Vinur minn lést úr lungnakrabbameini í Barcelona aðeins fjörutíu og sex ára. Hann hét Pétur Leifur en bjó megnið af sínu alltof stutta lífi þar í borg. Ég var svo lánsöm að kynnast borginni í gegnum hann þegar ég bjó þar í tvö ár, frá 2006 til 2008.
Pétur hafði þá búið á þriðja áratug í borginni, hann flutti þangað kornungur ásamt íslenskri kærustu og þau ílengtust en giftust bæði Spánverjum. Hann gjörþekkti borgina, alla leyndu lókalstaðina, en saknaði hennar eins og hún hafði verið fyrir ólympíuleikana, áður en vinsældir hennar urðu svona ofboðslegar.
Pétur var áberandi víðlesinn, sælkeri og fagurkeri fram í langa, mjóa fingurgóma; þáverandi sambýliskona hans var ein þokkafyllsta kona sem ég hef hitt, söngkona í kabarettum sem vann líka við garðyrkju, léttstíg eins og hind en borðaði kalt nautakjöt í morgunmat og drakk cafe solo með því. Þau voru bæði svo léttstíg að það var draumkennt að horfa á eftir þeim svífa eftir þröngum strætum borgarinnar sem þau þekktu svo vel. Pétur átti til að segja að Barcelona væri púðurtunna, einn daginn myndu Katalanir krefjast sjálfstæðis og þá yrðu átök. En Pétur sagði svo margt, hann spáði því líka að bráðum myndi efnahagslífið hrynja á Íslandi.
Allt í einu var hann dáinn. Og nokkrum dögum eftir jarðarförina byrjaði íslenska krónan að falla og svo kom Hrunið og allt í einu var ég flutt heim og hef ekki komið síðan þá til Barcelona.
Allt að springa
Hvað ætli Pétur hefði sagt núna? hugsaði ég yfir nýjustu fréttunum af ástandinu í Barcelona og datt um leið í hug að hafa samband við sameiginlega vinkonu okkar, Hólmfríði Matthíasdóttur: stúlkuna sem flutti fyrir meira en þrjátíu árum með Pétri til Barcelona og hefur búið þar allar götur síðan, þangað til hún tók nýverið við stjórn Forlagsins sem útgefandi.
Pétur sagði að þetta ætti allt eftir að springa, sagði ég við hana í símann og hún svaraði að bragði: „Sem það er á leiðinni að gera.“
Hólmfríður var þá stödd á flugvelli í útlöndum að bíða eftir kvöldflugi en til í morgunsopa. Daginn eftir drakk ég kaffi með henni og bústna kettinum hans Jóhanns Páls og fékk að heyra allt saman.
Andúð á Katalönum
„Við héldum aldrei að þetta myndi gerast,“ sagði hún strax. „Þjóðernissinnar hafa alltaf talað um sjálfstæði Katalóníu en manni fannst það aldrei vera raunhæfur möguleiki því þeir voru í svo miklum minnihluta. Það var erfitt að sjá fyrir þessa þróun síðustu árin. Þetta er svo flókin flétta sem fór af stað. Í kringum 2000 hafði Lýðflokkurinn verið við stjórn en með nauman meirihluta og þurfti stuðning CIU (Convergència i Unió), hægri þjóðernisflokks sem var leiddur af Jordi Pujol.
Í kosningunum 2000 náði Lýðflokkurinn svo þægilegum meirihluta og þurfti ekki lengur á stuðningi CIU að halda svo hann fjarlægðist fyrrum stuðningsflokkinn, eins og af skömm. Um leið upphefst á Spáni hálfgerð andúð á Katalónum. Ég get ekki fest fingur á þetta en ég hef upplifað það hjá vinunum mínum sem búa utan Katalóníu. Þessi tilfinning: Katalónar vilja ekki vera með okkur – gýs upp. Og ég tengi það við tímapunktinn þegar Lýðflokkurinn reyndi að fjarlægjast CIU.“
Greiðslur til Katalóníu dragast
„Með stuðningnum við Lýðflokkinn hafði CIU fengið vilyrði fyrir auknum réttindum í Katalóníu – sem varð ekkert af,“ útskýrir Hólmfríður, píreyg af því að þýða spænskan veruleika yfir í þann íslenska. „Þeir eru óánægðir með það og hafa sóst eftir að fá þau.
Héruðin innan Spánar hafa mismikil réttindi. Katalónía er á pari við Madrid og Andalúsíu hvað réttindi varðar. En Baskahéruðin og Navarra hafa meiri réttindi en önnur af sögulegum ástæðum, þ.e. stjórn yfir eigin fjármálum og skattamálum.
Skattinnheimtan fer þannig fram að skatturinn, sem er innheimtur, skiptist á milli héraðsins og landsins. Ríkið innheimtir skattinn og útdeilir svo fé til Katalóníu á meðan þessu er öfugt farið í Baskahéruðunum. Þetta er náttúrlega stjórnunartæki. Katalónar hafa m.a. barist fyrir því að fá að innheimta skattinn sjálfir því þegar að spænska stjórnin innheimtir hann og borgar til þeirra dragast greiðslurnar og þá geta þeir ekki staðið við skuldbindingar sínar innan katalónska stjórnkerfisins, eins og t.d. greiðslur til starfsmanna eða niðurgreiðslu á lyfjum í apótekum.“
Ný stjórnarskrá felld
„Baráttan fyrir þessum auknu réttindum, sem hófst árið 2000, kristallaðist árið 2006 í því að ný stjórnarskrá, L‘Estatut, fór í gegnum katalanska þingið þar sem hún var rædd og samþykkt.
Þaðan fór hún til Madridar. Sósíalistar voru þá við völd, hún var rædd á þinginu og skorin niður en á endanum samþykkt. Þessi stjórnarskrá er mjög umdeild því fram í henni kom að Katalónar væru þjóð. Það fór fyrir brjóstið á hægri mönnum (Lýðflokknum) og þeir stóðu fyrir undirskriftasöfnun, kærðu L‘Estatut og fóru með stjórnarskrána fyrir stjórnardómstólinn. Sem felldi úr gildi marga meginþætti hennar og endursamdi aðra.
Katalónum fundust þeir hafa verið lítillækkaðir. Skjalið hafði farið í gegnum þingið þeirra og síðan spænska þingið og eftir að hafa verið samþykkt á báðum þingum fór það í þjóðaratkvæðagreiðslu í Katalóníu þar sem það var líka samþykkt, þannig að úrskurður stjórnlagadómstóls Spánar var mikið reiðaslag. Í kjölfarið kemst róttækari þjóðernisflokkur til valda í Katalóníu og síðan þá hefur verið uppgangur í þjóðernishyggju í Katalóníu. Vinstri þjóðernisflokkurinn, ERC (Esquerra Republicana de Catalunya), hefur til dæmis átt vaxandi fylgi að fagna.“
Bannað að tala katalónsku
„Katalóníumönnum finnast þeir vera sérþjóð. Þeir hafa eigin tungu, eigin menningu, eigin sögu. Meðan Franco var við völd var bannað að tala katalónsku opinberlega, fólk talaði hana heima hjá sér. Í fjörutíu ár var hún ekki kennd í skólum. Eldra fólk í Katalóníu kann ekki að skrifa rétt, það lærði aldrei réttritun á móðurmáli sínu. Og enn þann dag í dag geturðu lent í vandræðum ef þú talar katalónsku við þjóðvarðliða í Katalóníu. Undiraldan er vissulega þung.
Í kringum 2010 kom upp mikið spillingarmál í flokknum CIU og nýr formaður, Artur Mas, notaði sér þessa vaxandi þjóðernisbylgju í pólitískum tilgangi til að yfirgnæfa umtal um spillinguna. Hann þrýsti á spænska ríkið til að auka hróður sinn sem stjórnmálamanns í Katalóníu og það fór úr böndunum. Hann fékk miklu meiri undirtektir en hann átti von á og skriðan fór af stað.
Spánarstjórn hefur ekki sýnt neinn vilja, nokkur tímann, til að setjast niður, ræða málin og semja. Þó svo maður sé ekki hlynntur þessari þjóðernisstefnu, þá verður að segjast eins og er, að þeir hafa margsinnis reynt að fá Spánarstjórn í viðræður en Mariano Rajoy, formaður Lýðflokksins og forsætisráðherra landsins, hefur alltaf neitað.“
Gamli Franco-Hundar í Lýðflokknum
„Lýðflokkurinn hefur aldrei gert upp við Franco-tímann. Spánn er land þar sem málin eftir borgarastríð hafa enn ekki verið gerð upp. Ennþá eru fjöldagrafir sem hefur ekki mátt grafa upp svo fólk geti jarðað ættingja sína undir nafni.
Það hefur ekki verið vilji fyrir því að gera upp þessi mál, fyrir vikið hefur verið fullkomið skjól fyrir þessa gömlu Franco-ista innan Lýðflokksins, þó að auðvitað sé allskonar fólk í þessum flokki. Það sem kemur öllum á óvart er hversu grunnt er á andúð, hatri og illsku. Ég held að það sé út af því að þetta hefur ekki verið gert upp. Gömul óvild kraumar undir niðri.“
Forsætisráðherra blessar ofbeldi
Á tímum Francos flúðu upplýstir hægrimenn land, rétt eins og vinstri menn, og eftir stóðu stuðningsmenn Francos, eða afturhaldið, og arftaki þeirra var Lýðflokkurinn, að sögn Hólmfríðar.
„Átökin í Katalóníu núna snúast ekki lengur aðeins um sjálfstæði Katalóníu heldur fyrst og fremst um borgaraleg réttindi og lýðræði. Ég veit um mjög marga sem hafa engan áhuga á að Katalónía verði sjálfstætt land en vilja samt láta kjósa um það. Þeim finnst það þeirra borgaralegi réttur.
Margir í Katalóníu segja að Rajoy forsætisráðherra sé búinn að sjá um kosningabaráttuna fyrir aðskilnaðarsinna því fylgi þeirra hefur vaxið svo eftir viðbrögð spænskra yfirvalda. Lögreglumenn beittu ofbeldi og forsætisráðherra blessaði það í sjónvarpinu.
Það væri ennþá hægt að stöðva þessa framvindu ef að báðir aðilar væru reiðubúnir að semja. Katalónska stjórnin hefur lengi gefið til kynna að hún vilji samninga en Lýðflokkurinn þvertekur fyrir það að semja. Þeir óttast það að hin héruðin fylgi í kjölfarið og krefjist meiri ívilnanna.“
Fyrirtækin flýja
„Raddir segja að átökin henti Lýðflokknum ágætlega því á meðan er ekki talað um spillingarmálin sem hrjá báða aðila, Lýðflokkinn og CIU, heldur bara átök Spánar og Katalóníu.
Ræða kóngsins í vikunni sem leið var olía á eldinn. Katalónum fannst eins og kóngurinn væri genginn í Lýðflokkinn svo ólíklegasta fólk fór að upplifa sig sem þjóðernissinna. Kóngurinn á auðvitað að vera sameiningartákn fyrir flókna þjóð með langa og erfiða sögu.
Nú eru fyrirtæki farin að flytja höfuðstöðvar sínar út fyrir Katalóníu því hlutabréf eru farin að lækka og sjálfstæð væri Katalónía ekki innan ESB. Sabadell-bankinn flutti til dæmis höfuðstöðvar sínar til Alicante í vikunni og hækkaði á verðbréfamarkaði í kjölfarið.
Katalónía gæti lýst yfir einhliða sjálfstæði á næstu dögum. Harðir þjóðernisflokkar ýta á að það verði gert núna meðan forseti Katalóníu virðist ennþá vona að Spánarstjórn semji.“
Lög gegn mótmælum borgaranna
Hólmfríður tekur sér málhvíld til að strjúka kettinum áður en hún segir að þau Pétur hafi komið til Barcelona 1982 þegar landið hafi rétt verið að skríða undan einræðinu en Franco dó 75. „Ég upplifði svo mikið einstaklingsfrelsi þá en mér finnst þetta frelsi ekki vera jafn mikið í dag.
Ástæðan fyrir því eru meðal annars lög sem tóku gildi á Spáni 2015 þar sem að fólki er bannað að mótmæla nálægt spænska þinginu eða opinberum byggingum, taka myndir af lögreglumönnum við störf – eins og þjóðvarðaliðunum sem börðu fólk um daginn. Það má ekki hindra að fólk sé borið út af heimilinu eftir gjaldþrot og eins er bannað að dýraverndunarfélög mótmæli meðferð á dýrum. Þetta eru kölluð þöggunarlögin á Spáni, þau beinast gegn mótmælum hins almenna borgara.
Vegna hryðjuverka hafa löggæslumenn fengið auknar heimildir til þess að rannsaka borgarana og þannig hefur friðhelgi einkalífsins þurt að lúta í lægra haldi. Það er ekki verið að rannsaka mig en ég finn að það hefur dregið úr borgaralegum réttindum, þó að það hái mér ekki í daglegu lífi,“ segir Hólmfríður og byrjar að ókyrrast. Vinnan bíður jú, það liggur á að búa til bækur.