Eftir að rannsóknarnefnd Alþingis um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum hafði komist að niðurstöðu um hvað hefði gerst við kaupin sendi hún bréf á marga þeirra sem tóku þátt í þeirri fléttu og báru niðurstöðu sína undir þá. Niðurstaðan var á þann veg að þýski bankinn hefði verið leppur sem hafði fengið greidda þóknun fyrir að halda á hlut í Búnaðarbankanum í tvö ár, að kaupin hafi verið fjármögnuð af Kaupþingi sem hafi borið alla áhættu af þeim og að sá hagnaður sem myndaðist af kaupunum, sem hljóp á milljörðum króna, ætti að skiptast á milli tveggja aflandsfélaga.
Annað aflandsfélagið, Marine Choice Limited, fékk 3,8 milljarða króna króna á þávirði vegna fléttunnar. Það félag var í eigu Ólafs Ólafssonar. Hitt félagið, Dekhill Advisors Limited, fékk 2,9 milljarða króna. Ekki hefur verið hægt með óyggjandi hætti að sýna fram á hver sé eigandi þess.
Rannsóknarnefndin komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, út frá gögnum, að telja yrði annað verulega ólíklegt en að hagnaðinum af „Lundafléttunni“ sem ráðstafað var til aflandsfélagsins Dekhill Advisors „hafi endanlega runnið til aðila sem tengdust Kaupþingi hf. eða KBL [Kaupþing í Lúxemborg] eða að minnsta kosti að starfsmenn Kaupþings hf. og KBL hafi á einhverju stigi haft vitneskju um hverjir nutu þessa ávinnings sem rann til Dekhill Advisors Limited.“ Því taldi nefndin allar líkur standa til þess að „Kaupþing sjálft eða aðilar því tengdir hafi verið raunverulegir eigendur Dekhill Advisors eða notið þeirra fjármuna sem þangað runnu“.
Rannsóknarnefndin sendi bréfin til þeirra sem komu að fléttunni út 13. mars 2017. Í þeim flestum voru viðkomandi spurðir hvort þeir þekktu til aflandsfélagsins Dekhill Advisors, hverjir væru endanlegir eigendur þess eða haghafar að eignum þess. Flest svör bárust 20. og 21. mars. Og voru öll á sömu leið.
Hreiðar Már segist aldrei hafa heyrt um félagið
Ólafur Ólafsson sendi nefndinni bréf 20. maí. Þar sagðist hann ekki minnast þess að hafa heyrt minnst á félagið Dekhill Advisors. Ég get því engar upplýsingar veitt um það félag.“ Hann endurtók þetta þegar hann mætti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í síðustu viku. Þar sagðist Ólafur ekkert vita hver ætti Dekhill Advisors.
Guðmundur Hjaltason, starfsmaður Ólafs sem kom að hönnun „Lundafléttunnar“ svokölluðu, var spurður sömu spurningar í bréfi nefndarinnar til hans. Í svari hans, sem barst 20. mars, sagði: „Ég minnist þess ekki að hafa heyrt um félagið Dekhill Advisors Limited, Ég get því engar upplýsingar veitt um það félag“.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, var sömuleiðis spurður um hvort hann þekkti til Dekhill Advisors. Hreiðar Már var mun afdráttarlausari í svari sínu til nefndarinnar en Ólafur og Guðmundur. Hann sagðist telja „óhætt að fullyrða að ég hafi aldrei heyrt minnst á félagið Dekhill Advisors Limited fyrr en í bréfi nefndarinnar“. Hann sagðist enn fremur ekki hafa notið fjárhagslegs ávinnings af viðskiptunum sem sett voru upp í kriingum aðkomuHauck & Aufhäuser. Hreiðar Már vísaði í umrætt bréf í svari frá lögmanni hans við fyrirspurn Kjarnans um Dekhill Advisors. „Hann mun ekki tjá sig að öðru leyti,“ sagði enn fremur í svarinu.
Sigurður Einarsson, fyrrverandi starfandi stjórnarformaður Kaupþings, sagði í svarbréfi sínu að hann reki ekki „minni til þeirra aflandsfélaga sem nefnd eru í bréfi“ nefndarinnar. Sigurður fullyrti auk þess að hann hafi ekki notið ávinnings af „Lundafléttunni“.
Muna ekki, eða svara ekki
Steingrímur Kárason, fyrrverandi forstöðumaður áhættustýringar Kaupþings, var líka spurður um Dekhill Advisors, og aðra þætti málsins. Hann sagðist ekki muna nægilega vel eftir neinu sem spurt var um og treysti sér því ekki til að svara spurningum nefndarinnar. Undantekningin var spurning um hvort hann hefði hagnast á fléttunni. Steingrímur sagðist geta með fullri vissu sagt að hann hefði ekki gert það.
Lögmaðurinn Bjarki Diego, sem starfaði hjá Kaupþingi og kom beint að blekkingunum í kringum meint kaup þýska bankans á hlut í Búnaðarbankanum, sagðist ekki þekkja „ aflandsfélag með heitinu Dekhill Advisors Limlted og minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt það nefnt“.
Magnús Guðmundsson, sem stýrði Kaupþingi í Lúxemborg, sagðist ekki muna eftir nafninu Dekhill Advisors eða aðkomu þess að viðskiptunum. Kristín Pétursdóttir, fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar hjá Kaupþingi, sagðist ekki kannastr við þá samninga og þær ákvarðanir sem nefndar voru í bréfi rannsóknarnefndarinnar. Hún útilokaði ekki að „ einhver aðkoma hafi verið að einstökum samningum og ráðstöfunum vegna þeirra á þeim tíma sem undirrituð starfaði hjá Kaupþingi en vegna þess langa tíma sem liðinn er er erfitt að segja til um það með afgerandi hætti, sérstaklega þegar umrædd skjöl liggja ekki fyrir. Varðandi spurnlngar sem beint er til mín þá get ég með vísan til ofangreinds ekki svarað spurningunum.“
Bakkavararbræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir voru líka spurðir hvort þeir könnuðust við Dekhill Advisors og gætu veitt upplýsingar um félagið. Hvorugur sagðist muna eftir því sem spurt var um í bréfi nefndarinnar.
Virkt félag
Samandregið þá man enginn eftir Dekhill Advisors og hvað þá hver eigandi eða haghafar þess félags sem fékk 2,9 milljarða króna millifærða inn á sig snemma árs 2006 séu. Samt komu margir þeirra sem hér að ofan eru nefndir að því að hanna fléttuna sem skilaði þeirri fjárhæð til Dekhill Advisors.
En einhver veit hver hefur notið þeirra fjármuna sem runnu inn í Dekhill Advisors. Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að félagið er enn virkt. Í desember 2009 gerði Dekhill Advisors handveðssamning við svissneska bankann Julius Bäer vegna fjármálagjörnings sem það var að taka þátt í. Kjarninn og RÚV hafa undir höndum gögn sem sýna þetta. Þau gögn innihalda einnig skjal sem staðfestir að Dekhill Advisors var enn til og í virkni í lok september 2016, fyrir rúmu hálfu ári síðan.
Það er því skýrt að einhverjir hafa haft aðgang að og notað fjármunina sem greiddir voru inn í Dekhill Advisors í janúar 2006, á árunum eftir hrun. Og félagið var enn í starfsemi í fyrrahaust. Hverjir það eru sem nota fjármuni Dekhill Advisors er þó enn sem komið er ráðgáta. En fyrir liggur að svissneski bankinn Julius Bäer veit að minnsta kosti svarið við henni.