Þær fréttir berast að Rio Tinto vilji selja álver sitt í Straumsvík. Ásamt tveimur öðrum álverum. Hér verður athyglinni beint að stöðu áliðnaðarins í dag og því hver gæti séð tækifæri í því að eignast Straumsvíkurverið.
Mikilvægasti viðskiptavinur Landsvirkjunar
Þó svo álverið í Straumsvík sé nú minnsta álverið á Íslandi er Straumsvíkurverið geysilega mikilvægur viðskiptavinur fyrir Landsvirkjun. Álverið notar um fjórðung af allri þeirri raforku sem Landsvirkjun framleiðir en skilar Landsvirkjun um þriðjungi af öllum sölutekjum fyrirtækisins. Þar með má segja að álverið í Straumsvík sé mikilvægasti viðskiptavinur Landsvirkjunar.
Núgildandi raforkusamningur álversins og Landsvirkjunar gildir til 2036, en endurskoðunarákvæði um raforkuverðið verður virkt 2024. Straumsvíkurverið er nú að greiða langhæsta orkuverðið af öllum álverunum hér, enda með nýjasta samninginn (nýr samningur Landsvirkjunar og Norðuráls verður ekki virkur fyrr en 2019). Raforkuverðið sem Straumsvíkurverið greiðir er samt ekkert mjög hátt í alþjóðlegu samhengi.
Ekki er vitað hvort móðurfyrirtækið Rio Tinto ber ábyrgð á því að staðið sé við raforkusamning álversins á gildistíma samningsins. Sá sem þetta skrifar álítur líklegt að slík móðurfélagsábyrgð sé fyrir hendi, en ef svo er ekki gæti gjaldþrot álversins orðið mikið áfall fyrir Landsvirkjun. Slíkt gjaldþrot er vel að merkja ekki yfirvofandi; álverð yrði að verða mjög lágt talsvert lengi til að slík hætta myndi skapast.
Offramboð og óvissa
Með mikilli aukningu á álframleiðslu í Kína (sbr. grafið hér í lok greinarinnar) hefur myndast offramboð af áli og vestræni áliðnaðurinn haft vaxandi áhyggjur af álútflutningi frá Kína (og fengið stuðning frá Trump Bandaríkjaforseta). Undanfarin misseri hefur álverð engu að síður farið hækkandi. Það bendir til þess að farið sé að draga úr því mikla offramboði sem var fyrir fáeinum árum. Staðan er þó viðkvæm vegna verulegra álbirgða í Kína, offjárfestingar þar í álverum og sífelldrar hættu á offramboði.
Kínverski áliðnaðurinn hefur ekki aðeins vaxið mjög hratt á örskömmum tíma, heldur starfa álbræðslurnar þar í afar sérkennilegu umhverfi sem er mjög háð miðstýrðri ákvarðanatöku kínverskra stjórnvalda hverju sinni. Fyrir vikið er í reynd ómögulegt að sjá fyrir verðþróun á áli. Jafnvel þó svo álfyrirtækjum á Vesturlöndum hafi mörgum gengið vel undanfarið að skera niður kostnað og ná að aðlaga sig að breyttu rekstrarumhverfi, er offramboð frá Kína sífellt yfirvofandi.
Þessi staða hefur gert það að verkum að undanfarið hafa sum álfyrirtæki á Vesturlöndum stefnt að því að losna við álver og draga þannig úr áhættu sinni. Þetta á sennilega hvað helst við um BHP Billiton (South32) og Rio Tinto, en þessa stefnu má líka greina hjá Alcoa. Á allra síðustu mánuðum virðist þó sem bjartsýni í vestræna áliðnaðinum hafi heldur aukist og því kemur ákvörðun Rio Tinto núna svolítið á óvart.
Eignast Glencore Straumsvíkurverið?
Þó svo þróunin á álmarkaði sé óviss um þessar mundir, einkum vegna áhrifa Kína, er staðan núna þó vafalítið talsvert betri en var fyrir u.þ.b. tveimur árum. Þess vegna er vissulega mögulegt að kaupandi finnist að Straumsvíkurverinu. Þar er þó varla um auðugan garð að gresja, enda erfitt að ná viðunandi arði út úr rekstri álversins nema að það sé í eigu stórfyrirtækis sem ræður yfir allri virðiskeðju áliðnaðarins. Fyrir vikið virðist líklegast að kaupandi álversins yrði eitthvert af stóru álfyrirtækjunum, en hvort það yrði t.a.m. norska Hydro eða rússneska Rusal skal ekkert fullyrt um.
Einnig er vert að hafa í huga að undanfarið hafa birst fréttir um möguleg kaup hrávörurisans Glencore og álfyrirtækisins Century Aluminum á álverum Rio Tinto í Ástralíu og á Nýja Sjálandi. Kannski er Rio Tinto áhugasamt um að þar fylgi enn eitt álverið með í kaupunum, þ.e. álver þeirra í Straumsvík á Íslandi. Þar með yrði Century stærsti álframleiðandi á Íslandi, í samstarfi við aðaleiganda sinn; gullmylluna Glencore. En allt eru þetta vangaveltur.
Tækifæri fyrir Kína?
Í dag eru einungis tvö vestræn álfyrirtæki í hópi fimm stærstu álfyrirtækja í heimi; í þessum ljúfa hópi eru rússneska Rusal og ástralska/breska Rio Tinto ásamt kínversku álrisunum Chalco, Hongqiao og Xinfa. Þetta er gjörbreyting frá því sem var fyrir einungis um áratug, þegar kínverski áliðnaðurinn var langt að baki vestrænu álfyrirtækjunum. Loks ber að hafa í huga að Persaflóaríkin hafa verið mjög vaxandi álframleiðandi.
Alkunna er að kínversku álfyrirtækin eiga mjög náið samstarf við bæði kínversk stjórnvöld og kínverska risabanka (sem oft eru ríkisbankar). Kínversku fyrirtækin hafa verið órög við að tryggja kínverska hagsmuni með margvíslegum strategískum kaupum í áliðnaði utan Kína. Nú síðast var það einmitt Chalco sem ásamt kínverskum orkufyrirtækjum tilkynnti um viðskipti upp á tugi milljarða bandaríkjadala í Gíneu í vestanverðri Afríku. Þar eru kínversku fyrirtækin m.a. að taka yfir báxítverkefni sem ástralska BHP Billiton þótti ekki nógu arðbært. Hver veit nema það verði einmitt kínverskt álfyrirtæki sem sjái tækifæri í Straumsvík?
Óbreytt eignarhald mögulegt
Sá sem þetta skrifar er þó ekki að spá því að kínverskt fyrirtæki eignist álverið í Straumsvík. Það er reyndar svo að ef álverð helst áfram nálægt því sem nú er, er fátt því til fyrirstöðu að ágætt verði fyrir Rio Tinto að eiga Straumsvíkurverið áfram. Þ.a. niðurstaðan gæti orðið sú að engin breyting verði á eignarhaldinu.
En allt minnir þetta okkur á það hversu mikilvægt er að stóriðjufyrirtæki á Íslandi séu með öflugan eiganda, sem getur ábyrgst risavaxin raforkukaupin til langs tíma. Því miður er nýlega til kominn kísiliðnaður hér ekki með neitt slíkt að baki sér. Sem kann að vera áhyggjuefni.