Gengissveiflur íslensku krónunnar eru nú farnar að valda töluverðum titringi í íslenska hagkerfinu, enn eina ferðina. Evran kostar nú 127 krónur en hún kostaði 110 krónur í júní. Veikingin hefur því verið þó nokkur að undanförnu, og það á mesta háannatíma í ferðaþjónustunni.
Innflæði magnar upp sveiflur
Eitt af þvi hefur verið að magna upp gengissveiflur að mati Agnars Tómasar Möllers, sjóðsstjóra hjá Gamma, eru höft á innflæði fjármagns. Þau gera það að verkum að erlendir fjárfestar koma ekki inn á skuldabréfamarkað, og það er að gerast á sama tíma og lífeyrissjóðirnir hafa verið að beina fjárfestingum sínum annað, meðal annars úr landi. Í viðtali við ViðskiptaMoggann í vikunni nefndi hann þetta sem eina af skýringunum á auknum sveiflum og óróleika þegar gengi krónunnar væri annars vegar. „Vonandi bregst Seðlabankinn við með skynsamlegum hætti og afnemur innflæðishöftin. Ef af yrði gæti krónan fundið jafnvægi og dregið yrði úr gengissveiflum,“ sagði hann meðal annars. Þar sem erlendir aðilar hafa nær eingöngu fjárfest í óverðtryggðum skuldabréfum hefur þessi þróun ásamt gengisveikingunni ýtt verulega upp verðbólguálagi á skuldabréfamarkaði undanfarið.
Seðlabankinn vill halda háum raunvöxtum
Ákvörðun Seðlabanka Íslands, um að halda meginvöxtum óbreyttum í 4,5 prósentum, var illa tekið í atvinnulífinu og segir í pistli á vef Samtaka atvinnulífsins að svo virðist sem bankinn sé staðráðinn í að halda raunvöxtum háum. „Seðlabankinn virðist staðráðinn í því að halda raunvaxtastiginu háu og eru meginrök fyrir óbreyttum vöxtum nú að raunvaxtastigið hafði lækkað. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að nú hefur verðbólga verið undir markmiði samfleytt í 42 mánuði og á sama tíma hefur Seðlabankinn kerfisbundið spáð meiri verðbólgu en raunin hefur orðið. Aðhald peningastefnunnar hefur því þegar reynst meira en upphaflega var lagt upp með. Þá hafa langtímaverðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði verið undir eða við markmið síðastaliðið ár. Ekki verður betur séð en að gengisveiking krónunnar sé meginskýringin að baki óbreyttu vaxtastigi þrátt fyrir að flestar undirliggjandi hagstærðir gefi tilefni til annars. Það er eðlilegt að spurt sé hvað gerist þegar góðærinu lýkur og efnahagsslaki myndast, krónan veikist og verðbólguhorfur versna - mun Seðlabankinn þá lækka vexti verulega? Það má efast um það,“ segir í pistlinum.
Spenna og breyttar horfur
Meginrök peningastefnuefndar fyrir ákvörðuninni eru þau, spenna sé í þjóðarbúskapnum og sem kalli á peningalegt aðhald. Þá séu blikur á lofti í hagkerfinu, meðal annars á húsnæðismarkaði. „Frá síðasta fundi peningastefnunefndar hafa skammtíma verðbólguvæntingar hækkað lítillega sem líklega endurspeglar að hluta áhrif lækkunar á gengi krónunnar að undanförnu. Verðbólguvæntingar til langs tíma hafa hins vegar lítið breyst sé miðað við nýlega könnun Seðlabankans á verðbólguvæntingum markaðsaðila. Lengri tíma verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur þó hækkað undanfarna daga en það sem af er þessum ársfjórðungi er það í ágætu samræmi við verðbólgumarkmið bankans.
Spenna í þjóðarbúskapnum kallar á peningalegt aðhald svo að tryggja megi verðstöðugleika til meðallangs tíma. Hræringar hafa verið á gjaldeyrismarkaði og vísbendingar eru um að breytingar gætu verið framundan í utanríkisviðskiptum og á húsnæðismarkaði. Of snemmt er að fullyrða um umfang og afleiðingar þeirra. Raunvextir bankans hafa lækkað lítillega frá síðasta fundi nefndarinnar en virðast við núverandi aðstæður samrýmast því sem þarf til að verðbólga verði að jafnaði við markmið. Aðhaldsstig peningastefnunnar á komandi misserum mun ráðast af framvindu efnahagsmála og annarri hagstjórn,“ segir í tilkynningu peningastefnunefndarinnar.
Óboðlegt
Samtök atvinnulífsins segja að það sé „óboðlegt“ fyrir heimili og fyrirtæki að fá þessa ákvörðun fram nú, um að halda vöxtum óbreyttum. „Með eina af hæstu raunvöxtum í heimi og innflæðishöft við lýði er verið að grafa undan efnahagslegu jafnvægi. Vaxta- og haftastefna Seðlabankans dregur úr fjárfestingu í landinu og hvata til nýsköpunar. Á sama tíma og lífeyrissjóðir og íslensk fyrirtæki og kjósa nú að fjárfesta erlendis eftir að hafa verið lokuð innan hafta í átta ár þá eru hömlur settar á erlenda fjárfestingu inn í landið. Það er óboðlegt fyrir fyrirtæki og heimili í landinu að halda stýrivöxtum óbreyttum.“