Myndrit: Fjöldi innflytjenda á Íslandi og í OECD
Hlutfall fólks með erlendan uppruna er um 13 prósent af íbúafjölda Íslands.
Útlendingamál hafa verið ofarlega á baugi í samfélagsumræðunni Á Íslandi undanfarin misseri. Tvær ástæður búa þar að baki, öðrum fremur: Aldrei hefur fjöldi flóttamanna í heiminum verið jafn mikill og margar þjóðir heims hafa þess vegna ákveðið að taka á móti fleiri flóttamönnum og heimila fleiri innflytjendum að setjast að.
Hin ástæðan er svo að hér á landi, eins og víða annarstaðar, býr fólk sem er ekki hlynnt því að stjórnvöld taki á móti fleira fólki í neyð eða leyfi frekari innflutning fólks af öðrum ástæðum. Sumir telja jafnvel Ísland taka á móti of mörgum flóttamönnum.
Fjöldi innflytjenda á ári til valinna landa
Myndritið sýnir fjölda skráðra innflytjenda á ári. Smelltu á landamerkingarnar til þess að fela og birta línurnar
Sé fjöldi innflytjenda á ári hér á landi borinn saman við fjölda innflytjenda í völdum löndum OECD, nánar tiltekið Norðurlöndin, Þýskaland og Bretland, sést að Ísland tók á móti fæstum flóttamönnum árið 2015 ef Slóvakía er undanskilin. Á árunum 2002 til 2012 vermdi Ísland neðsta sæti listans meðal OECD-ríkjanna.
Það er auðvitað ósanngjarn samanburður, að bera lítið eyríki saman við stærstu iðnveldi heims. Það verður þess vegna að leiðrétta samanburðinn í þessum efnum með einhverjum ráðum.
Verg landsframleiðsleiðsla á ári eftir völdum löndum, kaupmáttarjöfnuð
Smelltu á landamerkingarnar til þess að fela og birta línurnar. Allar tölur eru í Bandaríkjadollurum.
Hér verður Ísland borið saman við valin OECD-ríki með því að skoða fjölda innflytjenda sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hugsunin er sú að með auknum efnahagsvexti sé efnahagslegt rými til þess að taka á móti fleiri innflytjendum, flóttafólki eða hælisleitendum.
Hér að neðan hefur hlutfallinu verið breytt í vísitölu þar sem árið 2002 er grunnur. Greinilega má sjá að í efnahagsuppsveiflunni sem náði hámarki árið 2007 að fjöldi innflytjenda jókst ekki í takt við efnahagssveifluna. Þá hefur Íslandi ekki tekist að ná aftur sama „jöfnuði“ efnahags og fjölda innflytjenda og árið 2002.
Vísitala fjölda innflytjenda miðað við landsframleiðslu
Myndritið sýnir breytingu á fjölda innflytjenda á ári miðað við kaupmáttarjafnaða landsframleiðslu á ári þar sem 2002 er grunnur. Smelltu á landamerkingarnar til þess að fela og birta línurnar.
Hlutfall fólks með erlendan uppruna af íbúafjölda á Íslandi var í upp hafi ársins 2017 12,8 prósent. Hlutfallslegur fjöldi fólks sem er af erlendu bergi brotið hefur aukist jafnt og þétt á Íslandi á undanförnum árum. Hagstofan hefur tekið þessar tölur saman.
Uppruni íbúa á Íslandi eftir árum
Myndritið sýnir hlutfallslegan fjölda íbúa á Íslandi eftir uppruna..
Samkvæmt umfjöllun Hagstofunnar síðan í október í fyrra þá er innflytjandi og önnur kynslóð innflytjenda skilgreind svo í gagnasafninu: „Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar hans og báðar ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent. Einstaklingur sem fæddist erlendis en á foreldra sem báðir eru fæddir hér á landi telst einnig hafa erlendan bakgrunn.“