Bandaríska tölvufyrirtækið Apple kynnti þrjá nýja snjallsíma, nýtt snjallúr og uppfært sjónvarpsbox á árlegum haustviðburði sínum í gær. Þrátt fyrir að allt það markverðasta hafi lekið út fyrir kynninguna þá var eftirvæntingin talsverð.
Kynningin var sú fyrsta sem haldin hefur verið í Steve Jobs Theater, nýju 1000 sæta neðanjarðarsal sem stendur við nýjar höfuðstöðvar Apple í Kaliforníu í Bandaríkjunum.
Apple gengur lengra
Það sem stendur upp úr eftir kynninguna er vafalaust nýr og endurhannaður iPhone X (rómverska talan 10, ekki bókstafurinn X). Apple fylgir í fótspor keppinautanna Samsung og LG með því að minnka rammann utan um skjáinn. Apple gengur í raun talsvert lengra því síminn er nánast algjörlega rammalaus fyrir utan agnarsmáa rönd efst á símanum.
iPhone X er búinn 5,8 tommu AMOLED-skjá framleiddum af Samsung í upplausn sem Apple kallar Super Retina. Stálrammi er umvafinn gleri bæði á framhlið og bakhlið. Enginn heim-hnappur er á símanum eða fingrafaralesari. Í staðinn er símanum aflæst með Face ID, nýrri öryggistækni sem leysir fingrafarlesarann af hólmi. Apple lofar að þessi tækni sé margfalt betri og öruggari en fingrafaralesarinn. Það gekk þó ekki betur en svo að þegar Craig Federighi, framkvæmdastjóri hugbúnaðarþróunar Apple, var að sýna símann þá náði hann ekki að aflæsa símanum í fyrstu tilraun. Mistök sem þessi hafa verið nánast óþekkt í kynningum Apple.
Eins og í iPhone 7 Plus (stærri gerð síðustu kynslóðar iPhone-síma) eru tvær myndavélar á bakhliðinni. Báðar með innbyggðri hristivörn og þökk sé nemum á framhlið símans styður hann nú einnig Portrait-myndir á framhliðinni. Þessi möguleiki kom fyrst fram á iPhone 7 Plus. Þetta virkar þannig að með tveimur myndavélum er hægt að ná fram aðskilnaði á milli forgrunns og bakgrunns og þannig breyta fókus eftirá. Þannig er hægt að ná fram svokölluðum bokeh-áhrifum eins og fást með stórum dýrum linsum. Síminn kemur með annað hvort með 64 eða 256 gígabita geymsluplássi og mun kosta minnst 999 Bandaríkjadollara (um 110.000 íslenskar krónur).
iPhone X er nýtt flaggskip
iPhone X er þó ekki eiginlegur arftaki iPhone 7 eða 7 Plus. Hann er talvert dýrari en þeir báðir og er í raun hugsaður sem takmarkalaust flaggskip; Það sem er hægt að gera þegar dregið er úr kröfum um að halda niður verði á íhlutum símans. AMOLED-skjárinn kostar til dæmis þrisvar sinnum meira en skjárinn á iPhone 7. Myndavélin er dýrari sem og umgjörðin. Þetta er flaggskip fyrir þá sem vilja það nýjasta og besta. Nafnið X er svo dregið af því að nú eru 10 ár síðan fyrsti iPhone-síminn kom í sölu árið 2007.
Apple kynnti einnig iPhone 8, rökréttan arftaka iPhone 7. Ef Apple hefði fylgt nafnahefðinni sem var sett með 3GS þá hefði þessi sími verið kallaður iPhone 7S.
iPhone 8 er að mestu leyti eins útlitslega og iPhone 7, sem einnig var að mestu leyti eins og iPhone 6 og 6S. Það væri þó rangt að segja að iPhone 8 væri nákvæmlega eins. Skelin er örlítið stærri og passar því líklegast ekki í hulstur af eldri símum. Bakhliðin er, eins og á iPhone X, úr hertu gleri. Skjáirnir eru með sömu upplausn og iPhone 7 og 7 Plus en styðja nú True Tone-tækni Apple sem hefur aðeins verið í boði í iPad Pro-spjaldtölvunni. Með True Tone aðlagar skjárinn sig að umhverfislýsingu og gefur bestu mynd hverju sinni. Bæði iPhone X og 8 styðja svo loksins snertilausa hleðslu.
Margt er áhugavert við nálgun Apple með þessu nýja þríeyki og óhætt að segja að markaðsdeild fyrirtækisins hefur ekki staðið frammi fyrir jafn krefjandi verkefni í langan tíma. Markmiðið er væntanlega að gera iPhone X aðlaðandi án þess að það skaði sölu á iPhone 8. Flestir myndu væntanlega velja iPhone X ef ekki væri fyrir verðið en hann er jú talsvert dýrari. Líklegt er að framboð af flaggskipinu verði takmarkað í fyrstu.
Fluttar hafa verið fréttir af erfiðleikum við framleiðslu símans og líklegt er að margir muni annað hvort sætta sig við iPhone 8 eða leita á önnur mið. Samsung og LG munu taka neytendum fagnandi sem vilja í rammalausa síma en eiga aðeins 100.000 krónur til að eyða.
Ekkert kom fram í kynningu Apple í gær um verð eða útgáfutíma á Íslandi en ef eitthvað er að marka reynslu Íslendinga undanfarin ár þá má búast við iPhone 8 í sölu í lok september og að hann muni kosta frá 120.000 krónum. iPhone X fer ekki í sölu í Bandaríkjunum fyrr en í nóvember og skilar sér vonandi hingað til Íslands fyrir jól.
Uppfærðar stuðningsgræjur
Auk nýrra síma kynnti Apple einnig þriðju kynslóð snjallúranna Apple Watch. Útlitið er það sama og á fyrri úrum en það hefur nú bæði meira afl og er nú í fyrsta skipti í boði með innbyggðu 4G-farneti. Þannig verður hægt að streyma tónlist, fá upplýsingar beint í forritin og taka símtöl annað hvort beint á úrið eða í gengum þráðlaus heyrnatól.
Með Apple Watch 3 og Apple Airpods er komin hin fullkomna hlaupagræja fyrir þá sem vilja hlaupa með sem minnstan farangur. Í kynningunni á Apple Watch kom fram að Apple er orðinn stærsti úraframleiðandi í heimi ef horft er á veltu og að 97 prósent notenda séu ánægðir með vöruna. Til marks um það var sýnd auglýsinga þar sem notendur Apple Watch lásu upp bréf sín til fyrirtækisins þar sem þeir lofsama úrið og hvernig það hefur nýst í þjálfun eða baráttu við fötlun eða aðrar hindranir.
Einnig var kynnt upfærsla á Apple TV sem styður bæði 4K-myndefni og HDR-myndgæðatækni. Útlitið er það sama og áður og þeir sem höfðu vonast eftir endurhönnun á fjarstýringuna fengu ekki ósk sína uppfyllta. Þú munt þess vegna áfram snúa fjarstýringunni öfugt og spóla langt inn í myndina með tilheyrandi pirringi.
Heilt yfir var viðburður Apple vel heppnaður. Steve Jobs Theater lítur virkilega vel út og loksins er Apple komið með vettvang fyrir kynningar sem er í sama gæðaflokki og vörurnar sem það kynnir. Áhugavert verður þó að sjá hvernig iPhone 8 og X seljast. Það er augljóst að iPhone X er framtíð Apple og iPhone-vörumerkisins.
Spurningin er eftir sem áður: Munu kaupendur sætta sig við iPhone 8? Munu þeir sætta sig við verðið á X eða verður vistarband Apple neytenda loksins afnumið?
Eina sem er öruggt er að vísareikningur margra Apple-neytenda mun snarhækka á næstu mánuðum.