinanna og um 20 prósent virðisaukningu fyrir að skipta evrum í krónur.
Karl hafði verið skráður eigandi Toska þegar ársreikningi fyrir árið 2014 var skilað inn í nóvember 2015. Í apríl 2016 var leiðréttum ársreikningi skilað inn, og þar kom fram að í árslok 2014 hefði sonur Karls, Jón Hilmar, verið 100 prósent eigandi.
Inni í félaginu eru yfir þrjátíu fasteignir, þar á meðal heimili Karls, og bílar. Ekki mun reyna á riftun á sölu Lyfja og heilsu frá Karli til sonar síns nema að Karl verði sjálfur lýstur gjaldþrota. Það mun gerast ef hann getur ekki greitt milljarðaskuldina við Milestone og þá mun það koma í hlut skiptastjóra sem skipaður verður yfir þrotabú Karls að ákveða hvort að sölunni á lyfjakeðjunni verði rift eða ekki.