Það myndi kosta íslensk stjórnvöld tæplega 1,9 milljarða króna að bæta sauðfjárbændum upp tap þeirra vegna framleiðslu ársins 2017. Þetta kemur fram í bréfi sem formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, Oddný Steina Valsdóttir, sendi alþingismönnum í gær og Kjarninn hefur undir höndum.
Þar segir Oddný Steina að þriðjungslækkun á afurðaverði til sauðfjárbænda í haust þýði að framlegð á meðalkind lækki um 4.130 krónur frá árinu 2016. Í útreikningum sambandsins, sem unnar voru af Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins upp úr skýrsluhaldsgögnum um 1.200 sauðfjárbúa og rekstrargögnum 44 búa, er miðað við að kindurnar séu 450 þúsund talsins, og því sé tap íslenskra sauðfjárbænda milli ára 1.859 milljónir króna. „Þessi staða er grafalvarleg eins og bændur hafa ítrekað bent á. Margra mánaða viðræður við stjórnvöld hafa hins vegar litlu skilað. Landssamtök sauðfjárbænda telja því einsýnt að bændur og Alþingi taki höndum saman og bregðist við þessum bráðavanda án tafar.“
Samkvæmt fjárlögum ársins 2017 munu greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu, án alls viðbótarkostnaðar, nema um fimm milljörðum króna í ár.
Launalækkun upp á 56 prósent
Útreikningarnir sýna einnig að afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) fyrir sauðfjárrækt í heild verði 1.994 milljónum krónum minni í ár en hún var í fyrra, þegar afkoman var jákvæð um 531 milljón króna.
Hiti á fundi atvinnuveganefndar
Ástæðan fyrir þessari stöðu er sú að sauðfjárbændur geta ekki flutt úr landi þann hluta framleiðslunnar sem ætlaður var til útflutnings. Helstu ástæður séu annars vegar viðskiptabann Rússa á íslenskar afurðir vegna stuðnings Íslendinga við efnahagsþvinganir Evrópusambandið á landið út af stöðunni á Krímskaga, og hins vegar lokun Noregsmarkaðar. Þar er einfaldlega ekki lengur eftirspurn eftir innfluttu lambakjöti. Þá hjálpar mikil styrking krónunnar ekki til.
Viðræður hafa staðið yfir milli sauðfjárbænda og stjórnvalda um aðgerðir vegna þessarar stöðu um nokkurt skeið, en án niðurstöðu. Fjallað var um málið á fundi atvinnuveganefndar í vikunni. Páll Magnússon, formaður nefndarinnar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í kjölfarið við Morgunblaðið að viðbótarfjármagn þyrfti að koma til frá hinu opinbera. Hugsanlega þyrfti að flýta greiðslum úr núverandi búvörusamningi.
Heimildir Kjarnans herma að sú hugmynd að ríkið kaupi upp offramleiðslu sauðfjárbænda fari mjög illa í ráðherra Viðreisnar, sem stýra landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Sömu sögu sé að segja um hugmyndir um að útflutningsskylda verði tekin aftur upp. Hún var afnumin fyrir um áratug síðan vegna þess að hún þótti úrelt. Í útflutningsskyldu fólst að bændur skuldbundu sig til að selja hluta af framleiðslu sinni á erlenda markaði.
Mikill hiti var á fundi atvinnuveganefndar í vikunni þegar hluti nefndarmanna, m.a. frá Sjálfstæðisflokknum, töluðu fyrir annað hvort upptöku útflutningsskyldu eða uppkaupum ríkisins á umframframleiðslu.
Slíkt kemur ekki til greina hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu nema að á móti komi vilji hjá Bændasamtökunum til að breyta kerfinu þannig að svona staða, þar sem miklu meira af kjöti er framleitt en eftirspurn sé eftir, komi ekki upp aftur. Þá kvarta margir viðmælendur Kjarnans yfir því að sáralítið sé til af almennilegum hagtölum sem sýni raunverulega stöðuna á sauðfjármarkaðnum. Það þurfi að bæta verulega áður en að hægt sé að réttlæta stórkostlegar greiðslur úr ríkissjóði til að mæta þeirri erfiðu stöðu sem sauðfjárbændur eru í.
Markaðsátak skilaði ekki aukinni eftirspurn
Ríkissjóður hefur þegar greitt töluverða fjármuni vegna fyrirsjáanlegra erfiðleika íslenskra sauðfjárbænda við sölu á afurðum sínum erlendis. Um var að ræða sérstakt markaðsátak fyrir sauðfjárafurðir á erlendum mörkuðum. Markaðsátakið þótti nauðsynlegt vegna fyrirsjáanlegrar birgðaaukningar sem gæti valdið verðlækkun innanlands.
Þegar fjáraukalög voru afgreidd 22. desember 2016 var samþykkt að veita 100 milljónum króna úr ríkissjóði til að koma í veg fyrir verðlækkun á lambakjöti hérlendis. Þegar frumvarp um fjáraukalög var kynnt vakti viðbótargreiðslan töluverða athygli og var meðal annars harðlega gagnrýnd af þáverandi formanni Neytendasamtakanna, Ólafi Arnarsyni. Hann sagðist gáttaður á málinu og sagði að stjórnvöld væru að verja peningum til að halda uppi verðlagi á Íslandi.
Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi starfandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mótmælti því harðlega og sagði í samtali við RÚV að málið snerist „um það fyrst og fremst að bændur geti haldið áfram að framleiða lambakjöt og þá um leið bjóða neytendum sem Ólafur Arnarson er að vinna fyrir upp á ódýra, heilnæma og góða vöru og gott kjöt.“
Markaðsátakið virðist ekki hafa skilað miklu miðað við stöðuna eins og henni er lýst í bréfi Landssamtaka sauðfjárbænda. Þar segir að þriðjungur af framleiðslu þeirra sé vanalega fluttur úr landi og seldur á erlendum mörkuðum. „Sú sala hefur ekki gengið sem skyldi að undanförnu og útlit fyrir að birgðir við upphaf sláturtíðar verði 700 til 1.000 tonnum meiri en æskilegt væri.“