Tillögur stjórnvalda vegna yfirstandandi erfiðleika í sauðfjárrækt munu kosta ríkissjóð um 650 milljónir króna, komi þær til framkvæmda. Samkvæmt þeim verður gripið til umfangsmikilla aðgerða til að draga úr framleiðslu kindakjöts og fækka um leið fé um 20 prósent. Þeir bændur sem hætta sauðfjárframleiðslu munu geta haldið 90 prósent af greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í fimm ár og gripið verður til sértækra aðgerða til að draga úr yfirvofandi kjaraskerðingu bænda. Á móti verður þess krafist að búvörusamningur sauðfjárbænda, sem var undirritaður í fyrra og gildir til tíu ára, verði endurskoðaður.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagði fram minnisblað um tillögurnar í ríkisstjórnarfundi 18. ágúst síðastliðinn. Sama dag voru þær kynntar á hitafundi í atvinnuveganefnd Alþingis. Í kjölfarið ákvað ríkisstjórnin að fela fulltrúum þriggja ráðuneyta að útfæra hugmyndirnar frekar, meðal annars í samráði við forystu Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda. Tillögurnar voru svo birtar opinberlega í dag.
Meta tap sitt á 1,9 milljarða
Kjarninn greindi frá meginuppistöðunum í tillögunum í fréttaskýringu í síðustu viku. Þar kom fram að þau útgjöld sem ríkið ætlaði að leggja út í til að mæta bráðavanda sauðfjárbænda vegna þess að afurðarstöðvar hafa tilkynnt þeim að verð fyrir lambakjöt muni lækka um 35 prósent. Sú lækkun kemur ofan á tíu prósent lækkun sem átti sér stað í fyrra. Ástæðan er offramleiðsla. Mun meira er framleitt en eftirspurn er eftir. Umfangið er talið vera um 1.200 tonn. Þetta leiðir til þess að laun sauðfjárbænda stefna í að verða 56 prósent lægri á þessu ári en í fyrra og nánast öll sauðfjárbú verða rekin með tapi. Sömu sögu er að segja með afurðarstöðvar.
Þau útgjöld sem samþykkt hefur verið að ráðast í verða þó ekki nálægt þeim 1,9 milljarði króna sem Landssamtök sauðfjárbænda hafa sagt að þurfti til að bæta sauðfjárbændum upp tap þeirra vegna framleiðslu ársins 2017. Ekkert er um endurupptöku útflutningsskyldu í tillögunum, en háværar kröfur hafa verið um að slík verði tekin aftur upp. Útflutningsskyldan var aflögð 2009 eftir að ríkið keypti hana af bændum.
Fé verði fækkað um 20 prósent
Verði tillögurnar samþykktar þá verður ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að draga úr framleiðslu á kindakjöti. Markmiðið með þeim aðgerðum er að fé verði fækkað um 20 prósent með því að gefa bændum kost á því að hætta sauðfjárframleiðslu en halda 90 prósent greiðslum samkvæmt sauðfjársamningi í fimm ár, 2018-2022. Fé er í dag um 450 þúsund. Val verður um hvort greiðslan yrði greidd í formi eingreiðslu eða með jöfnum greiðslum á fimm ára tímabili. Þá segir í tillögunum að þeir eigi kost á greiðslu sláturálags „sem taka ákvörðun um fækkun að lágmarki um 50 kindur haustið 2017. Þeir sem ákveða að nýta sér þessi úrræði geri um það samninga. Matvælastofnun verði falið að annast gerð þeirra. Þeir sem kjósa að hætta á árinu 2018 geta gert samskonar samninga en eiga þá kost á 70 prósent greiðslum skv. framangreindu í þrjú ár, 2019-2021. Skal sú ákvörðun liggja fyrir eigi síðar en 1. júlí 2018.“
Ríkissjóður er tilbúinn að greiða fjögur þúsund króna sláturálag á ær sem koma til slátrunar í haust og það framlag yrði fjármagnað með framlagi á fjáraukalögum. Kostnaður ríkissjóðs við það yrði um 250 milljónir króna. Ekki verður greitt þetta álag eftir að komandi sláturtíð lýkur. „Styrkur verði greiddur að hámarki fyrir 62.500 ær. Verði óskað eftir sláturálagi á fleiri ær gildi reglan fyrstur kemur fyrstur fær. Þó skuli þeir njóta forgangs sem taka ákvörðun um að hætta sauðfjárbúskap alfarið.“
Þeir framleiðendur sem gera samninga um að hætta skuldbinda sig til að taka ekki upp sauðfjárframleiðslu að nýju á gildistíma núverandi sauðfjársamnings. Þeir sem gera samninga um fækkun skuldbinda sig til að auka ekki framleiðslu sína á gildistíma núverandi sauðfjársamnings. Kvöðin verði bundin við framleiðanda og tengda aðila.
Sérstakir styrkir til bænda í dreifbýli
Þá á einnig að ráðast í aðgerðir til að draga úr yfirvofandi kjaraskerðingu sauðfjárbænda. Þær fela m.a. í sér greiðslur upp á samtals 250 milljónir króna úr ríkissjóði til allra þeirra bænda sem eru með fleiri en 150 vetrarfóðraðar kindur.
Auk þess verður ráðist í svæðisbundinn stuðning sem fer fyrst og frest til þeirra bænda sem eiga erfitt með að sækja atvinnu utan búsins vegna fjarlægðar frá þéttbýli. Ríkissjóður leggur 150 milljónir króna í þetta verkefni samkvæmt tillögunum.
Allar ofangreindar greiðslur, samtals 650 milljónir króna, koma til viðbótar beingreiðslum úr ríkissjóði til sauðfjárbænda, sem samþykktar voru með undirritun og staðfestingu búvörusamnings í fyrra. Þær eiga að skila sauðfjárbændum 47 milljörðum króna á tíu ára tímabili, eða um 4,7 milljörðum króna að meðaltali á ári. Auk þess fengu sauðfjárbændur 100 milljónir króna á fjáraukalögum ársins 2016 í markaðsmál sem átti að nota til að koma í veg fyrir verðlækkun á lambakjöti hérlendis.