Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á fund með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum klukkan 11 í dag. Þar mun hann leggja til að þing verði rofið og boðað til kosninga 28. október.
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, fundar með öllum formönnum stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi um framkvæmd þingsins fram að kosningum. Ekki er víst að þingið muni starfa, en það veltur að öllum líkindum á þessum fundi og því að flokkarnir geti komið sér saman um mál sem eiga að fá umfjöllun.
Á Bessastöðum klukkan 11:00
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á fund með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, klukkan 11 í dag. Fundurinn fer fram að Bessastöðum eins og hefð gerir ráð fyrir.
Á fundinum mun Bjarni leggja til beiðni um þingrof og kosið verði til Alþingis innan 45 daga. Þess vegna er útlit fyrir að kosningar fari fram 28. október, en ekki 4. nóvember eins og formenn stjórnmálaflokka höfðu rætt um við forseta á laugardaginn.
Ef kosningarnar fara fram 28. október þurfa stjórnmálaflokkar að skila framboðslistum eigi síðar en 13. október. Það er þess vegna ljóst að kosningabaráttan verður snörp og ekki mikill tími fyrir mikla yfirlegu yfir framboðslistum og málefnaskrám.
Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir að Guðni muni ávarpa fulltrúa fjölmiðla eftir fundinn.
Afar ólíklegt verður að teljast að Guðni hafni þingrofsbeiðninni. Það hefur enginn forseti í lýðveldissögunni gert, og miðað við orð lögspekinga þá er það jafnvel andstætt stjórnarskrá því ráðherrar fara með vald forseta, eins og þekkt er orðið.
Á Alþingi klukkan 12:30
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, ræðir við formenn allra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi í dag klukkan 12:30. Á þeim fundi mun ráðast hvort Alþingi muni starfa áfram, næstu vikurnar, eða þar til flokkarnir þurfa að einhenda sér í kosningabaráttu.
Jafnvel þó ríkisstjórnin sé fallin og umboðslaus – þar sem hún hefur ekki lengur stuðning meirihluta þingmanna – þá hefur Alþingi enn sitt umboð í rúmlega þrjú ár í viðbót.
Bjarni Benediktsson hefði tæknilega séð getað reynt að mynda nýjan meirihluta á Alþingi, en reynsla síðasta vetrar sýndi að slíkt yrði mikil þrautaganga og nær ómögulegt. Á sama hátt hefðu aðrir flokkar í þinginu getað reynt að mynda meirihluta um nýja ríkisstjórn. Skjótasta lausnin á þessu vandamáli er hins vegar að boða til kosninga.
Fulltrúar stjórnmálaflokkana hafa allir lýst yfir vilja til að ræða ákveðin mál. Ljóst er að Alþingi mun ekki komast yfir öll málin sem formennirnir leggja til og þess vegna veltur áframhaldandi þinghald á því hvort flokkarnir geti komið sér saman um fáein brýn málefni til að fjalla um.
Hér að neðan má sjá þau mál sem hver flokkur hefur lagt til í umræðunni síðustu daga.
Sjálfstæðisflokkur
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í fréttum RÚV í gær að það þyrfti að ganga frá ákveðnum málum í þinginu en stóra málið sé að kosningabaráttan er hafin. Hann segir að huga þurfi að því að ekki sé búið að mæla fyrir neinum málum, þau séu ekki farin til nefndar, til umsagnar og að einungis sé búið að tala fyrir fjárlagafrumvarpinu. „Þannig að það er ekki eins og menn hafi frjálst val um það að keyra stór mál í gegn,“ segir hann.
Vinstri græn
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vill sjá breytingu á Útlendingalögum. Að réttaráhrif frestist gagnvart hælisleitendum og börnum í hópi hælisleitenda.
Píratar
- Frumvarp um að veita tveimur stúlkum á flótta og fjölskyldum þeirra sem vísa á úr landi ríkisborgararétt,
- Frumvarp sem þolendur kynferðisafbrota hafa kallað eftir um að barnaníðingar geti ekki starfað sem lögmenn, og
- Frumvarp um eina breytingu á stjórnarskránni svo hægt verði á næsta kjörtímabili að breyta stjórnarskrá Íslands með aðkomu kjósenda án þess að rjúfa þing og boða til kosninga.
Framsóknarflokkurinn
Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir að ekki komi annað til greina en að það verði sameiginleg niðurstaða allra flokkana að taka mál fyrir. Það verði ekki gert öðruvísi.
Viðreisn
Formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, telur að breið samstaða gæti náðst um ákveðin velferðismál. Viðreisn vill sjá auðlindaákvæðið stjórnarskrárinnar tekið fyrir. Að hans mati verða fjárlög ekki afgreidd á þessum tíma. Til þess að málin nái fram að ganga þarf breiða samstöðu en óljóst er hvort hún náist.
Björt framtíð
Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra og formaður Bjartar framtíðar, segir að mörg mikilvæg mál hafi verið sett fram eins og frumvarp um notendastýrða persónulega aðstoð. Yfirlýst frumvört í sambandi við beitingu Dyflinarreglugerðarinnar gagnvart flóttamönnum. Að hans mati væri gott að ná sátt um á þinginu og klárað sem allra fyrst.
Samfylkingin
Logi Már Einarsson greindi frá því í gær á Facebook-síðu sinni að kaldlynt væri ef fall stjórnar, vegna meðferðar mála sem varða ofbeldi gegn börnum, verði til þess að öðrum börnum í neyð verður varpað út á gaddinn.
„Nú verður þingi slitið fljótlega og óvíst hvenær nýtt þing getur tryggt þeim og öðrum börnum sanngjarna meðferð. Ég mun því leggja kapp á að fá frumvarp um ríkisborgararétt til handa Mary, Hanyie og fjölskyldum þeirra samþykkt fyrir kosningar,“ segir hann. Einnig telur hann að taka þurfi afstöðu til stjórnarskrárinnar.