Mikill óvissa ríkir um hvort þeir sem leigi út íbúðirnar sínar í gegnum Airbnb greiði skatt af þeirri leigu. Alls velti heimagisting í gegnum Airbnb í Reykjavík um 46 milljónum evra í fyrra, eða um 6,1 milljarði króna. Á fyrstu átta mánuðum ársins 2017 er áætlað að veltan sé 50,5 milljónir evra, eða um 6,6 milljarðar króna, samkvæmt tölum sem Hagfræðideild Landsbankans hefur aflað í gegnum greiningafyrirtækið Airdna, sem safnar samtímagögnum af vefsíðu Airbnb.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri efnahagsgreiningu Landsbankans á ferðaþjónustu á Íslandi sem birt var í dag.
Alls óvíst að greiddur sé skattur
Talið er að um 15 prósent af veltunni fari beint til Airbnb. Á fyrstu átta mánuðum ársins í ár er það um milljarður króna en allt árið í fyrra var sú upphæð um 900 milljónir króna. Landsbankinn telur alls óvíst að fyrirtæki eins og Airbnb greiði nokkurn skatt af starfsemi sinni hérlendis. Þá liggur heldur ekkert fyrir um hversu margir þeirra sem leigja út íbúðirnar sínar í gegnum deilihagkerfið greiði skatt af tekjum sínum vegna þeirrar útleigu. Raunar bendir flest til þess að ansi margir geri slíkt ekki.
Samkvæmt lögum eiga allir einstaklingar sem ætla að bjóða heimagistingu að tilkynna sýslumanni um slíkt. Við skráningu ber viðkomandi aðila að staðfesta að húsnæðið uppfylli kröfur í reglugerð um brunavarnir, það hafi hlotið samþykki sem íbúðarhúsnæði og að húsnæðið sé fullnægjandi með tilliti til hollustuhátta samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Alls eru 927 með skráða heimagistingu. Innifalið í því eru aðilar sem reka gistiheimili og bændagistingu. Þar er því alls ekki einungis um Airbnb-útleigjendur að ræða. Í þessu samhengi má nefna að 3.049 fasteignir í Reykjavík voru skráðar til útleigu á Airbnb í ágúst 2016. Þeim hafði þá fjölgað um 80 prósent á milli ára. Og miðað við aukna veltu á árinu 2017 má ætla að þeim fasteignum hafi síst fækkað.
Í skýrslu Landsbankans segir: „Airbnb greiðir gestgjöfunum inn á bankareikning hérlendis eða erlendis, eða inn á Paypal-reikning. Mikil óvissa ríkir um hversu hátt hlutfall af þeim tekjum er gefið upp til skatts hér á landi.“
Allt að 50 prósent markaðshlutdeild
Landsbankinn áætlar því, út frá þeim tölum sem hann byggir greiningu sína á, að Airnbnb sé með um 40 prósent markaðshlutdeild í hótelgeiranum í Reykjavík. Ef Airbnb-gisting í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur er tekin inn í dæmið sé ekki ólíklegt að markaðshlutdeildin sé nálægt 50 prósent.
Í skýrslunni segir: „Hver er t.d. ábyrgð stjórnvalda á að skapa sanngjarna samkeppnisstöðu á milli Airbnb-gistingar og hótela, að tryggja að eftirlit sé sanngjarnt og íþyngi ekki einni tegund gistingar (hótelum og gistiheimilum) umfram aðra (s.s. Airbnb). Það telst líka tæpast sanngjarnt að hótel og gistiheimili þurfi að greiða fyrir leyfi, greiði skatta og þurfi að taka tillit til ýmissa samfélagslegra þátt í þéttri íbúabyggð o.s.frv. á meðan Airbnb-gisting fær nánast frjálsar hendur.“
Hefur áhrif á innlendan húsnæðismarkað
Útleiga á heimilum til ferðamanna hefur gert það að verkum að Ísland hefur getað tekið á móti þeim gríðarlega fjölda ferðamanna sem hefur komið hingað til lands á undanförnum árum, þar sem uppbygging hótela hefur ekki getað haldið í við þá aukningu. Skýrsluhöfundar benda á að nýting á hótelum hérlendis hafi dregist saman í byrjun sumars, þrátt fyrir að við blasi að skortur sé á hótelrýmum til að þjónusta síaukinn fjölda ferðamanna sem sækir Ísland heim. Ástæðan sé sú að framboð af Airbnb íbúðum sé enn að aukast. Það hefur áhrif á rekstrarhæfi hótela og getu þeirra til að greiða þeim sem fjármagna byggingu þeirra, t.d. bönkum eins og Landsbankanum.
Önnur alvarleg hliðarverkun af aukinni Airnbnb-útleigu er sú að hún hefur spilað stóra rullu í því að húsnæðisverð hefur hækkað gríðarlega á örfáum árum með því að draga verulegu úr framboði á markaði þar sem eftirspurn er gríðarleg. Þar spila vitanlega aðrir þættir líka stóra, og jafnvel stærri rullu. Mestu máli skiptir að einfaldlega hefur ekki verið byggt nægjanlega mikið nægjanlega hratt til að halda í við eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Þá hefur innkoma hagnaðardrifinna leigufélaga einnig haft áhrif.
Afleiðingin er sú að húsnæðisverð á öllu íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 91 prósent frá því í desember 2010. Íbúðalánasjóður metur það sem svo að það vanti um 9.000 íbúðir á næstu þremur árum, eða til loka árs 2019, til að anna eftirspurn.