Vísbendingar eru um klíkuskap í atvinnulífinu á Íslandi, samkvæmt nýrri grein Magnúsar Þórs Torfasonar, Þorgerðar Einarsdóttur, Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur og Margrétar Sigrúnar Sigurðardóttur í Stjórnmálum og Stjórnsýslu. Stjórnarmeðlimir fyrirtækja eru líklegir til að búa nálægt hvorum öðrum, sér í lagi ef þeir eru virkir í stjórnmála- eða íþróttastarfi.
Nýbirt grein Magnúsar Þórs Torfasonar, lektors í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Þorgerðar Einarsdóttur, prófessors við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur, prófessors við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, og Margrétar Sigrúnar Sigurðardóttur, lektors við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, í tímaritinu Stjórnmál og Stjórnsýsla, fjallar um elítur á Íslandi og innbyrðis tengsl þeirra. Þar er farið yfir valdamikla hópa á flestum sviðum samfélagsins, en sjónum beitt að elítumyndun innan viðskipta- og atvinnulífsins á árunum 2014-2015.
Mikill jöfnuður á Íslandi
Samkvæmt greininni hefur það gjarnan verið trú Íslendinga að félagslegur og efnahagslegur jöfnuður einkenni þjóðina og að hvers konar elítur séu lítt áberandi. Það viðhorf að samfélagið væri að mestu leyti stéttlaust sé ríkjandi á Íslandi, eitt af lykilatriðum í sjálfsmynd og lífsviðhorfum landsmanna hafi löngum verið jafnaðarandi sem lýsir sér í því að Íslendingar geri lítinn mannamun sín á milli.
Í þessu tilfelli hefur Ísland einnig komið vel út í alþjóðlegum samanburði. Samkvæmt Alþjóðaefnahagsráðinu (World Economic Forum) var jafnrétti kynjanna mest hér á landi í fyrra, áttunda árið í röð. Einnig er Gini-stuðull Íslands lægstur allra OECD landa, sem bendir til þess að tekjujöfnuður hér sé meiri en annars staðar.
Hins vegar hefur þróunin á síðustu árum hér á landi verið í átt að meiri ójöfnuði, rétt eins og á öðrum Vesturlöndum. Bent er á það í skýrslunni að auður hennar ríkustu hafi farið vaxandi á meðan lífskjör almennings hafa staðið í stað. Sterk tengsl séu milli elítumyndunar og vaxandi ójafnaðar, bæði leiði til samþjöppunar valda hjá einsleitum hópum innan samfélagsins.
Gamlir karlar í Garðabæ
Í grein sinni athuguðu greinarhöfundar tengsl valdahópa innan íslensks samfélags. Þar kom í ljós að sterk tengsl séu milli elítuflokka innan viðskipta-og atvinnulífsins annars vegar, og félags- og hagsmunasamtaka hins vegar. Einnig voru vísbendingar um önnur tengsl, en valdamiklir einstaklingar í fjölmiðlum og stjórnsýslu virtust tengjast elítuhópum úr mörgum atvinnugreinum.
Greinarhöfundar athuguðu einnig samþjöppun einstaklinga sem mynda viðskiptaelítuna eftir póstnúmerum. Athygli vekur að sterk búsetueinsleitni ríkir meðal þeirra, þ.e. meðlimir í framkvæmdastjórnum fyrirtækja eru líklegri til að velja nágranna sína með sér í stjórn.
Ef litið er á búsetu meðlima viðskiptaelítunnar kemur í ljós að búsetueinsleitnin er sérstaklega áberandi ef einstaklingarnir búa í Garðabæ eða á Seltjarnarnesi. Þessi tvö sveitarfélög skera sig út, en þar búa 150% fleiri einstaklingar í viðskipta- og atvinnulífselítunni en vænta hefði mátt út frá íbúafjölda.
Einnig er áhugavert að búsetueinsleitnin virðist sterkari hjá ákveðnum hópum einstaklinga, til dæmis meðal eldri einstaklinga og karlmanna. Sér í lagi vekur athygli að stjórnarmenn eru mun líklegri til að koma úr sama póstnúmeri eftir því sem þeir eru virkari í stjórnmála- og íþróttastarfi.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að eitthvað virðist vera um klíkuskap í íslensku samfélagi. Aðgengi að valdamiklum stöðum í viðskipta- og atvinnulífinu sé ekki jafnopið og oft er haldið fram, en það virðist markast að einhverju leyti af búsetu einstaklinga. Að lokum bendir Magnús á að vinna þurfi markvisst að því skilja betur hvernig megi bæta þessa þætti til að stuðla að lýðræðislegri uppbyggingu valdamikilla staða á Íslandi.