„Meginverkefni ríkisstjórnar og Alþingis á næsta ári er að varðveita þann góða árangur í efnahagsmálum sem náðst hefur á undanförnum misserum.“ Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ársins 2017. Það endurspeglar það sjónarmið ríkisstjórnarinnar að í efnahagslegu tilliti sé staðan hér mjög góð, og að henni megi lítið raska. Þess vegna er lítið um stefnubreytingar, og hvað þá kúvendingar, í þessu fyrsta fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Bjarna Benediktsson, sem Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsmálaráðherra, kynnti í morgun.
Stóru tíðindin eru annars vegar þau að hafist verður handa við byggingu nýs Landsspítala á seinni hluta næsta árs og að heitið sé 2,8 milljörðum króna í það verkefni. Hins vegar hefur fyrirhugaðri hækkun á virðisaukaskatti í ferðaþjónustu verið frestað vegna þess að ferðaþjónustugeirinn gagnrýndi hana harðlega. Nú verður skatturinn hækkaður 1. janúar 2019 í stað þess að hækka um mitt næsta ár. Við þetta lækka tekjur ríkissjóðs á árinu 2018 um níu milljarða króna. Með öðrum orðum verða níu milljarðar króna, sem annars hefðu farið til ríkissjóðs, áfram hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu.
Útgjöld eru aukin um 4,1 prósent á milli ára. Þar munar langmest um að útgjöld vegna heilbrigðis- og velferðarmála hækka um 17,6 milljarða króna, eða 4,4 prósent.
Veiðigjöld verða tíu milljarðar
Á tekjuhliðinni er fátt sem kemur mikið á óvart. Gert er ráð fyrir því að veiðigjöld verði um tíu milljarðar króna, en þau voru 6,4 milljarðar króna í ár. Sjávarútvegurinn þarf því að greiða 3,6 milljörðum krónum meira í samneysluna á næsta ári að óbreyttu.
Áætlaðar arðgreiðslur og hlutdeild í tekjum ríkisfyrirtækja eru áætlaðar 18,7 milljarðar króna. Það er umtalsvert minna en í ár og skýrist það að mestu vegna þess að að áætlaðar arðgreiðslur banka í ríkiseigu munu verða lægri. Alls lækkar sá liður um 21 milljarð króna.
Áætlaður afgangur af rekstri ríkissjóðs er 44 milljarðar króna.
Tekjur til velferðarmála aukast um 31,3 milljarða
Á útgjaldahliðinni eru helstu tíðindin að framlög til velferðarmála eru aukin verulega. Alls verða framlög til heilbrigðismála 208 milljarðar króna á árinu 2018, eða 13,5 milljörðum krónum meiri en í ár. Það er aukning upp á 6,9 prósent.
Mestu munar um 2,8 milljarða króna framlag til þess að hefja byggingu á nýjum Landsspítala við Hringbraut. Þá munu um 200 milljónir króna fara í rekstur jáeindaskanna sem Íslensk erfðagreining gaf Landsspítalanum fyrir nokkru síðan. Framlög til sjúkrahússþjónustu, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu og til kaupa á lyfjum og læknavöru hækka öll.
Þá munu framlög til félagsmála hækka um 17,8 milljarða króna. Þar skiptir mestu að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbóta hækka um 4,7 prósent um komandi áramót og að framfærsluviðmið lífeyrisþega sem búa einir verður fært úr 280 þúsund króna í 300 þúsund krónur, sem er aukning um sjö prósent. Alls nemur aukning útgjalda vegna almannatrygginga 12,5 milljörðum króna.
Þá á að hækka hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði úr 500 þúsund krónum í 520 þúsund krónur. Stefnt er að því að þær fari í 600 þúsund krónur árið 2020. Hámarksgreiðslur voru hækkaðar úr 370 þúsund krónur í 500 þúsund krónur í október í fyrra. Þær munu því hafa hækkað um 40 prósent á rúmu ári þegar nýja hækkunin tekur gildi um næstu áramót. Alls mun ríkissjóður greiða 11,6 milljarða króna í kostnað vegna fæðingarorlofs á næsta ári, sem er 1,2 milljarði krónum meira en áætlað er að hann greiði til málaflokksins í ár.
Þá er ótalið mikið hitamál, rekstrarframlög til útlendingamála. Þau verða 3,7 milljarðar króna á næsta ári, en sá liður var ekki til staðar á fjárlögum ársins 2017. Í nýbirtu uppgjöri ríkissjóðs fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2017 kemur fram hins vegar fram að hrein útgjöld vegna réttinda einstaklinga hafi verið 2,2 milljarðar króna sem var 1.251 milljónum meira en áætlað var. Þar segir: „Í fjárheimildum vegna ársins 2017 voru verulega vanáætlaðar í fjárlagagerð fyrir árið 2017 í ljósi fordæmalausrar fjölgunar hælisumsókna á síðustu mánuðum ársins 2016. Kostnaður vegna þessara umsókna hefur að mestu leyti fallið til á yfirstandandi ári.“
Þá verða vextir af lánum áfram stór hluti af útgjöldum ríkissjóðs, eða 73 milljarðar króna á árinu 2018. Hinn umtalsverði afgangur sem er áætlaður af rekstri ríkissjóðs á næsta ári, 44 milljarðar króna, mun verða ráðstafað til niðurgreiðslu skulda og lækka þar með vaxtakostnað ríkisins.