Þegar við ímyndum okkur eiturlyfjabarón fáum við mynd í hugann af miðaldra karli, örlítið búttuðum, smjörgreiddum, sólbekkjabrúnum, í litríkri skyrtu með efstu tölunum hneppt frá. Sitjandi við sundlaugarbakka, umkringdan fáklæddu kvenfólki og skuggalegum mönnum með hríðskotariffla. Ross Ulbricht passar illa við þessa staðalímynd. Hann er ungur og viðkunnanlegur tölvunörd, bókaormur og skáti sem þó stjórnaði einum stærsta eiturlyfjamarkaði heimsins á frírri wi-fi tengingu almenningsbókasafns. Mál hans vekur upp margar spurningar um netfrelsi, friðhelgi einkalífsins, ofbeldi og stríðið gegn eiturlyfjum.
Frjálshyggja í verki
Ross Ulbricht er 33 ára gamall, fæddur og alinn upp í Austin borg í Texas. Sonur hjónanna Kirk og Lyn sem stunda fasteignaviðskipti í Mið-Ameríkuríkinu Kosta Ríka. Hann stefndi á feril í vísindum og sótti háskólagráður í bæði eðlisfræði og verkfræði. En þegar hann útskrifaðist árið 2009 hafði hann misst áhugann og var farinn að hugsa meira um stjórnmál og viðskipti. Hann aðhylltist nýfrjálshyggju og stjórnleysishugmyndir og leit upp til Ron Paul, guðföðurs Teboðshreyfingarinnar innan Repúblíkanaflokksins. Ulbricht hugðist þó ekki taka beinan þátt í stjórnmálum heldur vildi hann finna hugsjónum sínum farveg í frumkvöðlastarfsemi. Þetta kom mörgum á óvart því á háskólaárunum var hann nokkuð hlédrægur og óframfærinn. Ulbricht var opinn fyrir flestu en horfði fyrst og fremst til markaðsstarfsemi á netinu. Það fyrsta sem hann kýldi á var markaður fyrir notaðar bækur, Good Wagon Books.
Sú starfsemi var að miklu leyti drifin áfram af hugsjón og hluti ágóðans rann til góðgerðarmála. En sá hluti var ekki stór því að bóksalan gekk mjög illa og Ulbricht missti brátt áhugann. Um mitt ár 2010 tilkynnti hann á samfélagsmiðlum að nýtt og háfleygt verkefni væri í bígerð. Opinn markað án afskipta ríkisvaldsins og því ofbeldi sem fylgir skattlagningu og regluverki. Fæstir vissu hvað Ulbricht átti í raun og veru við, þ.e. hvernig slíkur markaður ætti að geta starfað. Ólíklegt er að margir hafi pælt mikið í þessum orðum hins nýútskrifaða bóksala frá Texas. Sérstaklega ekki í ljósi þess að þegar verkefnið leit loks dagsins ljós var hann hvergi skráður fyrir því.
Eiturlyfja-Ebay
Í febrúar árið 2011 opnaði vefmarkaðurinn Silk Road, nefndur eftir fornri verslunarleið milli Evrópu, Afríku og Asíu. Á markaðinum var notað svokallað Tor-kerfi (handahófskennt dulkóðunarkerfi) sem gerir það erfiðara að finna notendur, bæði kaupendur og seljendur. Síðan var því hluti af hinu alræmda myrkraneti (dark web) sem birtist ekki í hefðbundnum leitarvélum á borð við Google eða Yahoo heldur þarf sérstakan hugbúnað til að nálgast það. Að auki var bitcoin notaður sem gjaldmiðill á Silk Road, sem gerir það ennþá erfiðara fyrir yfirvöld að fylgjast með notendum og greiðslum þeirra á milli.
Silk Road var ekki að fara í samkeppni við Ebay eða Amazon því að vörurnar sem þar voru á boðstólnum voru flestar ólöglegar víðast hvar í heiminum. Þar mátti finna stera, fæðubótarefni, sjúkrahúsvarning, sterka orkudrykki og fleira en langmest umferðin var með fíkniefni. Í upphafi var lítil umferð á Silk Road en hálfu ári eftir opnunina birtist grein um vefinn á hinni geysivinsælu bloggsíðu Gawker og við það margfaldaðist umferðin. Hægt var að kaupa flest þau fíkniefni sem fyrirfinnast í veröldinni, bæði í miklu magni og í smáskömmtum, og sendingin var samkomulagsatriði milli kaupanda og seljanda. Má þar nefna morfínskyld-efni, amfetamín-skyld efni, ofskynjunarlyf, deyfandi lyf, kókaín og kannabis-efni (sem voru þau vinsælustu). Vefurinn óx hratt og brátt voru notendurnir um ein milljón talsins. Hluti söluandvirðisins rann til stjórnenda síðunnar sem gerði vefinn gríðarlega ábatasamann.
Heiður meðal dópsala
Í upphafi virtist enginn stýra vefnum en svo allt í einu birtist notandi með stjórnunarvald sem bar heitið Dread Pirate Roberts, eftir aðalsöguhetju skáldsögunnar (og kvikmyndarinnar) The Princess Bride. Fleiri stjórnendur voru að vefnum en Roberts var augljóslega sá sem hafði mest völd. Ólíkt notendum vefmarkaða á borð við Ebay og Amazon þá mynduðu notendur Silk Road nokkurs konar samfélag. Spjallþræðir voru virkir og notendurnir mynduðu raunveruleg tengsl. Þó að margir hafi notað vefinn einvörðungu til að kaupa eða selja fíkniefni þá voru aðrir virkir í hugmyndafræðilegum umræðum um frjálshyggju, stjórnleysi og hið opna og frjálsa internet. Það var meira að segja starfræktur bókaklúbbur á síðunni þar sem þessu hugmyndum var hampað. Í viðtali við vefritið Wired segir Roberts:
„Eitt sem ég hef lært af því að leika Dread Pirate Roberts er að aðgerðir manns gera sumum til geðs en gera aðra ákaflega reiða. En við getum ekki þagað að eilífu. Við höfum mikilvæg skilaboð og nú er rétti tíminn fyrir heiminn að heyra þau. Þetta snýst ekki um að redda okkur skammti eða að sýna yfirvöldum hvar Davíð keypti ölið. Þetta snýst um rétt okkar sem manneskjur og að neita að lúta þegar við höfum ekkert gert af okkur. Silk Road er farvegur fyrir þau skilaboð. Allt annað skiptir minna máli.“
Fíkniefnamarkaður kann að virðast undarlegur staður til að veita hugsjónum sínum brautargengi því að erfitt er að sjá samfélagslega ávinninginn af slíkri starfsemi. Grunnhugmynd frjálshyggjumanna og stjórnleysingja er hins vegar sú að einstaklingurinn beri ávallt ábyrgð á sjálfum sér og valdboð sé aldrei gott. Með því að taka viðskiptin af götunni og inn á nafnlaust myrkranetið sé hættan á ofbeldi, hvort sem er frá lögreglu eða seljendum, tekin úr umferð. Að stríðið gegn eiturlyfjum, sem staðið hefur yfir í hartnær hálfa öld, þjóni eingöngu ríkisvaldinu og stórfyrirtækjum á meðan almenningur líður fyrir það. Stjórnendur Silk Road héldu því ekki fram að fíkniefni væru holl eða mannbætandi en á síðunni voru leiðbeiningar um notkun þeirra til að minnka skaðann og auka öryggi. Síðan var heldur ekki að öllu leyti frjáls því að ýmis varningur var bannaður af stjórnendum. Má þar nefna barnaklám, falsaða peningaseðla, þýfi, leigumorð og vopn (sem voru þó seld á tengdri síðu).
Gripinn á bókasafni
Lögregluyfirvöld vissu strax af síðunni við opnun hennar en létu hana að mestu í friði til að byrja með. Handtökur í tenglsum við eiturlyfjasmygl víða um heim fóru þó í auknum mæli að vísa á síðuna og lögreglan fór að sýna henni meiri áhuga. Það var hins vegar öldungardeildarþingmaðurinn Chuck Schumer sem beindi kastljósi almennings að síðunni og krafðist aðgerða gegn stjórnendum hennar. Við það færðist mikill þungi í rannsóknina og margir lögreglumenn skráðu sig á vefinn til þess eins að reyna að fá upplýsingar um stjórnendurnar. Vatnaskil urðu þegar þeir náðu að handsama einn af þeim í janúar árið 2013.
Maðurinn sem gekk undir dulnefninu Chronicpain var í raun Curtis Clark Green, miðaldra fjölskyldumaður frá Utah. Eftir handtökuna bauðst Dread Pirate Roberts til þess að borga fyrir morð á Green og lögreglan sviðsetti það til að narra hann. Green hjálpaði til við rannsóknina og um sumarið vissi lögreglan að Ross Ulbricht væri hinn alræmdi Dread Pirate Roberts. Ulbricht hafði búið í San Francisco síðan Silk Road hóf göngu sína og enga af vinum hans grunaði að hann stýrði víðfemum fíkniefnamarkaði. Hann bjó í lítilli leiguíbúð ásamt nokkrum herbergisfélögum. Hann kallaði sig Joshua Terrey og sagðist vinna við gjaldeyrisviðskipti. Í októbermánuði árið 2013 var hann gripinn á almenningsbókasafni með fartölvuna sína þar sem hann var að vinna á síðunni.
Á sama tíma var Silk Road lokað af alríkislögreglunni, FBI. Lögreglan lagði hald á bitcoin mynt af tölvubúnaði Ulbricht, bæði frá honum sjálfum og öðrum notendum, samanlagt yfir 3 milljarða íslenskra króna. En talið er að hann lúri á enn stærri fjárhæðum, jafnvel allt að 5% af heildarmyntinni í heiminum. Það sem lögreglan náði var selt á uppboðum haustið 2015.
Vefþjónar á Íslandi
Í janúar árið 2015 hófust réttarhöldin yfir Ross Ulbricht á Manhattan í New York borg. Ákærurnar gegn honum voru sjö talsins, þar á meðal samsæri um fíkniefnasölu, peningaþvætti og stjórn umsvifamiklilla glæpasamtaka. Ein ákæran var tekin út áður en réttarhöldin hófust, þ.e. samsæri um morð á sex einstaklingum. Ekkert þessara morða átti sér stað og ákæruvaldið treysti sér ekki til að sanna það að hann hefði fyrirskipað tilræðin. Engu að síður var oft minnst á þetta í réttarhöldunum sjálfum. Ulbricht viðurkenndi strax að hafa stofnað vefinn en sagðist hafa eftirlátið öðrum aðilum stjórnina snemma.
Hann sagði að margir aðilar hefðu gengið undir nafninu Dread Pirate Roberts, líkt og í skáldsögunni. Þetta þótti ekki trúverðugt í ljósi þess að Ulbricht var á vefnum á þeirri stundu þegar hann var handtekinn.
Ulbricht sagði hins vegar að öllum gögnum sem bendla hann við vefinn á þeim tíma, svo sem ummælum á spjallþráðum, hafi verið plantað þar af öðrum. Vörn Ulbricht var þó aðallega byggð á 4. grein bandarísku stjórnarskrárinnar sem segir að ekki megi leita á fólki, heimilum þeirra eða öðrum munum án heimildar. Ljóst var að yfirvöld höfðu komist yfir vefþjóna Silk Road sem staðsettir voru á Íslandi og í Þýskalandi. Einnig hafði verið brotist inn á reikninga hans á samfélagsmiðlum, tölvupóst og fleira. Af hverju ættu að gilda aðrar reglur um hinn rafræna heim en hinn veraldlega? Verjendur vildu sýna Ulbricht sem hugsjónamann og píslarvætti líkt og Edward Snowden eða Julian Assange. Ulbricht naut einhvers stuðnings og sumir mættu fyrir utan réttarsalinn til að mótmæla.
Það reyndist þó erfitt að fá fólk til að hafa samkennd með manni sem hafði grætt tugmilljónir dollara á fíkniefnaviðskiptum. Meira að segja flestir félagar hans af Silk Road létu sig hverfa. Helsta von Ulbricht kom í miðjum réttarhöldunum þegar tveir fyrrum alríkislögreglumenn voru handteknir í Kaliforníu.
Þeir höfðu unnið að rannsókninni á Silk Road og voru sakaðir um að eiga við sönnunargögn, fjárkúgun og peningaþvætti. Kviðdómur leit hins vegar fram hjá öllu þessu og dæmdi Ulbricht sekan í öllum 7 ákæruliðunum. Þann 29. maí árið 2015 var hann dæmdur til lífstíðarfangelsis án möguleika á reynslulausn. Ennfremur var honum gert skylt að afhenda 183 milljónir dollara (um 17,5 milljarða króna) sem talið var að hann hafi grætt á starfseminni. Dómurinn var staðfestur af áfrýjunardómstól þann 31. maí síðastliðinn með sömu refsingu jafnvel þó að þá hafi alríkislögreglumennirnir tveir verið sakfelldir fyrir sína glæpi tengda Silk Road.
Gorkúlur
Hinn harði dómur Ross Ulbricht er augljóslega skilaboð til annarra sem gætu hugsað sér að opna sambærilegan markað á myrkravefnum og mjög í takti við þá stefnu stjórnvalda að taka hart á eiturlyfjasölum. Enginn greinarmunur er gerður á þessari starfsemi og hefðbundnum eiturlyfjahringjum sem hafa vopnaðar hersveitir á sínum snærum. En dómurinn virðist ekki hafa fælandi áhrif frekar en aðrir harðir dómar í fíkniefnaheiminum.
Silk Road markaðinum var komið aftur á laggirnar í tvígang eftir að honum var upprunalega lokað. Fjöldi annarra markaða þar sem kaupa má eiturlyf og annan ólöglegan varning hafa sprottið upp á myrkravefnum síðan þá. Má þar nefna Hansa Market, AlphaBay, Valhalla, RAMP, Deepbay, Outlaw Market og marga tugi í viðbót. Líkt og þegar Pablo Escobar var felldur árið 1993 fylltu aðrir í skarðið á svipstundu. Ross Ulbricht mun að öllum líkindum sitja í fangelsi út lífið í New York og sennilega munu fáir gráta það nema nokkrir sérstakir áhugamenn um netfrelsi. Dómur hans mun hins vegar ekki hafa nein áhrif á framboð og eftirspurn fíkniefna.