Fjármálaeftirlitið og Borgun hf. gerðu með sér samkomulag um sátt vegna brots Borgunar á reglum um kaupaukakerfi þann 9. júní síðastliðinn. Samkvæmt sáttinni viðurkennir Borgun að hafa brotið gegn reglunum og lögum um fjármálafyrirtæki og að greiða 11,5 milljónir króna í sekt. Frá þessu er greint í gagnsæistilkynningu á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins.
Þar kemur einnig fram að málsatvik séu þau að stjórn Borgunar ákvað þann 13. september 2016 að greiða starfsmönnum fyrirtækisins eingreiðslu í launauppbót, eða bónus, umfram föst launakjör þeirra. Þeir sem höfðu verið í fullu starfi undanfarna 12 mánuði fengu 900 þúsund krónur en þeir sem voru í minna starfshlutfalli fengu hlutfall af þeirri greiðslu. Alls fengu 148 starfsmenn slíka greiðslu og því má ljóst vera að heildarkostnaður er hið minnsta um 100 milljónir króna. Stærsti eigandi Borgunar er Íslandsbanki með 63,47 prósent hlut. Íslandsbanki er í 100 prósent eigu íslenska ríkisins.
Í tilkynningunni segir að við ákvörðun sektarfjárhæðar hafi verið litið til þess að „markmiðið með því að takmarka greiðslur til starfsmanna fjármálafyrirtækja umfram föst starfskjör þeirra er að umbun til starfsmanna sé tengd árangri í starfi og sé í samræmi við undirliggjandi áhættu. Þannig stuðli fjármálafyrirtæki að ábyrgri áhættustýringu og sporni gegn óhóflegri áhættutöku. Þá tók sektarfjárhæðin mið af flokkun löggjafans á alvarleika brotsins og því að um einskiptisgreiðslu var að ræða sem tók til allra starfsmanna.“
Ríkisbankinn í málarekstri gegn Borgun
Rekstur Borgunar gekk sannarlega vel á síðasta ári. Hagnaður félagsins var 7,8 milljarðar króna samkvæmt rekstrarreikningi og hluthafar fengu 4,7 milljarða króna greidda í arð vegna frammistöðu félagsins á árinu 2016. Þar munaði mestu um sölu á hlut Borgunar í Visa Europe í júní 2016 á 6,2, milljarða króna.
Rekstur, og ekki síður eignarhald á Borgun, hefur verið mikið í umræðunni á undanförnum árum. Sérstaklega vegna þess að Landsbankinn, sem er í eigu íslenska ríkisins, seldi 31,23 prósent eignarhlut sinn í Borgun á 2,2 milljarða króna í nóvember 2014, á bakvið luktar dyr til hóps einkafjárfesta sem hafa ávaxtað pund sitt ævintýralega á einungis tveimur og hálfu ári. Landsbankinn hefur, samkvæmt eigin mati, orðið af rúmlega sex milljörðum króna vegna sölunnar.
Ríkisendurskoðun birti í fyrrahaust svarta skýrslu um eignasölu Landsbankans á undanförnum árum. Salan á hlut bankans í Borgun leikur þar aðalhlutverk. Í kjölfar birtingu skýrslunnar missti Steinþór Pálsson, sem hafði verið bankastjóri Landsbankans frá 2010, starf sitt.
Bankaráð Landsbankans tilkynnti í ágúst 2016 að ákveðið hefði verið að höfða mál fyrir dómstólum vegna sölunnar á 31,2 prósent eignarhlut bankans í Borgun hf. á árinu 2014. Þann 30. desember 2016 sendi Landsbankinn frá sér tilkynningu þar sem greint var frá því að bankinn hefði stefnt Borgun hf., forstjóra Borgunar hf., BPS ehf. og Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. vegna sölunnar. Í tilkynningunni segir: „Málið er höfðað til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu. Það er mat bankans að hann hafi orðið af söluhagnaði við sölu á 31,2 prósent hlut sínum í Borgun hf. árið 2014. Bankinn fékk ekki upplýsingar sem stefndu bjuggu yfir um að Borgun hf. ætti hlut í Visa Europe Ltd. og réttindi sem fylgdu hlutnum, þ.á.m. mögulega hlutdeild í söluhagnaði Visa Europe Ltd. við nýtingu söluréttar í valréttarsamningi Visa Inc. og Visa Europe Ltd.“