Óbærilegur hiti í borgum vegna loftslagsbreytinga
Borgir eru viðkvæmastar fyrir hitabreytingum vegna hlýnunar jarðar. Gróðursæld á dreifbýlli svæðum gerir hitabreytingarnar mildari þar.
Sumur um víða veröld eru nú þegar orðin heitari en þau voru og útlit er fyrir að þau verði enn hlýrri við næstu aldamót ef fram heldur sem horfir.
Og sumrin verða tilfinnanlega heitari í borgum.
Íbúafjöldi borga heimsins vex með hverju árinu sem líður og vegna hitapolla á þéttbyggðum svæðum munu aukin hlýindi auka líkur á dauðsföllum vegna hita.
Hitabreytingarnar eru meiri í borgum en í dreifbýlli svæðum sem eru gróðursælli og vindasamari. Um það bil 54 prósent mannkyns býr í borgum. Gert er ráð fyrir því að árið 2050 muni 2,5 milljarðar manna til viðbótar búa borgum heimsins.
Með hlýnun jarðar verður veðrir óreglulegra og líkur á gríðarlegum hitabylgjum aukast verulega. Þetta hefur svo auðvitað allt saman áhrif á heilsu íbúa og efnahag samfélaga.
Hér að neðan má sjá gagnvirkt kort, teiknað fyrir vefinn Climate Center, sem sýnir meðalhita í borgum miðað við spá Alþjóðaveðurfræðistofunnar til ársins 2100.
Ef smellt er á, eða leitað að, borg má sjá hversu miklum mun hærra hitastigið verður árið 2100 miðað við aðrar borgir. Í Kaupmannahöfn er til dæmis gert ráð fyrir hitastigið verði eins og í Búdapest á sumrin, um það bil 4,6 gráðum heitara en það er nú.
Borgir í Austur-Evrópu munu verða heitari að jafnaði en aðrar borgir í heiminum, miðað við þessa spá. Sofía, höfuðborg Búlgaríu, mun hitna mest á sumrin; Um heilar 8,4 gráður ef ekki verður gert meira til að stemma stigu við loftslagsbreytingar.
Hlýnun að óbreyttu | Hlýnun ef útblástur minnkar meira | ||
---|---|---|---|
1 | Sofía – Búlgaríu | 8.4°c | 4.4°c |
2 | Skopje – Makedóníu | 8.4°c | 4.4°c |
3 | Belgrad – Serbíu | 8.3°c | 4.3°c |
4 | Madríd – Spáni | 8.0°c | 4.3°c |
5 | Búkarest – Rúmeníu | 7.9°c | 4.2°c |
6 | Jerevan – Armeníu | 7.8°c | 4.3°c |
7 | Zagreb – Króatíu | 7.8°c | 4.0°c |
8 | Sarajevó – Bosníu | 7.8°c | 4.0°c |
9 | Ljubljana – Slóveníu | 7.7°c | 3.9°c |
10 | Búdapest – Ungverjalandi | 7.6°c | 3.9°c |
Ef ekki verður meira að gert í loftslagsmálum er líklegt að nokkrar borgir í heiminum muni hitna upp í hæðir sem þekkjast ekki í dag. Hitastig í Khartoum, höfuðborg Súdan, verður að jafnaði 44,1 gráða á sumrin. Þetta undirstrikar að hitastig á jörðinni er líklega að hækka upp í þær hæðir sem mannkynið hefur aldrei þekkt.
Jafnvel þó útblástur gróðurhúsalofttegunda verði takmarkaður er ljóst að hitastig mun hækka verulega í heiminum. Það er samt sem áður skipta verulegu máli enda verður auðveldara fyrir mannkynið að aðlagast mildari hitabreytingum og það verður ódýrara fyrir efnahag ríkja heims.