Endurkjör Rouhani og opnun Íran

Hassan Rouhani vann stórsigur í forsetakosningunum í Íran um síðustu helgi. Rouhani, sem er umbótasinni, hefur heitið því að halda áfram opnun Íran eftir tímamótasamninga við Bandaríkin um afnám verslunarþvingana gegn stöðvun á kjarnorkuáætlun landsins.

Hassan Rouhani, nýkjörinn forseti Íran.
Hassan Rouhani, nýkjörinn forseti Íran.
Auglýsing

Strangar reglur gilda fyrir kosningar í landinu og þurfa allir frambjóðendur að fá samþykki verndararáðsins (e. Guardian Council) svokallaðs, sem samanstendur af tólf guðfræðingum, til að geta boðið sig fram. Af sextán hundruð manns sem skráðu sig í framboð að þessu sinni voru einungis sex samþykktir af ráðinu. Rouhani bar sigur af hólmi í forsetakosningunum eftir að hafa hlotið 57% atkvæða, afgerandi fleiri en þau 38% sem meginandstæðingur hans, Ebrahim Raisi, hlaut. Kjörsókn var heil 73% og því ljóst að Rouhani mun halda áfram að gegna næstvaldamesta embætti Írans næstu fjögur árin en það er mikil togstreita sem bíður hans bæði innanlands sem utan.


Æðsti klerkur klerkastjórnarinnar í Íran, Ayatollah Ali Khamenei, er talinn hafa stutt harðlínuframbjóðandann Raisi í kosningunum en fyrirhugaðar umbætur Rouhani munu þurfa stuðning Khamenei til að ganga í gegn. Hins vegar er ekki ólíklegt að afdrifaríkar breytingar muni eiga sér stað í æðstu valdastétt landsins á næsta kjörtímabili. Khamenei er sjötíu og sjö ára gamall og gekk undir uppskurð fyrir krabbamein í blöðruhálskirtli árið 2014. Ef Khamenei hverfur frá mun tímabundið ráð gegna embætti hans en Rouhani er einn þriggja embættismanna sem situr í ráðinu. Þá mun eftirmaður Khamenei verða kosinn af svokölluðu Sérfræðingaráði (e. Assembly of Experts) en bæði Rouhani og Raisi eru meðlimir þar og taldir eiga góða möguleika á embættinu. Nýyfirstöðnu forsetakosningarnar gáfu því Rouhani ekki einungis fjögur ný ár heldur voru þær einnig mikilvæg ummerki um framtíð írönsku byltingarinnar.

Auglýsing


Á síðustu forsetatíð Rouhani veitti kjarnorkusamningur hans við þáverandi forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, Írönum marga milljarða Bandaríkjadali sem áður höfðu verið „frystir“ sem hluti af viðskiptaþvingunum gegn landinu, og hefur Rouhani náð að lækka 40% verðbólgu niður í 8%. Samkvæmt opinberum tölum jókst atvinnuleysi hins vegar úr 10% í 12,7% á forsetatíð hans og mun atvinnusköpun vera forgangsatriði næstu fjögur árin. 


Lykillinn að auknum hagvexti og atvinnusköpun fyrir Íran til skamms tíma veltur mikið á því hvernig landið nær að endurreisa olíuiðnað landsins. Olíuframleiðsla í Íran hefur aukist í kjölfar afnáms viðskiptaþvingana og er nú um 3,8 milljónir tunna á dag, jafn mikil og hún var áður en viðskiptaþvingununum var komið á. Áframhaldandi framleiðsluaukning mun hins vegar krefjast nýrrar fjárfestingar erlendis frá en það verður lykilatriði í efnahagsstefnu Rouhani á þessari forsetatíð. Erlendir fjárfestar anda léttar í kjölfar endurkjörs Rouhani gegn harðlínuframbjóðendum en skilvirkni stefnu Rouhani sem miðar að því að styrkja tengsl við umheiminn og laða að fjárfestingar mun velta mikið á því hvort Bandaríkin munu afnema eftirstandandi viðskiptaþvinganir sem koma í veg fyrir fjárfestingar frá bandaríska bankakerfinu.


Bylur hæst í tómri tunnu?


Daginn eftir að stuðningsmenn Rouhani fögnuðu sigri hans í kosningunum á götum úti flutti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ræðu í opinberri heimsókn sinni til Sádi-Arabíu þar sem hann kallaði eftir aukinni einangrun Íran í alþjóðasamskiptum. Bandarískir og sádi-arabískir ráðamenn kepptust um að fordæma stuðning ríkisstjórnar Íran við hryðjuverkasamtök og þróun eldflaugavopna og kölluðu eftir því að Íran dragi úr ítökum sínum á átakasvæðum í Sýrlandi, Írak og Jemen. Andúð Donald Trump á Íran sýndi sig að miklu leyti í vali hans á Sádí-Arabíu sem áfangastað fyrstu opinberu heimsóknar sínar erlendis en Íran er líklega skýrasta dæmið um utanríkismál þar sem Trump er ósammála forvera sínum, Barack ObamaTrump fyrirlítur kjarnorkusamninginn og sagði í ræðu í Ísrael, öðrum áfangastað utanríkisferðar sinnar, að Íran hafi sýnt óþakklæti eftir að hafa náð frábærum kjörum í samningnum við Obama með því að halda stuðningi sínum við hryðjuverkasamtök áfram.


Vanþóknun Trump á Íran hefur þó hingað til fyrst og fremst sýnt sig í orðum frekar en gjörðum og verður að hluta til að skoða í samhengi þess að þóknast gestgjöfum sínum. Trump viðhélt stefnu Obama með því að undirrita vopnasölusamning að andvirði 110 milljarða Bandaríkjadala við Sádí-Arabíu og virðist vera að Trump reyni að nota sterk tengsl sín við stjórnvöld Ísraels og Sádí-Arabíu með andúð gagnvart írönskum stjórnvöldum sem samnefnara sem ákveðnar stoðir í Miðausturlandastefnu sinni og verkfæri til að hraða hugsanlegum friðarsamningaviðræðum Ísraela og Palestínumanna. 


Ljóst er hins vegar að Íran er ekki eins jaðarsett alþjóðlega í dag og það var í stjórnartíð Mahmoud Ahmadinejad 2005-2013. Önnur vestræn ríki á borð við Þýskaland undir stjórn Angela Merkel, Frakkland undir stjórn Emmanuel Macron, og Japan undir stjórn Shinzo Abe líta ekki ógnina frá Íran jafn alvarlegum augum og Trump og munu að öllum líkindum vilja halda áfram styrkingu viðskiptatengsla við Íran á næstu árum. Skorturinn á samstöðu vestrænna ríkja í viðskiptastefnu gagnvart Íran mun takmarka svigrúm Trump til að brjóta eða breyta kjarnorkusamningnum.


Margt bendir því til að næstu fjögur ár verði fjörug fyrir Rouhani í embætti forseta en hann hefur fleiri spil á hendi en var tilfellið fyrir fjórum árum til að hraða opnun landsins til frambúðar og mæta auknum væntingum íranskra kjósenda. Erfið tengsl við Trump gætu gert honum erfitt fyrir, sérstaklega þegar kemur að því að skapa fyrirsjáanlegt viðskiptaumhverfi til að laða að fjárfestingar, en þróun síðustu ára sýna skýrt að Íran er ekki lengur hluti af „öxli hins illa“ í augum Vesturlanda; viðhorf Trump er að mörgu leyti undantekningin frekar en reglan.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Minnkandi fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gæti skilað þeim báðum utan stjórnar
Vinstri græn eru nú í þeirri stöðu að þrír miðjuflokkar eru með meira fylgi en þau og Viðreisn mælist með nákvæmlega það sama. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með sitt lægsta fylgi í kosningaspánni.
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar