Stjórnvöld eru komin langt með að móta þær tillögur sem lagðar verða fram til að mæta stöðu sauðfjárbænda. Tillögurnar verða lagðar fram í þessari viku, líklega á fimmtudag. Þær munu, samkvæmt heimildum Kjarnans, snúa því að leysa þann bráðavanda sem felst í tugprósenta kjaraskerðingu til bænda og fela í sér umtalsverð útgjöld fyrir ríkissjóð verði tillögurnar samþykktar.
Þau útgjöld verða þó ekki nálægt þeim 1,9 milljarði króna sem Landssamtök sauðfjárbænda hafa sagt að þurfti til að bæta sauðfjárbændum upp tap þeirra vegna framleiðslu ársins 2017. Auk þess munu stjórnvöld setja fram skýrar forsendur fyrir þeim viðbótarútgjöldum. Þar skiptir mestu að sauðfjárbændur samþykki að takmarka framleiðslu til framtíðar þannig að offramleiðsla hætti. Það verður t.d. gert með því að stjórnvöld greiði aukalega fyrir ær sem verði slátrað í stað lamba, og þannig verði um 450 þúsund kindastofn landsins grisjaður.
Þá verður þess krafist að búvörusamningur sauðfjárbænda, sem gildir til tíu ára, var undirritaður í fyrra og afgreiddur af Alþingi skömmu fyrir þingkosningar, verði tekinn upp í ljósi þess að hann hefur innbyggðan hvata til að auka framleiðslu, ekki til að draga úr henni. Skýr krafa verður að hálfu stjórnvalda að það muni eiga sér stað hagræðing í sauðfjárrækt. Ef hægt verður að ná samkomulagi um hana þá eru stjórnvöld tilbúin að mæta t.d. þeim bændum sem muni hætta.
Hugmyndum um að stjórnvöld kaupi einfaldlega kjötfjallið sem eftir mun standa vegna offramleiðslu, eða að tekin verði aftur upp útflutningsskylda, hefur verið hafnað með öllu af ráðamönnum þjóðarinnar. Viðmælandi Kjarnans, sem stendur nærri viðræðunum, sagði: „Kerfið er galið. Það kallar alltaf eftir meira fjármagni.“ Í stað þess að taka á kerfi sem skili slíku óhagræði þá hafi tíðkast að borga einfaldlega þegar bændur komi að hausti og kalli eftir aukinni aðkomu ríkissjóðs. Það verði hins vegar ekki gert áfram.
Vilja útflutningsskyldu sem ríkið keypti fyrir nokkrum árum
Viðræður milli stjórnvalda og sauðfjárbænda um viðbrögð við fyrirsjáanlegum vandræðum greinarinnar í haust hafa staðið yfir frá því í mars. Heimildir Kjarnans herma að upphafleg krafa sauðfjárbænda hafi verið sú að útflutningsskylda yrði sett aftur á til að mæta þeirri stöðu sem óumflýjanlegt væri að bændur myndu verða í. Auk þess var kallað eftir auknu fjármagni í markaðsmál. Þessar kröfur hafa líka verið teknar upp á vettvangi atvinnuveganefndar. Hluti nefndarmanna, sem koma m.a. úr Sjálfstæðisflokknum, hafa talað fyrir þeim.
Stjórnvöld hafa hafnað báðum þessum leiðum. Viðmælendur sem eru nálægt viðræðunum segja að það sé mat ráðamanna að markaðsmál sauðfjárbænda séu í ákveðnum ólestri. Mörg hundruð milljónir króna af því fé sem komið hefur úr ríkissjóði í formi beingreiðslna til bænda hafi verið sett í markaðsmál án þess að það hafi skilað viðunandi árangri. Auk þess fengu sauðfjárbændur 100 milljónir króna á fjáraukalögum ársins 2016 í markaðsmál sem átti að nota til að koma í veg fyrir verðlækkun á lambakjöti hérlendis.
Útflutningsskylda var afnumin hérlendis fyrir tæpum áratug. Í henni fólst að sauðfjárbændur skuldbundu sig til að selja hluta af framleiðslu sinni á erlenda markaði og fengu sérstaklega greitt frá ríkinu fyrir það. Verðmiðinn sem greiddur var fyrir afnám hennar er tæpur hálfur milljarður króna á núvirði.
Það hefur líka haft áhrif á viðræðurnar að stjórnvöld telja talsmenn sauðfjárbænda ekki hafa getað lagt fram nægilega góðar hagtölur til að undirbyggja kröfur sínar. Þannig hafi umfang þess vanda sem þarf að taka á – offramleiðsla á lambakjöti – breyst ítrekað. Fyrst hafi verið talað um að offramleiðslan hafi verið á milli tvö til þrjú þúsund tonn en nú sé komið í ljós að birgðavandinn verði svipaður og undanfarin ár, eða um 1.200 tonn.
Afurðaverð lækkað um tugi prósenta
Vandinn nú er m.a. tilkomin vegna þess að ekki hefur verið hægt að selja lambakjöt til Noregs. Þar er ekki lengur eftirspurn eftir íslensku lambakjöti, en þangað áttu að fara um 600 tonn. Þá hefur viðskiptabann Rússa á íslenskar afurðir vegna stuðnings Íslendinga við efnahagsþvinganir Evrópusambandið á landið út af stöðunni á Krímskaga líka haft áhrif.
Ráðamenn líta þó fyrst og síðast þannig á málið að um kerfisvanda sé að ræða. Afurðaverð til bænda var lækkað um tíu prósent árið 2016 og nú sé það lækkað um 35 prósent í viðbót. Það skapi sannarlega bráðavanda sem þurfi að takast á við en ekki sé hægt að gera það nema að fyrir liggi vilji til að breyta kerfinu þannig að þessi staða hætti að koma upp. Það geri ekkert gagn að borga bara þá upphæð sem beðið sé um árlega umfram skipulagðar greiðslur samkvæmt búvörusamningi ef ekki verði ráðist í breytingar á kerfinu á móti.
Tíu ára búvörusamningur undirritaður í fyrra
Þær breytingar sem mest áhersla er lögð á að koma í gegn eru meðal annars fækkun afurðastöðva, sem séu of margar og reknar í miklu tapi. Engin vitræn ástæða sé fyrir því að sameina þær ekki í hagræðingarskyni. Grisja þurfi stofninn og fækka býlum sem stundi sauðfjárrækt. Og taka þurfi upp búvörusamninginn sem undirritaður var í fyrra af Sigurði Inga Jóhannssyni og Bjarna Benediktssyni, fyrir hönd ríkisins, og samþykktur á Alþingi skömmu fyrir kosningar. Hann gildir til tíu ára og hefur innbyggðan hvata til aukinnar framleiðslu. Vandamálið við samninginn er hins vegar sá að einungis bændur geta breytt honum. Þ.e. þeir verða að samþykkja allar breytingar í atkvæðagreiðslu. Þannig er breytingarvaldið alfarið hjá öðrum samningsaðilum.
Takist að ná saman um hagræðingu og breytingar á búvörusamningi eru stjórnvöld tilbúin að mæta þeim bráðavanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir, og þeir meta sjálfir sem 56 prósent launalækkun milli ára. Þriggja manna nefnd frá forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti mun kynna tillögur þar um í þessari viku, líklega á fimmtudag. Þær verða fyrst kynntar í ríkisstjórn og fara þaðan til sauðfjárbænda sem þurfa að taka afstöðu til þeirra.