Skattrannsóknarstjóri óskaði eftir upplýsingum um og gögnum frá Seðlabanka Íslands um þá aðila sem nýttu sér hina svokölluðu fjárfestingarleið hans í apríl í fyrra. Það gerðist í kjölfar þess að Panamaskjölin sýndu 800 aflandsfélög sem tengdust að minnsta kosti 600 Íslendingum og umfjöllun þeirra fjölmiðla sem fjölluðu um þau sýndi að mörg þeirra félaga voru full af fé sem rökstuddur grunur væri um að hefði orðið til á Íslandi. Mörg aflandsfélaganna hafa verið að fjárfesta það fé á Íslandi eftir hrun.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir að enn sé ekki búið að vinna úr gögnunum. Önnur vinna hafi einfaldlega verið í forgangi hjá embættinu, meðal annars vinna úr Panamagögnunum sem íslensk stjórnvöld keyptu árið 2015. Alls koma 349 Íslendingar og 61 aflandsfélög með íslenska kennitölu fyrir í þeim gögnum, sem keypt voru fyrir 37 milljónir króna. Skattrannsóknarstjóri hefur tekið 34 mál til rannsóknar á grundvelli gagnanna og nú þegar krafið fjóra einstaklinga um 82 milljónir króna vegna meinta skattsvika þeirra, sem er næstum þreföld sú upphæð sem greitt var fyrir gögnin. Rannsókn er einungis lokið í þremur málum og tveimur af þeim hefur verið vísað til héraðssaksóknara vegna gruns um refsiverða háttsemi. Þá er rannsókn í sjö málum á lokastigi.
Bryndís segir að öll önnur mál úr skjölunum, utan þeirra 34 sem skattrannsóknarstjóri tók til rannsóknar, hafi verið send til Ríkisskattstjóra til frekari meðferðar. Það embætti muni senda út fyrirspurnarbréf á þá sem koma fram í gögnunum og tilefni þykir til að fá frekari upplýsingar hjá.
48,7 milljarða króna virðisaukning
Panamaskjölin sýndu að fjölmargir Íslendingar eiga digra sjóði í aflandsfélögum. Um er að ræða fjármuni sem að minnsta kosti að hluta urðu til á Íslandi og ættu því að skattleggjast hérlendis, en sem komið var í var í aflandsfélögum áður en fjármagnshöft tóku gildi hér síðla árs 2008. Þar hafa þeir fjármunir legið án þess að skattyfirvöld, eða eftir atvikum kröfuhafar þeirra einstaklinga sem eiga aflandsfélögin, hafa getað aflað sér upplýsinga um tilvist þeirra.
Ljóst er að aflandsfé Íslendinga hefur streymt aftur til Íslands eftir hrun í fjárfestingar. Auðveldasta leiðin til að gera það var í gegnum fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Hún var leið sem sett var upp til að minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta. Seðlabankinn vonaðist til að losna við skammtímafjárfesta og fá í staðinn langtímafjárfesta í krónueignum. Hann bauð því eigendum gjaldeyris að koma með hann til Íslands og skipta í krónur og fá um 20 prósent virðisaukningu með í kaupunum. Það þýddi að sá sem hefði fengið einn milljarð króna ef hann hefði skipt evrunum sínum í krónur á sama gengi og venjulegum Íslendingum bauðst hefði fengið 200 milljónir króna til viðbótar ofan á milljarðinn sinn. Á móti skipti krónueigandi, sem oft hafði keypt sína krónueign með afföllum á eftirmarkaði, á henni fyrir erlendan gjaldeyri með afslætti. Þannig gátu báðir aðilar grætt, fyrir milligöngu Seðlabankans.
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar um 206 milljörðum króna. Ef þeir sem komu með þennan gjaldeyri til Íslands hefðu skipt þeim á opinberu gengi Seðlabankans, líkt og venjulegt fólk þarf að gera, hefðu þeir fengið um 157 milljarða króna fyrir hann. Virðisaukningin sem fjárfestingaleiðin færði eigendur gjaldeyrisins í íslenskum krónum var því 48,7 milljarðar króna. Skilyrt var að binda þyrfti féð sem fært var inn í landið með þessu hætti í fasteignum, verðbréfum, fyrirtækjum eða öðrum fjárfestingakostum. Því má, líkt og áður sagði, segja að þeir sem hafi nýtt sér fjárfestingarleiðina hafi fengið um 20 prósent afslátt af þeim eignum sem þeir keyptu.
Gagnrýnt í aflandseignaskýrslu
Skýrslu um aflandseignir og skattaundanskot Íslendinga, sem birt var snemma á þessu ári, er fjallað um fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands og því meðal annars velt upp, hvort hún hafi orðið til þess að hluti af fjármagninu frá aflandseyjunum hafi skilað sér Íslands, með gengisafslætti, í gegnum fjárfestingaleiðina.
Orðrétt segir: „Miðlun upplýsinga um fjármagnsflæði inn og út úr landinu, t.d. aflandskrónur sem fluttar hafa verið til landsins og eins þátttaka í fjárfestingarleið Seðlabankans er ekki til staðar. Sér í lagi hefur skattyfirvöldum ekki verið gert viðvart af hálfu Seðlabankans þegar um grunsamlegar fjármagnstilfærslur er að ræða. Æskilegt má telja að samstarf væri um miðlun upplýsinga á milli þessara stofnana.“ Samkvæmt þessu gat því fé sem orðið hafði til vegna skattaundanskota komist aftur „heim“ til Íslands í gegnum fjárfestingaleiðina og eigendur þess notað hið illa fengna fé til að kaupa eignir hérlendis með afslætti.
Tíu þingmenn Pírata lögðu fram þingsályktunartillögu í mars um að gerð verði rannsókn á fjárfestingarleiðinni. Bæði Seðlabankinn og skattrannsóknarstjóri skiluðu í síðustu viku umsögn um tillöguna. Í umsögn Seðlabankans segir að framkvæmd leiðarinnar hafi verið „skipuleg og gagnsæ og upplýsingar hafa verið veittar um hana“. Það hafi síðast verið gert í ítarlegu svari við fyrirspurn á Alþingi sem lagt verði fram á næstu dögum. Um er að ræða svar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata. Kjarninn hefur fengið staðfest að svar ráðuneytisins verði lagt fram á næstu dögum.
Seðlabankinn segir einnig að í samræmi við beiðnir hafi hann veitt bæði ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra „upplýsingar um þátttakendur í fjárfestingarleið Seðlabanka íslands.“
Í umsögn skattrannsóknarstjóra er þetta staðfest. Þar segir að embættinu þyki „rétt að upplýsa nefndina um að embættið hefur óskað eftir og fengið gögn og upplýsingar frá Seðlabanka íslands um þá aðila sem nýttu sér nefnda fjárfestingaleið. Kann greining og frekari úrvinnsla þeirra gagna eftir atvikum að leiða til frekari aðgerða af hálfu embættis skattrannsóknarstjóra, vakni grunur um skattundanskot í tengslum við nefnda leið“. Bryndís segir í samtali við Kjarnann að óskað hafi verið eftir upplýsingum um þá sem nýttu sér fjárfestingarleiðina í kjölfar þess að fjölmiðlar fjölluðu um Panamaskjölin í byrjun apríl 2016. En hafi ekki verið unnið úr þeim gögnum sem afhent voru um þátttakendur í fjárfestingarleiðinni þar sem önnur mál hafi notið forgangs hjá embættinu. Þar er sérstaklega átt við vinnslu mála tengdum þeim gögnum sem keypt voru árið 2015.