Stuðningur við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar mældist 30,9 prósent í könnun sem MMR gerði 6. til 14. júní síðastliðinn. Um er að ræða minnsta stuðning sem hún hefur mælst með. Ríkisstjórnin, sem tók til starfa 11. janúar 2017, komst á þennan stað á fimm mánuðum.
Um er að ræða minni stuðning en ríkisstjórn Davíðs Oddssonar var með í miðju fjölmiðlalagamálinu árið 2004, þetta er minni stuðningur en ríkisstjórn Geirs H. Haarde var með í desember 2008, tveimur mánuðum eftir hrunið og minni en ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar var með þegar stuðningur við þá skammlífu ríkisstjórn var mældur í fyrsta sinn í lok apríl 2016. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var hins vegar með meiri stuðning í síðustu stuðningsmælingunni sem hún fékk áður en Sigmundur Davíð sagði af sér í byrjun apríl 2016.
Þetta má lesa úr sögulegum gögnum um stuðning við ríkisstjórnir síðustu ára og áratuga frá Gallup og MMR.
Ríkisstjórnir vanalega vinsælar í byrjun
Ríkisstjórnir njóta vanalega mikils stuðnings þegar þær setjast að völdum. Þannig naut ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, sem í sátu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, um 60 prósent stuðnings samkvæmt könnun Gallup í janúar 2000, um níu mánuðum eftir Alþingiskosningarnar 1999. Davíð hafði þá verið forsætisráðherra frá árinu 1991 og Sjálfstæðisflokkurinn hafði setið í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum frá árinu 1995.
Alþingiskosningar fóru næst fram í maí 2003 og þar héldu stjórnarflokkarnir meirihluta sínum. Eftir að ákveðið var að halda stjórnarsamstarfinu áfram mældist stuðningur við ríkisstjórnina 61 prósent í Gallup-könnun. Frá aldarmótum og fram að þingkosningum 2007 mældist stuðningur við ríkisstjórnina minnst 38 prósent í júlí 2004. Þá hafði Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti Íslands, nýverið hafnað því að staðfesta umdeilt fjölmiðlalög sem Alþingi hafði samþykkt, og samfélagið lék á reiðiskjálfi.
Ríkisstjórn Geirs H. Haarde, sem samanstóð af Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, tók við völdum vorið 2007. Vinsældir þeirrar ríkisstjórnar voru fordæmalausar og í fyrstu mælingu eftir að hún var mynduð sögðust 83 prósent landsmanna styðja hana. Síðan kom hrunið og sá stuðningur féll eins og steinn. Samkvæmt Gallup var stuðningurinn kominn niður í 26 prósent í janúar 2009, þegar ríkisstjórnin hrökklaðist frá völdum í kjölfar fjöldamótmæla. MMR mældi stuðninginn enn minni, eða 24,2 prósent. Vert er að taka fram að kannanir Gallup sýna vanalega meiri stuðning við ríkisstjórnir en kannanir MMR.
Icesave og Wintris skópu dýpstu dalina
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum 1. febrúar 2009 sem minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, varin af Framsóknarflokknum. Ríkisstjórnarflokkunum gekk vel í kosningunum 2009, fengu hreinan meirihluta saman og héldu áfram að starfa saman. Þegar ríkisstjórn Jóhönnu tók við völdum studdu 56,1 prósent landsmanna hana samkvæmt könnun MMR.
Hún varð fljótlega afar óvinsæl og þar spilaði eitt mál stærri rullu en nokkur önnur, Icesave. Í október 2010 stóð baráttan um það má sem hæst. Og þá fór stuðningur við ríkisstjórnina niður í 22,6 prósent hjá MMR. Það er minnsti stuðningur sem íslensk ríkisstjórn hefur nokkru sinni mælst með í könnunum. Þegar ríkisstjórn Jóhönnu fékk sína síðustu mælingu áður en hún missti völdin í kosningunum 2013 mældist stuðningur hennar 31,5 prósent.
Við tók ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem í voru Sjálfstæðisflokkur og Framsókn. Í upphafi var stuðningur við hana 59,9 prósent. Það tók þá ríkisstjórn tvö ár að fara fyrir neðan 31 prósent í stuðningsmælingum MMR og stuðningur hennar fór einungis tvívegis fyrir neðan 30 prósent. Fyrri skiptið var í júní 2015 (29,4 prósent) og það síðara var í kjölfar Wintris-málsins, sem varð til þess að Sigmundur Davíð sagði af sér, en þá fór stuðningurinn niður í 26 prósent í könnun MMR.
Ríkisstjórn flokkanna tveggja náði að hífa sig aðeins upp í stuðningi eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson tók við sem forsætisráðherra. Stuðningur við ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks endaði í 35 prósentum hjá MMR og 37,3 prósent hjá Gallup.
Óánægja á meðal kjósenda stjórnarflokkanna
Þegar stuðningur við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, sem samanstóð af Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð og tók við völdum 11. janúar 2017, var fyrst mældur í vikunum eftir valdatökuna kom í ljós að hún naut stuðnings 35 prósent landsmanna í könnun MMR en 43,6 prósent hjá Gallup.
Byrjunarpunktur ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar er því sambærilegur endapunkti síðustu ríkisstjórnar þegar horft er til stuðnings. Ríkisstjórnar sem kolféll í kosningunum í október 2016. Og miklu lægri en vanalegt er hjá nýrri ríkisstjórn.
Ríkisstjórnin er líka mjög óvenjuleg á margan máta. Hún er með minnihluta atkvæða á bak við sig (46,7 prósent), það tók marga mánuði að mynda hana og hún hefur einungis eins manns meirihluta. En það vakti óneitanlega athygli að ríkisstjórnin naut mun minni stuðnings en kjörfylgi flokkanna sem stóðu að henni sagði til um þegar hún hóf störf. Það þýðir að margir kjósendur þeirra flokka sem að ríkisstjórninni standa voru ekki ánægðir með það samstarf sem þeir völdu sér eða þann stjórnarsáttmála sem flokkarnir þrír komu sér saman um. Það á sérstaklega við um kjósendur Bjartrar framtíðar.
Stuðningurinn hefur bara farið niðurávið frá því sem liðið hefur frá valdatöku ríkisstjórnarinnar. Í nýjustu könnun MMR er stuðningurinn einungis 30,9 prósent og hefur aldrei mælst lægri. Hjá Gallup mælist hann 36 prósent og þar á það sama við, stuðningurinn hefur aldrei mælst lægri.