Framkvæmdastjóri Kadeco, Kjartan Þór Eiríksson, gaf munnlegar skýringar á viðskiptum sínum á Ásbrú og tengslum sínum við kaupendur eigna sem Kadeco hefur selt á síðustu árum á svæðinu á stjórnarfundi sem fram fór á þriðjudag. Stjórn félagsins, sem er í eigu íslenska ríkisins, ákvað í kjölfarið að óska eftir því að Kjartan geri stjórninni skriflega grein fyrir viðskiptum sínum á svæðinu. Þetta segir Sigurður Kári Kristjánsson, fráfarandi stjórnarformaður Kadeco, í samtali við Kjarnann.
Félög tengd Sverri Sverrissyni keyptu þrjár fasteignir af Kadeco á undanförnum árum á samtals 150 milljónir króna. Síðasta eignin sem félög tengd honum keyptu var seld í febrúar á þessu ári, nokkrum mánuðum eftir að Kjartan, framkvæmdastjóri Kadeco, og Sverrir hófu viðskiptasamband. Þeir eiga saman félagið Airport City á Ásbrú sem stundar fasteignaviðskipti, þó ekki við Kadeco.
Eftir að stjórnarfundinum lauk var haldinn aðalfundur Kadeco og á honum var kosin ný stjórn. Enginn þeirra þriggja sem sat í stjórn var endurkjörin. Þessi í stað var Georg Brynjarsson, hagfræðingur og stjórnarmaður í Viðreisn, kjörinn stjórnarformaður. Auk hans komu tveir starfsmenn fjármála- og efnahagsráðuneytisins inn í stjórn Kadeco, en félagið heyrir undir það ráðuneyti. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, staðfesti við Kjarnann í gær að til stæði að leggja starfsemi Kadeco niður í núverandi mynd þar sem upprunalegu hlutverki þess, að selja fasteignir á Ásbrú á Keflavíkurflugvelli, væri lokið.
Selt áfram til Bílaleigu Akureyrar
Kjartan framkvæmdastjóri hefur legið undir ámæli eftir að greint var frá því, í vefmiðlinum Local Suðurnes, að hann ætti helmingshlut í félaginu Airport City á Ásbrú. Hinn helmingurinn í félaginu er í eigu fjárfestisins Sverris Sverrissonar. Airport City í nóvember í fyrra. Ástæða þess að viðskiptasamband mannanna tveggja hefur vakið athygli er sú að Kadeco hefur selt félögum í eigu Sverris fasteignir í þrígang á undanförnum árum fyrir samtals 150 milljónir króna.
Fyrst keypti félagið Þórshamar ehf. fasteignina Funatröð 3. þann 28. desember 2015 á 35 milljónir króna. Það félag er í eigu Sverris og barna hans. Fasteignamat þeirrar eignar er 27,3 milljónir króna. Sú eign hefur verið seld áfram til Höldur, eiganda Bílaleigu Akureyrar. Salan var hluti af stærri kaupum fyrirtækisins á Ásbrú, en alls keypti það húsnæði og lóðir á tæplega 17 þúsund fermetra svæði við Funatröð 1-5 í október 2016.
Næst keypti félagið Sverrir Sverrisson ehf. fasteignina Skógarbraut 945 þann 27. apríl 2016 á 55 milljónir króna. Fasteignamat þeirrar eignar er 38,5 milljónir króna. Síðustu viðskipti Kadeco og félags Sverris áttu sér síðan stað í febrúar 2017 þegar félagið G604 ehf. keypti fasteignirnar Grænásbraut 604- 606 á 60 milljónir króna. Gildandi fasteignamat þeirrar eignar er 160 milljónir króna, eða 100 milljónum króna meira en kaupverðið.
Þarf að gera skriflega grein fyrir viðskiptum sínum
Í Fréttablaðinu fyrr í þessari viku sagði Kjartan frá því að hann hefði upplýst þáverandi stjórnarformann Kadeco um þessi tengsl í byrjun sumars. Sigurður Kári sagði í sömu frétt að fjárfestingar Airport City, sem keypti fasteignir á Ásbrú sem áður voru í eigu Eignarhaldsfélagsins AV ehf. (fyrrverandi eiganda Íslenskra aðalverktaka), hafi fyrst komið til umræðu á stjórnarfundi fyrripart maímánaðar.
Viðskipti Kjartans í gegnum Airport City voru svo tekin aftur fyrir á stjórnarfundi í gær og þar gerði hann munnlega grein fyrir þeim. Niðurstaða fundarins var sú að að óskað var eftir því að Kjartan geri stjórninni skriflega grein fyrir viðskiptum sínum á svæðinu.