Ný úttektarskýrsla um gerð Vaðlaheiðaganga, sem unnin var að beiðni ríkisstjórnarinnar, kemst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin geti ekki talist eiginleg einkaframkvæmd. Í raun sé hún ríkisframkvæmd þótt að upphaflega hefði hún ekki verið kynnt sem slík til að þurfa ekki að lúta forgangsröðun samgönguáætlunar. Frá því að lög um gerð ganganna voru sett hafi íslenska ríkið borið megináhættu af Vaðlaheiðargöngum í formi framkvæmdaláns til verksins.
Ríkisstjórn lagði til við Alþingi í apríl síðastliðnum að setja 4,7 milljarða króna til þess að ljúka við gerð Vaðlaheiðarganga. Upphaflega stóð til að ríkissjóður myndi lána 8,7 milljarða króna til verkefnisins en sú upphæð dugði ekki. Þegar fyrir lá að ríkið þurfti að setja meira fé í framkvæmdina til að hægt yrði að ljúka henni var samþykkt í ríkisstjórn að gera úttekt á verkefninu og því sem fór úrskeiðis í því.
Verður að vera umtalsvert dýrara en í Hvalfjarðargöngin
Friðrik Friðriksson, rekstrarráðgjafi hjá Advance, var fenginn til að vinna úttektina. Hann skilaði endanlegri skýrslu 15. ágúst og var hún kynnt á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Helstu niðurstöður hennar er að verkefnið geti ekki talist einkaframkvæmd heldur sé það í raun ríkisframkvæmd sem hafi verið kynnt með öðrum hætti til að komast á legg á undan öðrum verkefnum sem voru ofar á samgönguáætlun.
Skýrsluhöfundur kemst einnig að þeirri niðurstöðu að frekari rannsóknir hefðu ekki dregið úr framkvæmdaáhættu og telur mögulegt að lán ríkissjóðs geti innheimst innan skynsamlegs lánstíma, þótt enn sé töluverð óvissa um umferðarþróun og greiðsluvilja þeirra sem munu nýta sér göngin, en rukkað verður fyrir notkun þeirra. Umferðaraukning um Víkurskarð hafi verið 50 prósent meiri en spá frá 2011 gerði ráð fyrir og það bæti rekstrarhorfur. Í skýrslunni segir: „Ljóst er að gjaldskrá Vaðlaheiðarganga verður að vera talsvert hærri en í Hvalfirði til þess að endurheimtur lána að fullu séu raunhæfar, en gjaldskrá Hvalfjarðarganga hefur verið nánast óbreytt frá upphafi.“
Átti að vera aðlaðandi fyrir fjárfesta
Íslenska ríkið ákvað á árunum 2009 og 2010 að kanna að ráðist yrði í gerð Vaðlaheiðarganga í einkaframkvæmd. Leitað var til íslenskra lífeyrissjóða um að koma að fjármögnun verkefnisins en ekki náðist saman um slíkt. Því ákvað þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að verkefnið yrði fjármagnað af ríkissjóði til skamms tíma en síðar yrði leitað á almennan markað að langtímafjármögnun. Verkefnið átti að verða aðlaðandi fyrir fjárfesta m.a. vegna þess að fjármögnunin átti að verða rekstrarlega sjálfbær með innheimtu veggjalds.
Í júní 2012 samþykkti Alþingi svo lög um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Í þeim fólst að ríkissjóður gat lánað allt að 8,7 milljarða króna til verkefnisins, á því verðlagi sem var í lok árs 2011. Vextir á lánunum voru allt að 3,7 prósent og átti það fé að duga fyrir stofnkostnaði. Sérstakt félag var stofnað utan um framkvæmdina, Vaðlaheiðargöng ehf. Meirihlutaeigandi þess félags er Greið leið ehf. í eigu Akureyrarbæjar, fjárfestingarfélagsins KEA og Útgerðarfélags Akureyringa. Minnihlutaeigandi í félaginu er Vegagerðin. Gert var ráð fyrir að framkvæmdum yrði lokið í árslok 2016 og að gangagröftur myndi klárast í september 2015.
Mikil vandræði hafa hins vegar orðið á meðan að á framkvæmdinni hefur staðið vegna erfiðra jarðlaga og innrennsli á bæði heitu og köldu vatni. Betur hefur gengið að undanförnu og samkvæmt minnisblaði sem Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram í ríkisstjórn í apríl síðastliðnum var búið að klára um 97 prósent af greftri ganganna í lok mars.
Ríkisstjórn samþykkir frekari lánveitingar
Í mars var greint frá því að það vantaði umtalsvert fé til að klára gerð Vaðlaheiðarganga. Benedikt sagði þá að hann myndi beita sér fyrir því að ríkið myndi lána meira fé í framkvæmdina en að hann teldi ekki útilokað að eigendur Greiðrar leiðar kæmu að slíkri fjármögnun. Þeir höfnuðu því hins vegar algjörlega, en þeir hafa þegar lagt fram 236 milljónir króna í eigið fé inn í félagið.
Þess vegna ákvað ríkisstjórnin að ríkið myndi hækka lánsheimild Vaðlaheiðarganga um allt að 4,7 milljarða króna.