Það er byr í seglum íslenska hagkerfisins á flesta mælikvarða. Vöxtur hagkerfisins í fyrra var 7,2 prósent, atvinnuleysi mælist nú um 3 prósent og kaupmáttur launa hefur aukist jafnt og þétt, samhliða launahækkunum og lágri verðbólgu. Hún er 1,9 prósent og hefur haldist undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í meira en þrjú ár.
Þrátt fyrir þessa stöðu hafa stjórnvöld augljóslega áhyggjur af einu: styrkingu krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum.
Áhyggjurnar hafa margsinnis komið fram opinberlega og sagði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, í pistli í vikunni að stjórnvöld hefðu gripið til margvíslegra aðgerða sem ynnu með einum eða öðrum hætti gegn styrkingu krónunnar. Síðan sagði hann: „Lægri vextir hér á landi eru keppikefli okkar margra, kannski nærri allra. Háir vextir stuðla að háu gengi krónunnar, gengi sem er svo hátt að ferðaþjónustan, sjávarútvegurinn og reyndar allar greinar sem keppa við útlönd eða selja þangað vöru eða þjónustu eru að kikna. Við viljum byggja upp tæknistörf, en íslensk tæknifyrirtæki vilja frekar kaupa þjónustu tæknimenntaðs fólks frá útlöndum vegna þess að það er miklu ódýrara. Nú eru það ekki bara vörur frá útlöndum sem eru ódýrari, nú er það líka vinnuaflið. Hagfræðingar eiga auðvelt með að sýna fram á það að á endanum nær gengið nýju jafnvægi. Þá verður jafnmikið af peningum sem flæðir inn og út úr hagkerfinu, því útlendar vörur verða orðnar svo ódýrar að við munum kaupa miklu miklu meira en núna. Peningastefnunefndinni, þeirri sem nú ákveður vextina, liggur ekkert á, því hún þykist vita að hagfræðilegt jafnvægi muni nást í gegnum gengið. Spurningin er bara: Hvað kostar það nýja jafnvægi og hver borgar brúsann?“
En hvað er það helst sem veldur áhyggjum við styrkingu krónunnar? Og hvað er það sem stjórnvöld eru að reyna að gera til að bæta stöðuna?
Nokkur atriði má telja til.
1. Útflutningsfyrirtæki - í vöru- og þjónustuútflutningi - fá minna fyrir sinn snúð eftir því sem krónan styrkist meira. Á skömmum tíma hefur krónan styrkst mikið og er mikið gjaldeyrisinnflæði vegna ferðaþjónustunnar ein ástæðan. Þannig kostar Bandaríkjadalur nú 105 krónur og evran 116, en fyrir um einu og hálfu ári kostaði Bandaríkjadalur 140 krónur og evran 150 krónur. Á sama tíma hafa laun hækkað og reksturinn því þyngst hjá mörgum. Áhyggjuraddir hafa heyrst úr sjávarútvegi, þekkingariðnaði ýmis konar og ekki síst ferðaþjónustu. Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var yfir 150 milljarðar í fyrra.
2. Stjórnvöld ætla sér að hækka skatta á ferðaþjónustu, og færa hana úr 11 prósent virðisaukaskatti í 24 prósent og tekur hækkunin gildi í júlí á næsta ári. Þessi aðgerð á að stuðla að meira jafnvægi í greininni, og jafnvelt tempra vöxt hennar, en hún er einnig hugsuð til að gæta samræmis milli atvinnugreina. Samtök ferðaþjónustunnar hafa mótmælt þessu harðlega, en stjórnvöld ætla sér ekki að gera breytingar, að því er fram hefur komið í máli ráðherra í ríkisstjórn.
3. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, var óvenju harðorður í pistli sínum á dögunum, í garð Seðlabanka Íslands, og kallaði eftir því að peningastefnunefnd bankans lækkaði vexti myndarlega í þessum mánuði. Meginvextir bankans eru nú 5 prósent, og telur Benedikt að vaxtalækkun geti unnið gegn styrkingunni, og þannig styrkt stöðu útflutningsgreinanna.
Flestar greiningar benda til þess að íslenska krónan muni styrkjast áfram á næstu misserum enda er háannatíminn í ferðaþjónustunni framundan á sumarmánuðum. Gert er ráð fyrir að fjöldi ferðamanna fari yfir 2,3 milljónir á þessu ári en hann var 1,8 milljónir í fyrra.