Ein stærstu stjórnmálalegu tíðindi sumarsins voru þau að í nýlegri könnun Gallup mældist Flokkur fólksins, undir forystu Ingu Sæland, með 8,4 prósent fylgi. Ef þetta yrðu niðurstöður kosninga þá myndi Flokkur fólksins ná inn fimm þingmönnum. Flokkurinn bauð fram í síðustu Alþingiskosningum og fékk þá 3,5 prósent atkvæða sem dugði ekki til að koma manni á þing en nægði til þess að komast á fjárlög. Flokkur fólksins fær10,3 milljónir króna á þessu ári og yfir 40 milljónir króna á kjörtímabilinu. Það fé nýtist vel til að skipuleggja flokksstarfið.
Annað nýtt afl sem hefur fengið mikla athygli, Sósíalistaflokkur Íslands undir forystu Gunnars Smára Egilssonar, mældist heldur verr í sömu könnun. Einungis fjórir aðspurðra sögðust myndu kjósa flokkinn ef kosið yrði í dag. Það þýddi að flokkurinn mældist með 0,29 prósent fylgi.
En hvað þýða þessar tölur fyrir nýju flokkanna sem eru að reyna að fóta sig í íslenskum stjórnmálum? Er þessi könnun einhver vísir á hvað þeir gætu gert í kosningum, í ljósi þess að ekki er fjórðungur liðinn af kjörtímabilinu?
Því fer nefnilega fjarri að ný öfl, sem hafa boðað stórar popúlískar lausnir á djúpstæðum og flóknum vanda, hafi ekki áður farið með himinskautum en síðan hrapað skarpt. Nærtækasta dæmið sem vert er að minnast er Samstaða, flokkur Lilju Mósesdóttur.
Lilja og Biggi lögga
Lilja var áberandi í íslenskum stjórnmálum eftir hrun og eignaðist marga fylgismenn. Hún boðaði óhefðbundnar leiðir og rakst oft á við flokksfélaga sína í Vinstri grænum. Lilja sagði sig svo úr þingflokki Vinstri grænna árið 2011 og tæpu ári síðar var stjórnmálaflokkur undir formennsku hennar, Samstaða - flokkur lýðræðis og velferðar, stofnaður. Það var 7. febrúar 2012 og þremur dögum síðar, 10. febrúar, birtist könnun á fylgi flokkanna í Fréttablaðinu. Þá mældist flokkurinn með 21,3 prósenta fylgi og fjórtán þingmenn.
Lilja var hins vegar ekki lengi í paradís. Samstaða hrundi í könnunum næstu mánuði og Lilja sagði af sér sem formaður í ágúst 2012. Þannig ætlaði hún að axla ábyrgð á fylgistapinu. Í október það ár var kjörinn nýr formaður, Birgir Örn Guðjónsson, sem seinna varð frægur á Íslandi sem Biggi lögga.
Þetta breytti engu og í síðustu könnun sem Samstaða var mæld í, hjá MMR í febrúar 2013, var fylgið 0,7 prósent. Í sama mánuði var ákveðið að bjóða ekki fram í kosningunum sem haldnar voru það vorið.
Hluti af ástæðunni fyrir því að Samstaða missti sérstöðu sína var sú að einn meginstraumsflokkanna, og sögulegu valdaflokkanna á Íslandi, bauð líka upp á útgáfu af stærsta popúlíska kosningaloforði flokksins, að nota fé ríkissjóðs til að greiða hluta þjóðarinnar skaðabætur vegna þess að hann hafði verið með verðtryggð húsnæðislán.
Þjóðvaki Jóhönnu og Borgaraflokkur Alberts hátt upp og niður
Það eru líka eldri dæmi um flokka sem byrja vel en missa fylgi fljótt. Þjóðvaki Jóhönnu Sigurðardóttur mældist með 17,5 prósenta fylgi fyrst eftir að flokkurinn var stofnaður, sem klofningur út úr Alþýðuflokknum árið 1995. Fylgið minnkaði og var mánuði síðar orðið 10,5 prósent og þegar að kosningum kom var fylgið farið niður í 7,2 prósent, en það þýddi þó fjóra menn inn á þing.
Sömu sögu má segja af Borgaraflokki Alberts Guðmundssonar, sem bauð fram í alþingiskosningunum árið 1987, sem mældist fyrst með um 20 prósenta fylgi í könnunum en endaði með að fá 11 prósent í kosningunum. Þróunin var eins hjá Bandalagi jafnaðarmanna, með Vilmund Gylfason í forystu, sem byrjaði mjög hátt en endaði með rúmlega sjö prósenta fylgi.
Besti flokkurinn besta dæmið um góðan árangur
En það eru líka til dæmi af flokkum sem hafa náð miklum árangri í fyrstu kosningunum eftir að þeir urðu til. Píratar hafa til að mynda náð inn á þing í báðum kosningunum sem flokkurinn hefur boðið fram í og aukið fylgið umtalsvert á milli þeirra, þótt að þeim hafi ekki tekist að halda við gríðarlegum vinsældum samkvæmt skoðanakönnunum sem um tíma sýndu þá með hátt í 40 prósent fylgi. Besti flokkur Jóns Gnarr er annað dæmi. Þegar hann sigraði borgina árið 2010 fékk flokkurinn sem lofaði því að svíkja öll loforð 34,7 prósent atkvæða.
Systurflokkur Besta flokksins, Björt framtíð, náði sömuleiðis inn á þing í fyrstu tilraun með 8,2 prósent atkvæða. Það var reyndar mun lægra en fylgi flokksins hafði mælst í könnunum þar sem það fór mest í 18,6 prósent. Og eftir að hafa varla mælst með lífsmarki allt síðasta kjörtímabil í könnunum náði Björt framtíð að bjarga sér fyrir horn með andstöðu gegn búvörusamningum á lokametrunum fyrir kosningar, tryggja áframhaldandi veru á Alþingi og rötuðu meira að segja í ríkisstjórn.
Þar hitti Björt framtíð fyrir annað afl sem náði mjög góðum árangri í fyrstu tilraun, Viðreisn. Undirbúningur að stofnun Viðreisnar sker sig reyndar aðeins úr, enda stóð hann yfir árum saman, var mjög vel fjármagnaður og hvert skref í átt að framboði þaulskipulagt. Það skilaði flokknum 10,5 prósent atkvæða í síðustu kosningum og í lykilstöðu til að mynda ríkisstjórn annað hvort til hægri eða vinstri.