Hefðbundin viðhorf til raforkumála hafa verið að breytast. Hér áður fyrr var það viðtekin skoðun að hið opinbera hefði óhjákvæmilega lykilhlutverki að gegna á öllum sviðum þeirra vegna þess að markaðslausnir ættu þar ekki við, meðal annars vegna einkaréttar í starfsemi af þessu tagi. Á síðustu árum hafa hins vegar verið þróaðar aðferðir þar sem markaðsöflum hefur verið beitt á þessu sviði, einkum í vinnslu og sölu raforku. Þessar aðferðir hafa í aðalatriðum reynst vel og er nú almennt talið að meiri árangur náist að jafnaði í vinnslu og sölu þar sem samkeppni ríkir en þar sem hefðbundinn einkaréttur er allsráðandi.
Ofangreindur texti er vel að merkja ekki eftir greinarhöfund, heldur er þetta úr athugasemdum með frumvarpi því sem varð að raforkulögum nr. 65/2003. Í þessari grein er athyglinni beint að því hvernig raforkumarkaðurinn hér hefur verið að breytast úr opinberum og mjög stýrðum markaði yfir í frjálsari samkeppnismarkað. Og hvernig sú þróun er líkleg til að halda áfram í átt að því sem hefur gerst á norrænum raforkumarkaði. Enda einkennist bæði gildandi löggjöf, stefna Landsnets og stefna Landsvirkjunar (LV) af markmiðum í þessa veru.
Þar með mun íslenskur raforkumarkaður ekki aðeins færast nær norræna raforkumódelinu, heldur um leið svipa sífellt meira til ýmissa annarra raforkumarkaða í vestanverðri Evrópu. Þróunin mun m.a. að öllum líkindum birtast í hækkandi raforkuverði hér og aukinni arðsemi í íslenska raforkugeiranum. Um leið skapar þetta aðhald, þ.a. að bæði raforkunotkun og hagkvæmni virkjunarkosta fái meira athygli en verið hefur, sem hvort tveggja mun halda aftur af verðhækkunum. Heildarniðurstaðan ætti að verða aukin þjóðhagsleg hagkvæmni af nýtingu orkuauðlindanna.
Grundavallarbreyting á íslenskum raforkumarkaði
Það eru breyttir tímar á íslenskum raforkumarkaði frá því sem var fyrir fáeinum árum. Lagasetningin árið 2003 var þar mjög mikilvæg, en það er ekki nema um áratugur síðan full samkeppni var innleidd. Fram að þeim tíma hafði það verið meginstef í íslenskri orkustefnu að laða hingað stóriðju með því að bjóða slíkum fyrirtækjum raforku á mjög lágu verði (ásamt ýmsum öðrum ívilnunum). Þetta má kalla ríkisstyrkta stóriðjustefnu, þar sem lágt raforkuverð orkufyrirtækja í opinberri eigu lék eitt af lykilhlutverkunum.
Í dag er ekki lengur lagalega mögulegt að raforkufyrirtæki í opinberri eigu bjóði ríkisstyrki í því formi að arðsemi virkjana verði undir því sem einkafyrirtæki hefðu geta boðið. Þetta hefur þrengt að gömlu stóriðjustefnunni, en þó kannski fyrst og fremst fært hana til í hinu opinbera kerfi. Stjórnvöld hér hafa haldið áfram að veita allskonar ívilnanir til stóriðju, en gera það ekki lengur í því formi sem kalla má undirverðlagða raforku. Í dag er það mikilvægur þáttur í stefnu ríkisorkufyrirtækisins LV að reyna að tryggja sem bestan arð af nýtingu orkuauðlindanna. Það sjónarmið er vafalítið ráðandi hjá öðrum raforkufyrirtækjum hér, hvort sem þau eru í opinberri eigu eða einkafyrirtæki.
Kerfisbreytingar má rekja til EES
Mikilvæg forsenda þeirrar þróunar að gera raforkuframleiðslu hér ábatasamari en verið hefur, er sem sagt sú kerfisbreyting sem varð á íslenskum orkumarkaði vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES), sbr. og áðurnefnd raforkulög frá árinu 2003. Aðildin að EES hafði það í för með sér að raforkumarkaðurinn þurfti að uppfylla ákveðnar samkeppnisreglur og opinber fyrirtæki hafa ekki lengur frjálsar hendur til að selja raforku með svo lágri arðsemi að það sé skilgreint sem ríkisstyrkur.
Að vísu eru til einhver dæmi um nýleg raforkuverkefni sem sennileg munu skila frekar slakri arðsemi, sbr. einkum Þeistareykjaverkefnið vegna PCC (treglega gekk að sannfæra ESA um að raforkusamningurinn þar fæli ekki í sér ríkisaðstoð). En almennt er nú lögð rík áhersla á að sérhvert orkuverkefni fyrirtækja í opinberri eigu skili viðunandi arðsemi, enda er hið opinbera að öðrum kosti að niðurgreiða raforkuverðið til viðkomandi útvaldra viðskiptavina. Í dag er slíkt almennt óheimilt, einkum vegna aðildarinnar að EES og vegna löggjafar sem sett hefur verið til að ná markmiðum þeirrar aðildar.
Áhugaverðari tímar
Þó svo ennþá sé nokkuð í land með að meðalverð á raforku til stóriðju á Íslandi geti talist viðunandi fyrir orkufyrirtækin hér, þá eru góðar líkur á að þetta verð fari hækkandi. Og raforkuframleiðsla hér verði þar með ábatasamari og nýting á íslenskum orkuauðlindum geti almennt farið að skila betri arðsemi. Í kjölfar hins mikilvæga orkusamnings LV og RTA/ÍSAL frá 2010 hefur smám saman komist þarna meiri skriður á að auka arðsemi í raforkusölunni. Samkeppnisrekstur á íslenskum raforkumarkaði og aðgætni gegn offramboði hefur skipt máli gagnvart því að skapa þau skilyrði að gera þennan markað áhugaverðari fyrir bæði fjárfesta og lánafyrirtæki. Þar er um að ræða mikla breytingu frá því sem áður var.
Norræna heildsöluverðið á raforku er orðið viðmiðun á Íslandi
Í dag eru ýmis mikilvæg samningaverkefni framundan um endurskoðun á raforkuverði við stóriðju. Þar má bæði nefna samninga sem eru að renna út og samninga sem eru með endurskoðunarákvæðum um raforkuverð. Þarna eru mikilvægar dagsetningar framundan hjá LV vegna áranna 2019, 2023, 2024 og 2028. Við þetta bætast svo samningar ON og HS Orku; einkum samningarnir við Norðurál.
Í dag virðist líklegt að leiðarljósið í þeirri vinnu verðI að íslenski raforkumarkaðurinn færist nær þeim norræna. Sú viðmiðun kemur skýrt fram í nýjum samningi LV og Norðuráls sem gerður var á liðnu ári (2016). Og ekki ólíklegt að samskonar viðmiðun verði í nýjum samningi LV og Elkem (nema Elkem samþykki langtímasamning þar sem yrði samið um fast en nokkuð hátt verð). Í þessu sambandi er áhugavert að forstjóri LV gaf það nýverið sterklega til kynna að það sé einmitt markmið fyrirtækisins að semja um verðtengingu við norræna markaðinn, þó svo fáir hafi álitið að það yrði mögulegt fyrir LV að ná fram slíkri tengingu.
Skyndimarkaður með raforku fæli í sér ávinning
Með aukningu slíkrar verðtengingar við norræna raforkumarkaðinn yrði/ verður meira um skammtímasamninga við stóriðjuna. Almenni raforkumarkaðurinn hér gæti líka þróast í átt að því sem gerist á norræna markaðnum og þá eftir atvikum að hér verði komið á fót raforkukauphöll (spotmarkaði eða skyndimarkaði með raforku). Tilgangurinn með slíkri kauphöll er að mynda hér markaðstorg fyrir raforkuviðskipti í heildsölu með öruggum, áreiðanlegum og hagkvæmum hætti og með sama aðgangi fyrir alla. Þar myndu bæði framleiðendur, sölufyrirtæki og notendur geta átt viðskipti með raforku og verðmyndunin yrði skiljanlegri, eðlilegri og gegnsærri en nú er. Þar með yrði verð á raforkunni sennilega eitthvað sveiflukenndara en er í dag, enda myndu margvíslegir þættir í framboði og eftirspurn geta hreyft talsvert við verðinu.
Þjóðhagslegur ávinningur af slíkum markaði gæti orðið af ýmsu tagi líkt og lýst er í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2013. Slíkur markaður myndi m.a. auka vitund um þau verðmæti sem felast í raforkunni og um leið myndi þetta fyrirkomulag ýta undir hagkvæmari nýtingu á orkuauðlindunum. Í umræddri skýrslu HÍ kemur fram að slíkur markaður leiði til þess að hagkvæmari kostir verði nýttir til raforkuvinnslu og ávinningur samfélagsins kæmi líka fram í því að núverandi nýtingarkostir og eignir yrðu nýttar betur. Í gögnum frá Landsneti má sjá að fyrirtækið álítur mikilvægt að finna leiðir sem auka virkni markaðsumhverfisins og hefur Landsnet unnið að því að undirbúa rekstur skyndimarkaðar svo verðmyndun raforkunnar hér geti orðið gegnsærri. Þeirri vinnu hefur að vísu miðað hægar en gert var ráð fyrir fyrir í upphafi, en væntanlega kemst hún brátt aftur á skrið.
Verðmætaaukning möguleg
Í nýlegri skýrslu Copenhagen Economics var m.a. bent á að með því að raforkuverð á Íslandi endurspegli verðið á norræna raforkumarkaðnum geti myndast veruleg verðmætaaukning í íslensku samfélagi. Sá þjóðhagslegi viðbótarávinningur er af Copenhagen Economics metinn á bilinu u.þ.b. 130-550 milljónir USD á ári hverju; sem sagt jafngildi hátt í 60 milljarða ISK árlega. Þróist raforkumarkaðurinn hér í átt að þeim norræna eru því sannarlega áhugaverð tækifæri framundan í raforkuframleiðslu á Íslandi.