Eitt myndrit: Kjötframleiðsla á Íslandi
Jafnvel þó kindakjötneysla hafi dregist saman á síðustu áratugum hefur framleiðslan aukist.
Laun sauðfjárbænda stefna í að verða 56 prósent lægri á þessu ári en í fyrra og nánast öll sauðfjárbú verða rekin með tapi. Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, lýsir þessu í bréfi sem hún sendi Alþingismönnum um miðjan síðasta mánuð.
Það myndi kosta íslensk stjórnvöld tæplega 1.859 milljónir króna að bæta sauðfjárbændum tap þeirra vegna sauðfjárræktunarinnar, eins og Landsamtök sauðfjárbænda hafa farið fram á.
Fjallað var ítarlega um málið í fréttaskýringu í Kjarnanum á dögunum.
„Þessi staða er grafalvarleg eins og bændur hafa ítrekað bent á. Margra mánaða viðræður við stjórnvöld hafa hins vegar litlu skilað. Landssamtök sauðfjárbænda telja því einsýnt að bændur og Alþingi taki höndum saman og bregðist við þessum bráðavanda án tafar,“ segir í bréfi Oddnýjar Steinu.
Stjórnvöld eru langt komin með að móta þær tillögur sem lagðar verða fram til að mæta stöðu sauðfjárbænda. Þær munu, samkvæmt heimildum Kjarnans, snúa því að leysa þann bráðavanda sem felst í tugprósenta kjaraskerðingu til bænda og fela í sér umtalsverð útgjöld fyrir ríkissjóð verði tillögurnar samþykktar.
Nær öll framleiðsla kindakjöts fer fram á haustin, lang mest í september og október. Þá þegar hafa bændur tekið á sig kostnaðinn við ræktun sauðfésins. Framleiðsla annarra kjötflokka, svo sem svínum, alifuglum, kálfum, nautum og kúm er jafnari yfir allt árið, og skammtarnir minni í hvert sinn.
Neysla kindakjöts hefur minnkað nokkuð á síðustu áratugum. Árið 2015 – sem eru nýjustu aðgengilegu tölur Hagstofu Íslands – neytti hver Íslendingur að jafnaði um 19,5 kílóum af kindakjöti. Mest neyttu Íslendingar af alifuglakjöti, eða um 27,6 kílóum að jafnaði. Næst mest neyttu Íslendingar af svínakjöti, eða 14,1 kíló að jafnaði.
Kjötneysla í kílógrömmum eftir tegund á hvern Íslending 1983-2015
Smelltu á kjötflokkana til þess að fela og birta línurnar.
Á sama tíma og neysla kindakjöts á hvern íbúa hefur dregist saman, hefur framleiðslan aukist talsvert á undanförnum árum. Magn framleidds kindakjöts fór aftur upp fyrir 10 þúsund tonn árið 2014, í fyrsta sinn síðan 1988 þegar meðalneysla kindakjöts á hvern Íslending var 33,2 kíló.
Framleiðsla annarra kjötflokka hefur einnig aukist. Þar er helst að nefna svínakjöt og alifuglakjöt sem meira er framleitt af í takt við eftirspurn og neyslu.
Kjötframleiðsla í tonnum eftir tegundum 1983-2015
Smelltu á kjötflokkana til þess að fela og birta línurnar.
Ef tölum um heildarneyslu og heildarframleiðslu er umbreytt í vísitölur, þe. hlutfall miðað við framleiðslu og neyslu árið 1983 sést glögglega að þróun kindakjötframleiðslunar er ekki í jöfnum takti við neyslu þessarar landbúnaðar.
Vísitölur heildarframleiðslu og heildarneyslu kindakjöts bornar saman
Smelltu á kjötflokkana til þess að fela og birta línurnar.
Sé heildarneyslu- og heildarframleiðslutölum annarra landbúnaðarafurða umbreytt á sama hátt má sjá mun eðlilegra samband eftirspurnar og framleiðslu/framboðs. Hér að neðan hefur verið búin til vísitala úr neyslu- og framleiðslutölum alifuglakjöts og svínakjöts.
Eins og sjá má er augljós fylgni milli framleiðslubreytinga og neyslubreytinga, jafnvel þó aukning í neyslu svína- og alifuglakjöts sé meiri en í framleiðslu þessara tegunda.
Vísitölur heildarframleiðslu og heildarneyslu alifuglakjöts og svínakjöts bornar saman
Smelltu á kjötflokkana til þess að fela og birta línurnar.
Í upphaflegri útgáfu vísitölumyndritanna voru vísitölur heildarframleiðslu bornar saman við vísitölur neyslu á íbúa á hverju ári. Réttari framsetning er nú hér í birtingu og myndritin skýrð nánar. Niðurstaðan er á endanum sú sama: Framleiðslubreytingar kindakjöts haldast ekki í hendur við neyslubreytingar kindakjöts, ólíkt því sem greina má á neyslu og framleiðslu alifuglakjöts og svínakjöts.