Íslendingar áttu 32,2 milljarða króna í beinni fjármunaeign á hinu þekkta lágskattasvæði Bresku Jómfrúareyjunum í lok árs 2015. Um síðustu áramót var eign þeirra þar krónur núll. Þetta kemur fram í nýjum tölum Seðlabanka Íslands um beina fjármunaeign Íslendinga erlendis.
Í tölunum kemur fram að eignir Íslendinga utan heimalandsins hafi dregist mikið saman á árinu 2016. Þar leikur mikil styrking krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum ákveðið hlutverki en króna styrktist um 12 prósent gagnvart Bandaríkjadal, um 16 prósent gagnvart evru og heil 27 prósent gagnvart breska pundinu á árinu 2016. Gengisstyrkingin útskýrir þó ekki samdrátt á beinni fjármunaeign Íslendinga erlendis að næstum því öllu leyti því hún dróst saman um þriðjung í fyrra og fór úr 990 milljörðum króna í 664 milljarða króna. Það bendir til þess að Íslendingar hafi verið að flytja fé heim á árinu 2016 samhliða því að fjármagnshöft sem höfðu verið í gildi frá árinu 2008 voru losuð umtalsvert.
Íslendingar hafa ekki átt jafn lítið af fjármunaeignum, í krónum talið, í útlöndum frá árinu 2005. Fjármunaeign Íslendinga erlendis hefur raunar verið að dragast saman á undanförnum árum í krónum talið. Þar hefur áhrif að fallandi gengi krónu eftir bankahrunið 2008 hafði mikið áhrif á eignina til hækkunar. Mestar voru þær tæplega 1.600 milljarðar króna í lok árs 2012 þegar krónan var enn afar veik. Umfang beinnar fjármunaeignar Íslendinga erlendis hafði þá 6,5 faldast í krónum talið frá árinu 2004, þegar þjóðin átti um 245 milljarða króna af beinum eignum í öðrum löndum.
14 prósent eigna „óflokkaðar“
Skráningu á erlendri fjármunaeign Íslendinga var breytt fyrir nokkrum árum síðan. Nú eru gefnar upplýsingar um eign í færri löndum en áður en flokkurinn „óflokkað“ hefur stækkað. Áður var hægt að sjá til að mynda hver bein fjármunaeign Íslendinga er á Cayman-eyjum, Mön, Jersey, Guernsey og Máritíus. Það er ekki hægt lengur. Alls áttu Íslendingar „óflokkaðar“ eignir upp á 91,8 milljarða króna um síðustu áramót. Það þýðir að um 14 prósent af öllum eignum Íslendinga erlendis voru „óflokkaðar“.
Sem fyrr er mest af íslenskum eignum vistaðar í Hollandi, eða 282, 8 milljarðar króna. 105 milljarðar króna voru í Bretlandi en eignir Íslendinga þar helminguðust á milli ára í krónum talið. Þar skiptir ugglaust mestu máli að krónan hefur styrkst mikið á sama tíma og breska pundið hefur veikst. Þá eru 62 milljarðar króna vistaðir á Kýpur og 32,7 milljarðar króna í Lúxemborg.
Íslendingar stórtækir í aflandsfélagaeign
Erlend fjármunaeign Íslendinga var mjög í kastljósi heimsins í fyrra í kjölfar frétta úr gagnaleka frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca sem gerður var opinber í apríl 2016. Í þeim kom fram að um 600 Íslendingar tengist um 800 aflandsfélögum sem koma fram í skjölunum. Fyrir liggur að mestu er um að ræða viðskiptavini Landsbanka Íslands sem stunduðu aflandsviðskipti. Ekki liggur fyrir hvaða milligönguliði Kaupþing og Glitnir notuðu, en samkvæmt viðmælendum Kjarnans sem þekktu vel til í starfsemi íslensku bankanna fyrir hrun er ljóst að fjöldi aflandsfélaga sem stofnuð voru fyrir íslenska viðskiptavini eru mörg þúsund talsins.
Á meðal þeirra Íslendinga sem koma fram í gögnunum, og eru með tengsl við aflandsfélög, eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, núverandi forsætisráðherra , Ólöf Nordal heitin og nokkrir stjórnmálamenn af sveitarstjórnarstiginu.
Í Panamaskjölunum var einnig að finna stjórnendur úr lífeyrissjóðakerfinu og fjölmarga einstaklinga sem hafa verið áberandi í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum. Þar á meðal voru Jón Ásgeir Jóhannesson, Ingibjörg Pálmadóttir, Lýður og Ágúst Guðmundssynir, Finnur Ingólfsson, Sigurður Bollason, Hannes Smárason, Björgólfur Thor Björgólfsson ofl. Hluti þessa hóps er skráður með lögheimili erlendis.
Eignir útlendinga á Íslandi vaxa
Bein fjármunaeign erlendra aðila á Íslandi vex milli ára og er nú 1.099 milljarðar króna. Hún hefur ekki verið hærri síðan árið 2012, þegar íslenska krónan var mjög veik.
Eignarhaldið á þeim eignum er nær einvörðungu í gegnum Lúxemborg þar sem 920 milljarðar króna eru skráðir. Um 113 milljarðar króna eignir hérlendis eru skráðir í eigu hollenskra aðila og 85 milljarðar eru skráðir í eigu svissneskra aðila. Öll þessi þrjú lönd hafa verið mikið nýtt af íslenskum fjárfestum vegna skattahagræðis og bankaleyndar og því er hægt að slá því föstu að hluti þessara eigna séu raunverulega í eigu í eigu íslenskra fjárfesta, ekki erlendra.
móti er eign bandarískra fjárfesta hérlendis neikvæð um 316 milljarða króna. Þar er um að ræða skuld íslenskra dótturfélaga við bandarísk móðurfélög.