Minnihluti efnahags- og viðskiptanefndar telur að Fjármálaeftirlitið þurfi að skýra betur rökstuðning sinn fyrir því að enginn nýrra hluthafa Arion banka, sem eru að mestu bandarískir vogunarsjóðir, fari með virkan eignarhlut í bankanum. Það mat eftirlitsins kom fram í svarbréfi þess til fjármála- og efnahagsráðherra sem sent var 31. mars síðastliðinn.
„Enn fremur telur minni hlutinn að spurningum í tengslum við tímalínu söluferlisins sé enn ósvarað, varðandi það að tilboð um kaupin hafi verið samþykkt 13. febrúar sl. en ekki upplýst um þau fyrr en 19. mars sl.“. Þetta kemur fram í bókun sem minnihlutinn gerði á fundi nefndarinnar 13. júní síðastliðinn.
Fjórir kaupa hluti í Arion banka af sjálfum sér
Í mars var tilkynnt að fjórir aðilar, vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Och-Ziff Capital Management, Attestor Capital og fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefðu keypt samtals 29,18 prósent hlut í Arion banka af Kaupþingi á 48,8 milljarða króna. Verðið sem greitt var fyrir er um 0,8 krónur á hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka.
Þegar samið var um stöðuleikaframlög setti íslenska ríkið inn ákvæði þess efnis að það gæti gengið inn í viðskipti með hluti í Arion banka ef gengið yrði lægra en 0,8 af bókfærðu eigin fé bankans. Í því samkomulagi var líka samið um að Kaupþing þurfi að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árslok 2018. Ef það myndi ekki takast myndi ríkissjóður leysa bankann til sín.
Í viðskiptunum felst því að eigendur ⅔ hluta Kaupþings voru að kaupa stóran hluta í Arion banka á eins lágu verði og mögulegt var fyrir þá án þess að virkja ákvæði sem gerði íslenska ríkinu kleift að ganga inn í kaupin.
Til viðbótar á þessi hópur kauprétt á 21,9 prósent hlut í Arion banka til viðbótar. Nýti þeir hann, en líklegt er að þeir geri það síðar á þessu ári, verða vogunarsjóðirnir þrír og Goldman Sachs beinir eigendur að meirihluta í Arion banka.
Til að teljast virkur eigandi í fjármálafyrirtæki þarf að eiga yfir tíu prósent hlut. Tveir kaupendanna, Taconic og Attestor, halda sem stendur á 9,99 prósent hlut. Þeir hafa þó báðir óskað eftir því við Fjármálaeftirlitið að farið sé með þá sem virka aðila.
Þessir fjórir aðilar keyptu hlutinn í Arion banka af Kaupþingi ehf. eiga líka samtals 66,31 prósent hlut í Kaupþingi. Langstærsti einstaki eigandi Kaupþings eru sjóðir í stýringu Taconic Capital með 38,64 prósent eignarhlut. Næst stærsti eigandinn er lúxemborgískt félag tengd Och-Ziff Capital Management Group með 14,21 prósent eignarhlut. Þriðji stærsti hópurinn eru sjóðir í stýringu hjá Attestor Capital, sem eiga 8,63 prósent hlut. Fjárfestingabankinn Goldman Sachs og sjóður í stýringu hans eru síðan skráðir fyrir 4,83 prósent hlut. Því er ljóst að sjóðirnir voru að selja sjálfum sér hluti í Arion banka. Og beinn og óbeinn hlutur þeirra í bankanum er samanlagt mun hærri en sá hlutur sem keyptur var.
Einn eigandi í ruslflokki
Einn hinna nýja eigenda í Arion, Och-Ziff, glímir við mikil vandræði og fjárfestar hafa verið að flýja með mikið fjármagn úr stýringu hjá sjóðnum á undanförnu. Lánshæfismatsfyrirtæki hafa staðfest brestina hjá því. Daginn eftir að tilkynnt var um kaup þess á hlut í Arion banka, þá var lánshæfiseinkunn fyrirtækisins færð niður í ruslflokk af Standard & Poor´s.
Hinn 29. september í fyrra var fyrirtækið sektað um 213 milljónir Bandaríkjadala, eða um 25 milljarða króna, eftir að upp komst um stórfelld lögbrot fyrirtækisins í Afríku. Fyrirtækið mútaði embættismönnum til að hagnast sem mest á stöðutökum sínum, meðal annars í Líbíu, Níger og Kongó. Það var dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna sem lagði sektina á fyrirtækið og sagði ákvörðunina marka tímamót. Bandaríska alríkislögreglan FBI er enn að rannsaka hluta þessara glæpa, og ýmsar hliðar þeirra, ef marka má það sem fram kemur í yfirlýsingunni frá því í september.
Minnihlutinn bókar
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, er einn þeirra þingmanna minnihluta efnahags- og viðskiptanefndar sem setti fram bókunina. Aðrir sem það gerðu voru Andrés Ingi Jónsson, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Smári McCarthy.
Lilja segir að rökstuðningur Fjármálaeftirlitsins fyrir því að enginn hinna nýju hluthafa í Arion banka fari með virkan eignarhlut sé einfaldlega ekki nógu sterkur. „Ef horft er í gegnum eignarhaldið þá eru þeir líka hluthafar í Kaupþingi, sem er líka eigandi í bankanum.“
Hún segir að Fjármálaeftirlitið hafi upplýst efnahags- og viðskiptanefnd um að bæði Taconic Capital og Attestor Capital hafi þegar óskað eftir því að farið sé með þá sem virka eigendur. „Það sem ég er að gera athugasemd við er að þeir voru tilbúnir til að segja á sínum tíma, og gefa út mat, sem ég er tortryggin á. mér finnst þeir ekki hafa rökstutt það nægilega vel.“
Gagnrýna ráðherra
Í bókun minnihlutans er líka gagnrýnt að Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hafi fagnað því opinberlega að seldir hefðu verið hlutir í Arion banka til ofangreindra aðila. Í bókuninni segir að það hafi þeir gert án þess að gera sér „grein fyrir því hverjir hinir nýju eigendur væru eða hvort það kæmi betur út fyrir ríkissjóð að ganga inn í kaupin eða ekki. Það er afar gagnrýnivert að mati minni hluta nefndarinnar, einkum nú þegar mjög brýnt er að gagnsæi ríki í tengslum við söluferlið á Arion banka hf. til að auka traust og tiltrú á íslensku fjármálakerfi og fjármálamarkaði.
Minni hlutinn gagnrýnir enn fremur að hafa ekki fengið fullnægjandi gögn varðandi staðfest mat fjármála- og efnahagsráðherra á því hvort kaupverðið á hlutum í Arion banka hf. væri undir eða yfir því marki sem þyrfti til að virkja forkaupsrétt íslenska ríkisins.“